08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í C-deild Alþingistíðinda. (2533)

58. mál, stofnun háskóla

Magnús Jónsson:

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að bókmentastarfsemi Íslendinga stæði ekki í neinu sambandi við embættismannafabrikku háskólans. Þetta er alveg í samræmi við það, sem jeg hefi sagt, og þessvegna vil jeg einmitt hlúa að heimspekisdeild háskólans, því að það er hún, sem á að sá á þessum akri, svo að uppskeran verði okkur til gagns og sóma.

Annars blandaði þessi þm. alveg óskyldu máli inn í þetta. Jeg hefi aldrei lýst því yfir, að jeg væri á móti því að hækka laun dr. Sigurðar Nordals, en úr því að hv. þm. (TrÞ) mintist á það, þá get jeg vel sagt það nú, að jeg býst ekki við, að jeg verði með tillögu þeirri, sem fram er komin um þetta. En það er ekki af því, að jeg hafi ekki jafnmikið álit á manninum og aðrir. Jeg þekki hann mjög vel, kanske betur en flestir aðrir þingmenn, var með honum í latínuskólanum, þar sem hann var aðeins einum bekk á undan mjer. Og fanst mjer það þá þegar í stað, að hann væri engum öðrum manni líkur um andlegt atgervi. Síðan var jeg með honum í Kaupmannahöfn og loks hjer heima, og er álit mitt alveg óbreytt á honum. Jeg tel hann fremstan þeirra manna, er jeg þekki, um andlega hæfileika, án þess að aðrir sjeu með því lastaðir. En nú kem jeg að því, hversvegna jeg vil ekki, að aukið sje við laun hans með þeim hætti, sem tillagan fer fram á. Er það þá fyrst, að mjer finst það ekki rjettlátt, þar sem nú er verið að færa saman kvíarnar og svifta aðra embættum þeirra, eða að minsta kosti telja þau eftir, að taka þá einn út úr og segja: En þennan vil jeg hækka. Hann m á ekki fara, en hinir eiga að fara. Og þó eru meðal þeirra, sem fara eiga, menn, sem öll þjóðin þekkir og virðir. Það er nóg að slá þá með brottrekstrinum, þó þeim sje ekki gefinn „sinn undir hvorn“ með þessum hætti. Einnig má benda á það, að gamlir og reyndir prófessorar háskólans sitja við sömu laun og áður, laun, sem þeir jafnvel geta ekki lifað af. En loks er sú ástæðan, sem er veigamest, og hún er sú, að jeg er viss um, að þó að þingið nú veiti dr. Nordal þessa uppbót, þá kæmi eftir eitt tvö ár fram tillaga um að fella hana niður, eða að minsta kosti eftirtölur, og þær enduðu með loforðasvikum. Væri þá maðurinn aðeins svikinn til að afsala sjer góðri og lífvænlegri stöðu, sem auk þess gefur honum miklu betri aðstöðu til þess að leggja stund á áhugamál sín. Og hjer er ekki um neinar óljósar og ósennilegar getsakir að ræða. Við höfum dæmið, deginum ljósara, fyrir okkur, t. d. þar sem er annar afbragðshæfileikamaður, dr. Guðmundur Finnbogason. Landið stofnaði handa honum embætti, þegar líkt stóð á. Hann átti kost á góðu embætti erlendis og hefir síðan orðið að una því, að á hverju þingi væri embætti hans talið eftir og reynt að fá það numið úr gildi. Og slíkt eru ekkert annað en bein svik við manninn.

En þetta er alveg utan við efni þess, sem hjer á að ræða, þótt háttv. þm. Str. hafi dregið það inn í umræðurnar.

Háttv. þm. V-Ísf. (ÁÁ) sagði, að jeg hefði látið allmikinn ótta í ljósi um að það mundi með þessu eiga að byrja á því að rífa niður háskólann, alt í grunn niður. Nei, jeg sagði ekkert slíkt. Jeg benti aðeins á það, sem orðið er. Neistinn, sem kveiktur var til þess að eyða grískudósentinum, hefir nú orðið að þessu báli, sem hefir læst sig um allan háskólann. En jeg óttast ekki, að sá eldur læsist frekara um háskóla vorn, því að það þýðir þá bara, að það á að leggja háskólann algerlega niður. Hann spurði um, hve mörg „klassisk“ rit væru komin frá háskólanum okkar? Jeg svara með því að spyrja, hve mörg slík rit hafi t. d. komið frá Kaupmannahafnar- eða Kristjaníuháskólanum? Það getur vel verið að einhverju leyti rjett, að háskólarnir eru ekki sá rjetti jarðvegur, sem „klassisk“ rit vaxi upp úr. En þeir geta verið og eru líka að nokkru leyti undirbúningur undir og skilyrði fyrir, að slík rit komi fram meðal þjóðanna. Meistari Jón Vídalín hefði áreiðanlega ekki orðið sá ræðuskörungur, sem hann varð, ef hann hefði ekki verið framúrskarandi vel lærður maður og lifað með þjóð, sem átti hærri mentunar kost. Sama á við, þegar háttv. þm. V.-Ísf. er að sýna fram á gildi alþýðumentunarinnar; hún skapar engin klassisk rit af sjálfri sjer, en hún er skilyrði fyrir því, að vjer getum lifað sem mentuð þjóð, og vjer þurfum því hennar jafnt við og hinnar hærri mentunarinnar, ef skólamentaðir menn eiga að geta komið fram meðal þjóðarinnar og menningin á yfir höfuð að halda áfram að lifa meðal vor. Jeg óttast ekki svo mjög, að menning okkar muni líða undir lok við þetta, en menn verða að gæta að því, að þessi stofnun er ein af höfuðstoðum okkar menningar, enda þótt við þurfum ekki að gera ráð fyrir, að þar verði framleiddir neinir stórkostlegir afburðamenn. Afburðamennirnir, „geníin“, verða yfirleitt ekki „framleidd“ með neinum þeim aðferðum, sem við þekkjum. Þeim skýtur upp, svo að segja öllum að óvörum, úr hópi lærðra manna eða ólærðra á víxl. En á slíku er enga viðleitni hægt að byggja. Þeir eru blessun, sem þjóðir þær fá, sem vinna vel, nokkurskonar verðlaun góðra verkamanna, sem verkamenn að vísu búa ekki til, en engir fá þó, nema þeir, sem vinna vel.