03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

58. mál, stofnun háskóla

Flm. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi flutt þetta frv. án þess að bera það undir þann flokk, sem jeg er í, og ber jeg einn ábyrgð á því. En hitt má vera, eins og hæstv. forsrh. (SE) gaf í skyn, að það sje svo gott sambandið meðal Íhaldsflokksmanna, að vel megi gera ráð fyrir, að það, sem einhver úr flokknum ber fram, fái stuðning hinna. Að því er snertir þetta, að færa menn á milli embætta, þá þarf jeg ekki að svara hv. þm. Str. (TrÞ), því hv. þm. V.-Sk. (JK) hefir gert það nægilega. — Hvað undanhaldið snertir, þá hefi jeg og mun ávalt halda því fram, að ríkið hefir engar skyldur að rækja við starfsmenn sína fram yfir það, sem lög kveða á um. Finst mjer og engum ungum manni vorkunn að brjóta sjer nýjan veg, þótt hann missi lítt launað embætti meðan hann er á unga aldri. En hitt verð jeg jafnframt að játa, að það er harðneskja að svifta aldraðan mann stöðu sinni, því hann á oft erfitt með að brjóta sjer nýjan veg. Er skoðun mín í þessu efni sú sama og hún hefir ávalt verið.