23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. samgmn. (Jóhann Jósefsson):

Við þessa 3. umræðu fjárlaganna þykir mjer rjett, fyrir hönd samgmn. þessarar hv. deildar, að gera stuttlega grein fyrir þeim tillögum, sem nefndin hefir leyft sjer að gera um úthlutun á styrk til flóabáta. Þegar hv. samgmn. í Nd. gerði sínar tillögur um þennan styrk, þá var hann nokkru lægri heldur en hann varð síðar, því við 3. umr. fjárlaganna í neðri deild var hann hækkaður úr 60 þús. upp í 70 þús. kr. Við höfum því átt hægra með að komast frá skiftunum heldur en samgmn. í háttv. Nd., enda sýndi það sig, að hún gat ekki orðið á eitt sátt, hvernig skifta bæri styrknum. Aftur hefir samgmn. hjer orðið á einu máli. En það kemur í ljós, þegar öll þrjú nál. eru borin saman, að báðir nefndarhlutar í Nd. og nefndin hjer álíta, að undanfarið hafi of miklum styrk verið varið til Borgarnesferðanna. Það er því einróma tillaga að lækka hann talsvert, í hlutfalli við aðra slíka styrki. Hvað Ísafjarðarbátinn snertir, þá fer nefndin í Ed. einskonar meðalveg milli nefndarhlutanna í háttv. neðri deild.

Um styrk til Breiðafjarðarbáts erum við sammála meiri hluta samgmn. í hv. Nd., en minni hlutinn þar vill, að sá styrkur sje miklu hærri. Þá er Skaftfellingabátur. Nefndin sá ekki annað fært en að leggja til, að styrkurinn til þess báts yrði hækkaður talsvert. Það er vitanlegt, að Skaftfellingar hafa langmesta þörf á flóabát, sem styrktur sje af opinberu fje. Þegar lækka átti flóabátastyrkinn eftir að Esja var keypt, þá var það gert með tilliti til þess, að hafnir landsins fengju þá svo góðar og greiðar samgöngur, að ekki væri þörf á að styrkja flóabáta eins mikið og áður. En nú hafa Skaftfellingar og Rangæingar, eins og kunnugt er, ekkert gagn af ferðum Esju, og því er rjettmætt, að þing og stjórn láti styrkinn til þeirra halda sjer. Samt höfum við ekki treyst til að leggja til, að Skaftfellingur fengi meira en 15 þús. kr. Þó hefir hann aldrei haft áður lægra en 16 þús. kr., og þó altaf orðið halli á rekstri hans, sem skiljanlegt er, þar sem oft ganga 46 vikur í hverja ferð hans, því að oft þarf svo lengi að bíða eftir leiði á sandana.

Þá sá nefndin sjer ekki annað fært en að taka upp nokkra styrki, sem ekki voru teknir með í háttv. Nd. Þessir styrkir eru til ferða á Rangársand, í Grímsey og Hvalfjörð. En ef Rangæingar geta komið sjer saman við stjórn Skaftfellings um ferðir á sandinn, þá höfum við ekkert á móti því, að sýslunefnd Rangárvallasýslu ráðstafi styrknum þannig, ef það sýnist heppilegra heldur en að hafa sjerstakan bát.

Loks vil jeg geta þess, að þar sem bátanöfn eru nefnd í nál. og sett í sviga aftan við styrkhæðina, þá er það ekki ætlun nefndarinnar, að það beri að skilja þannig, að styrkurinn skuli bundinn við þessa báta, heldur er þetta aðeins sett til frekari glöggvunar á því, við hvaða ferðir er átt.

Þá vil jeg líka geta þess, þó það standi ekki í nál., að nefndin ætlast til þess, að Flateyjarbátur fái tiltölulegan hluta af styrknum til Breiðafjarðarbáts, sem svari því, er hann hefir áður fengið. Þá hefi jeg ekki fleira að segja fyrir hönd samgmn.

Þá vildi jeg fara nokkrum orðum um brtt., sem jeg á á þskj. 417. Hún hefir sætt nokkuð hvössum mótmælum frá hv. 5. landsk. þm. (JJ) og órjettmætum, að mjer þótti. Og jeg hygg, að háttv. deild geti ekki tekið þau mótmæli til greina.

Það má vel vera, að upphæð sú, sem jeg geri tillögu um, að veitt verði í þessu skyni, sje helst til lítil, en jeg sá mjer ekki fært að fara lengra. Jeg held líka, að með uppfyltu skilyrðinu um tvöfalt framlag annarsstaðar frá megi talsvert gera í þessa átt. Annars voru öll mótmæli háttv. 5. landsk. þm. gegn þessari fjárveitingu bygð á algerðum misskilningi á starfsemi erindrekanna. Hann talaði um það af svo litlu viti og þekkingu, að auðheyrt var, að hann ber ekki hið minsta skyn á fisksölu og sjávarútveg og er algerlega óvitandi um, hvað fyrir hann þurfi helst að gera. Og satt að segja ætlaðist jeg ekki til þess, að hann hefði vit á þessum hlutum. Hann er skólamaður og „idealisti“ og sjálfsagt vel heima í ýmsum bóklegum fræðum, en ber hins vegar nauðalítið skyn á „praktiska“ hluti. En þá er það líka óviturlegt af honum að halda, að hægt sje að taka mark á því, sem hann segir um þau efni. Það kom líka fljótt í ljós hjá honum, að það, sem hann var í raun og veru á móti, var stjettin, sem tillaga mín varðaði aðallega, verslunar og útvegsstjettin. Öll sú mikla andúð hv. þm., sem hann nú fjekk kærkomið tækifæri til að láta í ljós, beindist að henni og að því, á hversu lágu menningarstigi sú stjett stæði.

Nú skal jeg færa nokkur rök fyrir því, sem jeg sagði áðan um þekkingarleysi hans á þeim sökum, sem hann virtist helst telja sig bæran að dæma um. Hann mintist á, að við hefðum haft sendimann á Spáni, og er það auðvitað rjett. En svo spyr hann þessarar spurningar: Notaði þá nokkur þennan sendimann? Þetta sýnir ljóslega, hversu þekkingarleysi hans í þessum efnum er takmarkalaust og hversu sljór og vanþroskaður skilningur hans er, þegar hann heldur, að erindrekinn á Spáni hafi átt að notast sem einskonar verslunarumboðsmaður eða milliliður við fisksöluna. En nú get jeg frætt hann á því, að það var aldrei tilætlunin með sendimann okkar á Spáni, að hann ætti að hlaupa erindi mín og annara til að selja fisk. Starfsemi slíkra sendimanna er í alt öðru fólgin. Þeir eiga að rannsaka ástandið alment, kynna sjer markaðshorfur á hverjum tíma, en eiga alls ekki að vera erindrekar fyrir neinn sjerstakan, hvorki kaupfjelög, kaupmenn eða útgerðarmenn. En þessi hrapallegi misskilningur veldur andstöðu háttv. þm., að sleptri lönguninni til að skamma útvegsmenn og verslunarmenn, og vænti jeg þess, að hann átti sig nú eftir að jeg hefi gefið honum þessar upplýsingar í málinu. Það ætti líka að vera hverjum manni auðskilið mál, að það er heppilegt að hafa einn opinberan umboðsmann á þessum stöðum, því eðlilega myndi til dæmis spanskur maður, sem vildi leita sjer upplýsinga um fiskbirgðir hjer, betur trúa orðum hans en til dæmis orðum einhvers sjerstaks kaupmanns, sem kynni að dvelja á Spáni. Er það jafnan svo, að menn fara frekar eftir því, sem menn í opinberri stöðu segja, heldur en „privat“-menn, sem hafa máske hagsmuna að gæta í sambandi við það mál, sem um er að ræða.

Hv. sami þm. talaði líka mjög um það, að ekki væri mikið gerandi fyrir útvegsstjett þessa lands. Það má vel vera, að eftir hans mælikvarða hafi hún ekki mikinn „kultur“ til að bera, en þó að minni hyggju svipaðan eins og menn alment í þeirri stjett og stöðu. Þeir eru raunar ekki úr hans skóla, og hafa því farið í lífinu á mis við þann „kultur“, sem þar ríkir og sem jeg fæ ef til vill síðar tækifæri til að víkja að. Þá sagði háttv. sami þm„ að útvegsmenn hefðu tortrygt útflutningsnefndina 1919. Jeg þarf varla að taka það fram, að þetta er, eins og alt annað, sem hann sagði viðvíkjandi þeirri nefnd, staðlaust fleipur. En sammála get jeg verið honum í því, að heppilegt væri, að verslunarmenn og framleiðendur kyntu sjer sjálfir Spán og Miðjarðarhafslöndin, en það er varla við því að búast, að hver og einn, sem framleiðsluna stundar, geti tekið sjer ferðir á hendur í því skyni.

Loks kom svo háttv. 5. landsk. þm. að þjóðráði sínu, því, að taka öll ráð af útvegsmönnum og gera þá ómynduga. Á það að vera í samræmi við „kultur“ þeirra að dómi háttv. þm. Jeg hefi altaf verið þeirrar skoðunar, að það sjeu lítil bjargráð í því, að gera þessa menn eða aðra menn í þjóðfjelaginu ómynduga, og þótt sjálfur háttv. 5. landsk. þm. fengi vald til þess, sem mjer hvorki kemur til hugar að spá nje óska, þá býst jeg við, að hann myndi fljótt komast að raun um, að það yrði hvorki til happa nje heilla fyrir hann eða þjóðina. Hefir þetta verið reynt í einu landi, Nýfundnalandi, og gafst það svo þar, að stjórnin neyddist til að veita þessum mönnum myndugleikann aftur og fella allar þvingunarráðstafanir úr gildi innan 12 mánaða eftir að byrjað var að beita þeim. Eitthvað svipuð gæti jeg hugsað mjer, að reynslan yrði hjer.

Að því er erindrekann á Spáni snertir þá skal jeg ekki um það dæma, hvort hann hefir verið eins fullkominn og æskilegt hefði verið eða ekki. En hinu hefi jeg haldið fram, að stjórnin hafi ekki að undanförnu gert nóg til þess að gera tilkynningar frá sendimönnum sínum heyrinkunnar, og brýndi jeg fyrir henni að hafa nákvæmara eftirlit með því eftirleiðis, að tilkynningar þeirra gætu komið mönnum að notum. Og það eru miklu síður hinir stærri fiskkaupmenn, sem gagn hafa af því, heldur en allur sá hluti þjóðarinnar, sem sjávarútveg stundar. Þótt háttv. 5. landsk. vilji nú slá því föstu, að landsmenn hafi ekki hingað til haft neitt gagn af erindrekanum á Spáni, þá er sú staðhæfing ekki nema blaður út í loftið. Mjer er kunnugt um það, að í þeim tillögum frá erindrekanum, sem fyrir liggja, er svo margt nýtilegt, að ef þær væru notaðar eins og mætti, þá væri þar með langsamlega uppborinn kostnaðurinn, sem tillaga mín hefir í för með sjer.

Það er því ekki þess vegna fyrst og fremst, að háttv. 5. landsk. þm. hafi til brunns að bera nokkra þekkingu á þessum efnum, að hann mælir í móti tillögu minni. Hann er heldur ekki kunnur að því að hafa lagt sig í líma til að vera þessum atvinnuvegi til gagns. Sannleikurinn er sá, að honum hefir fundist, að nú væri tækifærið fyrir sig til að sparka í þá, sem atvinnu stunda við sjávarsíðuna, enda hefir svo virst, að hann oft og tíðum sælist eftir að kasta hnútum til þeirra. Jeg skal ekkert um það segja, af hvaða hvötum það er gert, en jeg þori þó að fullyrða, að það er ekki í þökk þeirra manna, sem hann telur sig fulltrúa fyrir. Því það, að róa að því öllum árum að ala á ríg milli bænda og útvegsmanna, verður síst til þess að auka frið nje hagsæld, og eru þeir menn óþarfir í landinu, sem að því stuðla.