03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í C-deild Alþingistíðinda. (2520)

58. mál, stofnun háskóla

Tryggvi Þórhallsson:

Það mun líklega vera fyrirboði einhvers sjerstaks, að okkur hv. þm. V.-Sk. (JK) virðist svo gjarnt á að lenda hjer saman. Hv. þm. kvað það hugsunarvillu að ætla þinginu að færa menn á milli embætta og kvað það eingöngu vera í verkahring umboðsvaldsins. Jeg hjelt, að þessi hv. þm., sem einnig er lögfræðingur, vissi það, að Alþingi gæti skipað umboðsvaldinu að framkvæma vilja sinn jafnt í þessu efni sem öðrum. Hugsunarvillan verður því hans megin. — Jeg skal um leið geta þess, að mjer þykir leitt að heyra, að hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) skuli nú vera á hröðu undanhaldi í þessum málum. Í hitteðfyrra hjelt hann því óskorað fram, að ríkið hefði fullan rjett að segja embættismönnum upp starfi, er það þyrfti þeirra ekki lengur við. Nú vill hann taka tillit til „kringumstæðanna“. Gengur hann nú svo langt, að honum þykir ekki einu sinni hlýða, að þingið færi menn á milli embætta. Hjer er greinilega um undanhald að ræða. Hann vildi vísa þessum málum til stjórnarinnar með skírskotun til 16. gr. stjskr. Sú grein er nú orðin næsta gömul og man jeg ekki eftir, að hún hafi nokkurntíma verið notuð. Það átti að vísu að nota hana einu sinni við Skúla heitinn Thoroddsen, en hann færðist undan, og varð þá ekki af því. Myndi ekki geta farið eins nú, ef þessir embættismenn neituðu að fara úr embættum sínum?

Jeg skal að lokum taka það fram, að jeg væri ekki svo fjarri að taka gilda skýra yfirlýsingu hv. 1. þm. Reykv. (JJ) um það, hvað hans vilji er í þessu máli. Mun hann skilja, hvað jeg á við með því.