29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

36. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg skal fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum, og vil jeg um leið leyfa mjer að óska þess, að ekki þyrftu að vera jafnlangar umræður um það og um síðasta mál. Samskonar frv. hefir áður legið fyrir þinginu; er þetta því margrætt mál og óþarft að rekja sögu þess.

Embætti þetta var stofnað á góðu árunum, þegar fjárhagsástæður vorar voru öðruvísi en nú. Síðasti þátturinn í þessu máli var leikinn á þingi 1922. Sparnaðarnefndin í Nd. bar þá fram frv. um afnám þessa embættis. Stóð hörð rimma hjer í hv. deild um frv., og var það afgreitt við 2. umr. á einkennilegri hátt en nokkurt annað mál, sem jeg man eftir, sem sje með þeim ósköpum, að það var „uden Hoved og Hale“, eins og frsm. komst að orði. Við 3. umr. var það afgreitt með rökstuddri dagskrá. Þess efnis, að málinu skyldi slegið á frest, í því trausti, að stjórnin legði síðar fyrir þingið tillögur um breytta embættaskipan. Nú er það alkunnugt, að stjórnin bar margar slíkar tillögur fyrir síðasta þing, svo að engin ástæða er til þess að fresta málinu lengur af þeim sökum. Nú er og komið nýtt þing, og virðist rjett að skjóta málinu undir það.

Tvær aðalhliðar eru á máli þessu. Sú fyrri, hvort embættið sje nauðsynlegt. Því hefir verið haldið fram mjög sterklega, og færð til þess tvenn rök.

Í fyrsta lagi þyrfti í heimspekisdeildinni að vera kostur á kenslu í latínu, vegna þeirra nemenda, sem leggja stund á norræn fræði og Íslandssögu, svo að þeir geti lesið á frummálinu latnesk skjöl, er varða sögu landsins á miðöldunum. Á Alþingi 1922 lá fyrir álit frá heimspekisdeildinni, þar sem hún telur æskilegt, að slík kensla verði látin í tje. Sterkar er ekki kveðið að orði. Auðvitað hlaut deildin að segja eitthvað í þessa átt, en jeg dáist að því, hve gætilega þetta er orðað.

Jeg get dálítið dæmt um þetta af eigin reynd. Jeg hefi varið nálega öllum tómstundum mínum í 10 ár eða meir til rannsóknar á sögu landsins, og hygg jeg vera sárfá skjöl og gögn, er hana varða á tímabilinu 1200–1550, sem jeg hefi ekki kynt mjer. En jeg verð að segja það, að við þessar rannsóknir hefði jeg mjög lítið saknað latínukunnáttu. Frá því sjónarmiði væri ekki síður ástæða til að kenna miðalda lágþýsku og miðalda ensku við háskólann. Þessi ástæða er svo lítilvæg, að hlægilegt væri að halda við embættinu fyrir hana.

Hin aðalástæðan fyrir nauðsyn embættisins er grískukenslan. Það hefir verið aðalstarf þessa kennara að kenna guðfræðinemendum grísku. — Þegar sparnaðarnefndin flutti frv. 1922, kom álit frá guðfræðideildinni, þar sem hún telur nauðsynlegt, að nemendur deildarinnar eigi kost á að læra grísku. Jeg skal ekki draga í efa, að það sje fyrir margra hluta sakir nauðsynlegt, að guðfræðinemendur læri grísku, svo að þeir geti lesið Nýjatestamentið á frummálinu. En jeg vil benda á annað í þessu sambandi.

Guðfræðideildin hefir að undanförnu jafnan verið að bæta við námsgreinum og lengja námið. Þó þurfa kennararnir ekki að kenna nema 1 klukkustund á dag að meðaltali, þessa 8–9 mánuði, sem kenslan stendur yfir á ári hverju. Jeg fæ ekki skilið, að neitt geti verið því til fyrirstöðu, að þeir bæti á sig grískukenslunni, og jeg er þess fullvís, að hver þeirra sem vera skal er fær um að kenna Nýjatestamentis grísku. Í þessu sambandi vil jeg skjóta því til hv. 4. þm. Reykv. (MJ), að verði biskupinn látinn kenna við háskólann, verður guðfræðideildin ekkert ófrjálsari, eins og hv. þm. var svo hræddur um, þó að biskupinn kendi þar grísku.

Niðurstaða mín verður því sú, að hvorug ástæðan er nægileg til þess að koma í veg fyrir, að embættið verði lagt niður. Það er einnig nauðsynlegt, að lögin sjeu afnumin nú, svo að embættið verði ekki veitt aftur, ef það kynni að losna.

Þá er hin hliðin á þessu máli, hvað við muni taka, ef embættið er lagt niður.

Sparnaðarnefndin 1922 lagði það til, að maður sá, sem nú gegnir þessu embætti, skyldi fá eftirlaun, ef frv. um afnám þess yrði samþykt, og varð um það mikil senna. Þá aðferð tel jeg algerlega ranga. Þetta tók hv. 2. þm. Arn. (JörB) fram í umræðunum um síðasta mál, og ennfremur hv. núverandi 1. þm. Reykv. (JÞ) á þingi 1922, að ríkið hefði skilmálalaust leyfi til að segja upp starfsmönnum sínum og væri ekki skuldbundið til að ala önn fyrir þeim æfilangt; það hefði í þessu efni sama rjett sem aðrir vinnuveitendur. Jeg skal ekki fara að endurtaka rök þessara tveggja hv. þm., en aðeins bæta einni röksemd við, þessu til stuðnings.

Það er öllum kunnugt, að ríkið veitir embættismannaefnum sínum ókeypis skólavist, og kostar stórfje til. Margir fá námsstyrk úr ríkissjóði, og sumir utanfararstyrk að loknu námi. Þessir menn fá svo embætti, en eru alls ekki bundnir við að þjóna þeim lengur en þeim sýnist. Þeir geta sagt upp starfi sínu eftir örstutta stund, án þess að ríkið hafi nokkur ráð til þess að halda í þá. Til þessa eru mörg dæmi, og skal jeg nefna eitt af handahófi. Svo sem kunnugt er, hefir ríkissjóður styrkt mann einn til náms árum saman, til þess að hann geti starfað fyrir Búnaðarfjelag Íslands sem áveituverkfræðingur. Ef þessi maður kæmi nú heim og vildi ekki líta við þessu starfi, sem hann hefir verið styrktur til að búa sig undir, heldur kysi að taka annað starf, svo sem t. d. við ritstjórn Morgunblaðsins, þá væri ekkert því til fyrirstöðu frá lagalegu sjónarmiði. En eins og þessir menn, sem ríkið hefir styrkt til náms, hafa leyfi til að hverfa frá störfum sínum, hvenær sem þeir vilja, eins á ríkið rjett á að vísa þeim úr þjónustu sinni, án þess að baka sjer nokkra skyldu til að sjá fyrir þeim eftirleiðis.

Margir menn munu líta svo á, að núverandi kennari í klassiskum fræðum sje verður opinberrar viðurkenningar og heiðurslauna fyrir stjórnmálastarfsemi sína. Jeg skal ekki dæma þar um, enda stendur það öðrum nær en mjer, þar sem jeg hefi jafnan, síðan jeg komst til vits og ára, verið honum andvígur í stjórnmálum. Alt um það virði jeg hann mjög mikið sem ágætan kennara. En eigi að sýna honum einhvern sóma, verður að gera það með öðrum hætti en þessum, að halda við óþörfu embætti, sem opin leið er að veita öðrum, ef þessi maður fellur frá.

Jeg skal nú að síðustu benda á sjálfsögðustu leiðina til þessa. Á fjárlögum þessa árs eru veittar 15000 kr. til tímakenslu í mentaskólanum, og í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 18000 kr. á næsta ári. Jeg skal ekki fjölyrða um, hve þessi fúlga er óeðlilega há, en benda á, að hjer er tvímælalaust staður fyrir mann þann, sem hjer ræðir um. Hann var kennari minn í 2 ár í latínuskólanum, og er einn af þeim bestu kennurum, sem jeg hefi haft. Hann er jafnvel fallinn til að kenna í mentaskólanum, hvort sem er latína, íslenska eða þýska.

Þessu vildi jeg skjóta að væntanlegri nefnd til sjerstakrar athugunar. Jeg hefði kosið, að málinu yrði vísað til allshn., en best fer á, að sama nefndin hafi bæði þessi frv. til meðferðar; vil jeg gera það að tillögu minni, að málinu verði þangað vísað að lokinni þessari umræðu.