27.02.1924
Neðri deild: 9. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í C-deild Alþingistíðinda. (2551)

35. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálfræði

Bjarni Jónsson:

Háttv. flm. (JörB) sýndi með niðurlagsorðum sínum, hve vel hann er að sjer í þessum efnum, þar sem hann vill láta vísa jafn ótvíræðu mentamáli til allshn., en ekki til mentmn. Hann er líkur tófunni að einu leyti. Einusinni var tófa úti í skógi. Þá kom maður hlaupandi og á flótta undan öðrum manni, sem vildi ná lífi hans. „Segðu ekki til mín, tófa góð!“ sagði maðurinn. Tófan lofaði þessu, og maðurinn faldi sig. Að vörmu spori kom hinn og spurði tæfu, hvort hún vissi til mannsins. Hún kvað nei við, en var þó altaf að skotra augunum í þá áttina, sem maðurinn hafði falið sig.

Líkt fer þessum háttv. flm. Hann tók það víst 10 sinnum fram, hvílíkur heiðursmaður Guðmundur prófessor Finnbogason væri, og að hann væri ekki að ráðast á þann háttvirta mann. En verkin segja til um hugarþelið, þar sem hann vill fleygja honum út á klakann, taka frá honum bæði starf hans og laun. Það er ekki að ráðast á manninn!

Guðmundur prófessor Finnbogason er nú fimtugur maður. Jeg man þá fyrst eftir honum, þegar hann var í efri bekkjum latínuskólans og jeg var nýbyrjaður að kenna þar. Í skóla sást það ljóslega, að hann var frábær námsmaður. Hann var þá fátækur, eins og hann er ennþá, og af fátækum kominn, en var þó svo djarfhuga, að hann lagði stund á námsgrein, sem þá var fyrirsjáanlegt, að aldrei myndi geta veitt honum rjett til að komast í lífvænlega stöðu. Þó hafði hann svo mikinn kjark, að hann lagði út í að stela þeim eldi frá guðunum, til þess að geta látið oss Íslendinga verða hans aðnjótandi. Í Kaupmannahöfn var hann einnig vel metinn af kennuruni sínum, og að loknu námi var honum veittur styrkur af sjóði Hannesar Árnasonar. Ferðaðist hann þá um ýms lönd, var t. d. samtímis mjer einn vetur í Berlín, og vissi jeg til þess, að hann hafði þar sem annarsstaðar gott álit kennara sinna. Síðan dvaldi hann annan vetur í Parísarborg og nam hjá hinum heimsfræga vísindamanni Bergson, og gat sjer enn gott orð. Hann hefir því fengið þá fullkomnustu mentun, sem veitt verður í þessari grein. Það verður því ekki sagt, að hann sje ófær til að rækja starf sitt vegna mentunarskorts, nema menn vilji frýja honum vitsmuna til þess. En sýna mun jeg, að það væri staðlausu stafir. Ef menn líta í doktorsritgerð þessa manns, þá er hún alveg óvenjulega góð, enda hlotið allra lof fyrir sjálfstæðar og merkilegar athuganir. Þetta er ekki eingöngu minn dómur, heldur þeirra, sem um ritgerð þessa dæmdu, — og enda þykist jeg vita, að háttv. þm. hafi lesið hana og kunni skil á því, hvað þar er sjálfstætt og hvað ei.

Önnur rit þessa manns hafa þann sjaldgæfa kost svipaðra rita, að þau eru öll skrifuð á sjerlega ljettu og lipru máli og öllum almenningi skiljanleg. Ná þau því athygli lesandans, svo sem frekast má verða. Og enda þótt þar sje ekki alt frumhugsað af höfundi, þá er þess að gæta, að ekki 1/100 hluti þess, sem skrifað hefir verið í þessum vísindum, er frumhugsað. En það er ekki þar fyrir: Guðm. Finnbogason hefir ekki verið eftirbátur annara, hann hefir fyllilega lagt sinn skerf til þessara vísinda.

Þegar nú maður þessi kom heim, tekinn talsvert að eldast, og hafði varið allri æsku sinni og þroskaaldri til þess að búa sig undir þetta eina starf, stóð einmitt svo vel á, að hjer var skarð, sem þurfti að fylla. Þar sem menn höfðu lært að nota vísindin í þjónustu lífsins, svo sem í Þýskalandi, Vesturheimi og víðar, höfðu verið stofnaðir háskólar í hagnýtri sálarfræði. Er það sú grein sálfræðinnar, sem kennir, hvernig nota eigi sálarkrafta mannsins og sjálfsþekking vora í þjónustu lífsins. Byggist hún á rannsóknum á andlegu og líkamlegu starfhæfi manna, sem geta leitt í ljós til hvaða starfs hver og einn er best fallinn. Auk þess krefst hún allskonar tilrauna, er bætt geti vinnubrögð manna. Slík vísindi hafa víða verið stunduð af kappi, — og þegar nú Guðmundur Finnbogason kom heim, eftir að hafa kynt sjer þau víða um lönd, vildi hann hefja þau hjer til sóma, svo að þjóð vor mætti njóta ávaxta þeirra, sem vísindi þessi veita.

Síðan hefir hann starfað ósleitilega að rannsóknum í þessu efni og skrifað merkilegar ritgerðir þar um. Má t. d. nefna ritgerð um móvinslu, er hann samdi með Gísla Guðmundssyni gerlafræðing, sem að vísu þótti hjer ekki mikils virði, en Norðmenn kunnu vel að meta. Því að þar uppgötvuðu menn hið sama misseri síðar, og þótti þá jafnvel Íslendingum merkilegt.

Þá hefir hann komið því í kring, að kappsláttur hefir verið haldinn víða um land. Jeg sje, að háttv. flm. (JörB) brosir, en hygg þó, að hann mætti þakka fyrir að fá Guðm. Finnbogason til þess að búa orf og ljá í hendur fólki sínu. Þá hefir hann verið á Siglufirði og rannsakað síldveiðar. Hefir hann skrifað ritgerð um það efni og gert ýmsar tillögur til endurbóta á veiði- og verkunaraðferðum. Hann hefir og rannsakað fiskvinnu og fiskverkun alla og einnig þar gert till. um endurbætur á verkfærum, t. d. fiskþvögunni, sem jeg kalla, eða, eins og það er alment kallað, fiskburstum o. m. fl. — Nú nýlega hefir hann einmitt skrifað í „Ægi“ um fiskverkun, og sýnir þar fram á, hvernig haga skuli fiskverkunarhúsum. Þykist jeg vita, að hv. þm. hafi kynt sjer það mál, en þess skal jeg geta, að nú er eitt útgerðarfjelag hjer í bæ einmitt að reisa hús, sem hagað verður eftir till. Guðm. Finnbogasonar.

Þá fer nú fram kappflatning o. s. frv. á Ísafirði nú þessa dagana, skv. brjeflegri fyrirsögn Guðm. Finnbogasonar.

Jeg sje, að ýmsir hv. þm. brosa að þessu, og er að vísu ekkert við því að segja um þá, sem eru svo verklægnir, að engu sje á bætandi; en hitt er óþolandi, að sjá ýmsa erkiklaufa, sem eru staðnir að klaufaskap í öllu, sem þeir hafa tekið sjer fyrir hendur, hlæja að þessu.

Umbætur Guðm. Finnbogasonar á vinnubrögðum þjóðarinnar myndu, ef ráðum hans verður fylgt, og það verður gert, spara þjóðinni margfalt meira fje en honum er borgað nú. Það er auðskilið, að þegar vinnan er orðin rannsóknarefni við háskóla þjóðarinnar, fær fólk miklu meiri mætur á henni en ella, og hver einasti hugsandi maður hlýtur að fara að íhuga, hvernig hann fái best bætt vinnubrögð sín. Það myndi áreiðanlega borga sig að halda 10 háskólakennara þjóðinni til hvatningar og leiðbeiningar í þessum efnum.

Heyýta Guðm. Finnbogasonar t. d. ein sparar mönnum meira fje en launum hans nemur.

Enda var það svo þá, að þeir, sem á þingi sátu, skildu hverju það skifti, að vísindi þessi næðu hjer sem mestum blóma — og veittu Guðmundi 3000 kr. árlegan styrk til rannsókna sinna. En árið 1917 bar svo við, að kennaraembætti í sálarfræði losnaði við háskólann í Kaupmannahöfn. Nú hafði Guðmundur Finnbogason lesið við þann skóla og hlotið þar doktorsnafnbót. Gat hann því gert sjer góðar vonir um að fá þetta embætti, og ljek honum hugur á að keppa um það. Hefði hann þá farið af landi burt, og er tvent ólíkt, að fá embætti við Hafnarskóla, eða sitja hjer með lítinn og óvissan styrk. Þingmenn þar ytra láta ekki við háskólakennara sína eins og mannýgir hrútar.

Háttv. flm. (JörB) þóttist ekki vilja ljósta því upp, hvernig embætti Guðm. Finnbogasonar hefði verið stofnað. Það skal jeg nú gera. Þegar svo var komið sem jeg nú skýrði frá, bar jeg fram frv. um stofnun embættisins, en jafnframt skyldi Guðmundur halda áfram rannsóknum sínum á sumrum, og þetta frv. var samþ. Það var alt og sumt. Alþingi hefir, með staðfestingu konungs, veitt dr. phil. Guðm. Finnbogasyni embætti það, er hjer um ræðir, á nafn hans, og enda þótt þetta sje ekki verk allra sömu þm., sem nú eiga sæti á þessu þingi, þá er þingið hið sama.

Við þetta þótti mjer margt unnið. Þinginu tókst að halda kyrrum í landinu gáfuðum manni, sem vígt hafði sjálfan sig þessum vísindum, enda þótt það sje oft hið sama og að vígja sig sulti, að maður nú ekki tali um eftirtölurnar og öfundina.

Þar að auki voru kraftar heimspekisdeildarinnar auknir, án nokkurs aukakostnaðar, að teljandi væri. Nú kennir Guðmundur prófessor stúdentum ýmsar aðferðir við sálarrannsóknir. Er það svo mikill vandi, að ekki verður fengið öðrum í hendur en þeim, er kunna á því full skil. Hann kennir og trúarbragðasálarfræði. Menn vita, að trúin er sterk kend, sem valdið hefir straumhvörfum í örlögum þjóðanna öld eftir öld, og virðist því ekki úr vegi, að mentamenn vorir fái einhverja fræðslu um hana. Þá kennir hann og fagurfræði, sem er hagnýt sálarfræði. Ennfremur skýrir hann fyrir nemendum sínum vitnasálarfræði. Blandast engum hugur um, að hverju gagni slíkt má verða þeim, er síðar eiga að kveða upp dóma. Undir vitnasálarfræði heyrir athugunarskekkja og minnisskekkja og ekki síst sjálfskrök. Eins og kunnugt er, kemur ekki svo örsjaldan fyrir, að menn skrökva óafvitandi hinu og þessu að sjálfum sjer og telja síðan sannleika. T. d. skrökvar háttv. flm. (JörB) því nú að sjálfum sjer, að hann sje að gera þjóðinni þægt verk með frv. þessu, og ætti hann því að vera rannsóknarskepna í þessu efni.

Ennfremur kennir Guðmundur sálarfræði mannsins, og hefir m. a. skrifað merkilega bók um áhrif veðráttu á alt sálarlíf manna. Var það fylgirit með árbók háskólans það ár, sem hann var háskólastjóri.

Í stuttu máli sagt: Það er svo margt, sem maður þessi hefir vakið máls á og hvatt menn til umhugsunar um, að hann á sannarlega annað skilið og betra en að fá aldrei að vera öruggur um sig fyrir áreitni Alþingis.

Vel má vera, að einhverjir haldi, að nóg hefði verið að hafa einn kennara í heimspeki við háskólann, þann er fyrir var. En þeir þekkja ekki víðlendi þessara vísinda vísindanna og vita ekki, að hverjum einum manni er ofvaxið að fást við nema lítinn hluta þeirra. Þó hefði jeg viljað una við að hafa einungis einn kennara, ef ekki hefði staðið svo á, að Guðm. Finnbogason hafði varið allri æfi sinni til að búa sig undir slíkt starf, og var einmitt óvenju álitlegur háskólakennari. En hitt er og víst, að hinn kennarinn í þessum fræðum hefir síst dregið af sjer við þessa ráðstöfun, enda er hann sjerstaklega mikill starfsmaður og hefir ærið nóg að fást við, þó að hann starfi ekki á verksviði Guðm. Finnbogasonar. Mjer er að vísu ljóst, að þetta muni torskilið þeim, sem álíta, að við háskóla eigi hver kennari að hafa sitt ákveðna starf, að búa nemendur undir próf; en að þar megi allra síst bóla á vísindastarfsemi og að hver sjálfstæð hugsun skuli landræk gerr hið bráðasta. Og er það ekki merkilegt tímanna tákn, að jeg hefi hjer í fórum mínum frv. um að gera mig að lögskipuðum kennara í stærðfræði og íslensku. Sýnir það ekki vel, hversu mikla virðingu þessir háu herrar bera fyrir þekkingunni? Að vísu hefi eg tekið stúdentspróf fyrir 40 árum í þeim fræðum, sem mjer er ætlað að fara að kenna, en það mætti alveg eins skipa mig guðfræðiprófessor og biskup; eg gæti sem best hlýtt stúdentum yfir Helgakver og tekið mín laun, því að nú verður ekki lengur spurt að því, til hvers maður sje best fallinn. Slík frv. eru brennimörk á þá, er þau flytja.

Jeg hjelt, að þegar búið var að stofna þetta embætti Guðm. Finnbogasonar, þá fengi hann að vera í friði og vinna æfistarf sitt óáreittur. Síst bjóst eg við ofsóknum af hendi Alþingis, sem hafði veitt honum embættið, fyr en þá að sýnt væri, að hann ræki það illa. En því er ekki til að dreifa. Samt býr hann sannarlega á „Óspaksstöðum“, og getur ekki verið öruggur frá ári til árs. Hann má búast við því, að næsta ár verði hann lögskipaður útgerðarstjóri í einhverju togarafjelagi, eða annað þesskonar. En að hann fái óhultur að rækja sitt æf- starf, það starf, sem hann kann — og enginn annar — því skyldi hann aldrei trúa.

Það er engu líkara en að þeir, sem svona láta, geti með engu móti þolað að sjá rjettan mann á rjettum stað. Þeir eru vísir til, einn góðan veðurdag, að skipa þaulæfðum sjómönnum lengst upp í afdali til þess að temja hross, en taka í staðinn sjóveika landkrabba og láta þá segja mönnum til í sjómensku. Þetta eru þeirra ær og kýr!

Jeg tala nú ekki um ósköpin, ef maður skyldi leyfa sjer að krefjast þess, að löggjafarþing þjóðarinnar sviki ekki gefin heit. Það tekur út yfir allan þjófabálk, í þeirra augum. Þjóðverjar eiga málshátt, svohljóðandi: Ein Mann, ein Wort. — Hvað myndu þeir segja um brigðmált löggjafarþing?! Og jeg leyfi mjer að spyrja: Eru hjer svo trygðarausir og tírarlausir menn, að þeir hlífist ekki við að láta Alþingi rjúfa gefin leit? Jeg er viss um, að bóndinn, hv. 2. þm. Árn. (JörB) þyrði ekki að fara jafnilla með alóvana kaupakonu úr Rvík, jafnvel þótt hún hefði aldrei snert í hrífu, eins og hann vill, að farið sje með þenna ágætismann þjóðarinnar. Og jeg vil öruggur vona, að Alþingi láti ekki þau firn spyrjast, að það samþykki frv. þetta.

Jeg hefi grenslast eftir því, hvort þetta væri flokksmál hins svokallaða Framsóknarflokks. Hvort flokkur þessi ætlaði sjer að „sækja fram“, með öllu sínu stórskotaliði, gegn Guðmundi Finnbogasyni, heimspekisdeildinni, háskólanum og allri þekkingu í landinu. En mjer til mikillar gleði hefi jeg fengið það svar, að svo væri enganveginn, og vil jeg trúa því.

En hversvegna er nú frv. þetta fram komið? Hvaða bjargráð felast í því? Jú, háttv. 2. þm. Árn. (JörB) hjelt langa ræðu um fjárhag landsins, hversu erfiður hann væri, og að frv. væri fram komið af sparnaðarástæðum. Þetta er hið venjulega skálkaskjól illviljaðra manna. Þeir þykjast gera öll sín strákapör með „sparnaðinn“ að yfirskini. En hver er svo sparnaðurinn að þessu frv., ef það skyldi illu heilli ná samþykki? Ætla mætti, að hann væri ekkert smáræði. Og það fer líka fjarri því, að svo sje. Sparnaðurinn verður sem sje heil króna af hverjum þúsund, sem goldnar eru úr ríkissjóði. Það er svo sem engin furða, þótt þeir reisi sig og tali hátt um sparnað. — Það er þessi fullkomna vanþekking á verðmætum lífsins, sem lýsir sjer í þessu. Öðrumegin er sparnaðurinn 1‰, en þar í móti kemur það, sem glatast: æskuþrá og sólarsýn unglingsins, æfiþrá, starfsgleði og metnaður hins þroskaða manns, sólskin heillar mannsæfi, þá er hann er sviftur áhugastarfi sínu, sem hann hefir búið sig undir og kostað öllu til, fram að fertugu. En hjer er meira glatað. Það er meira en lífsstarf mannsins, sem um er verið að tefla; það eru heilar hersveitir þjóðarvona, vinavona og foreldravona, sem varið hafa öllum kröftum sínum og lagt alla sína alúð, fórnfýsi og sjálfsafneitun fram, til þess að syninum væri kleift að búa sig sem best undir það starf, sem hann hugði að helga líf sitt. Og það fer ekki hjá því, að slíkar viðtökur sem þessar hljóti að varpa dimmum skugga inn á heimilið og yfir á framtíð barna hans og myrkva ófæddar vonir. — Og það er engin afsökun, þótt sagt sje, að það sje ekki tilætlunin að kasta honum á klakann. — Jeg efa ekki, að maður með hans hæfileikum geti orðið sjer úti um einhverja þá atvinnu, að hann fengi sjeð fyrir sjer og sínum og þyrfti því ekki að þola beinan sult. En sumir eru svo gerðir, að fyrir þeim er tilgangur lífsins annað og meira en matur og matarvonir. Og því er það vægast sagt ósvífni, gagnvart þeim mönnum, sem sjerstakri þekkingu og hæfileikum eru gæddir í ákveðnar áttir, og ósvífni gagnvart þjóðinni, sem þeirra hæfileika á að njóta, að ætla sjer að leika með þá eins og menn á taflborði, taka þá þaðan, sem svigrúmið er fyrir krafta þeirra og segja við þá: „Farðu nú út í fjós og passaðu kálfana.“

Háttv. frsm. (JörB) skaut því að mjer, að jeg myndi eiga eftir að standa skil orða minna við kjósendur mína. Því get jeg svarað, að hjer tala jeg sem sá, er valdið hefir, því að jeg tala fyrir munn kjósenda minna. Jeg var kosinn til þess að halda embættinu við. Svo bar nefnilega við, að mótstöðumaður minn, sem annars er hæverskur maður og orðvar, nefndi bitlinga á fyrsta fundinum, sem við hjeldum. Jeg skal til skýringar geta þess, að hann varaðist að minnast á það oftar. En þetta minti mig á þann orðróm, sem orðinn er landrógur, að jeg sje hin versta eyðslukló, og fjekk jeg þar tækifæri til að hnekkja þeirri þjóðlýgi. Tók jeg það fram á fundinum, að jeg hefði oft verið því mótfallinn, að vegið væri að mönnum á þennan hátt, því mjer væri hitt kærara, að hjálpa sonum þeirra og dætrum. Ljetu menn sjer þetta vel líka, og upp á þetta er jeg kosinn og hingað kominn. Hitt veit jeg ekki, hvort Árnesingar hafi gefið þingmanni sínum umboð til að flytja þetta frv. hjer, eða hverjar þakkir þeir kunna að gjalda honum fyrir þau afskifti. Þeir áttu einusinni fulltrúa á þessu þingi, mann sparsaman, og man jeg, að þeir fundu honum það til foráttu á mörgum þingmálafundum, að hann væri of naumur á fje til vísinda og lista.

Jeg skal ennfremur geta þess, að á þingmálafundum þeim, sem jeg átti með kjósendum mínum í sumar og jeg gat um áðan, gafst mjer tilefni til að minnast á Guðm. Finnbogason. Skýrði jeg frá, hvern hlut jeg hefði átt í, að stofnað væri embættið handa honum, og sá jeg ekki betur en að menn teldu það nytsamt og sjálfsagt. Hv. flm. þarf því engan kvíðboga að bera fyrir því, að kjósendur mínir muni verða mjer reiðir. Hinu gæti jeg betur trúað, að hans kjósendur reiddust öllu hans rausi um þennan sparnað hans, sem nú á að vera hið eina sáluhjálplega meðal, en munar þó aldrei meira en sem svarar því, að hundraðasti hver hundur í landinu væri tekinn og sveltur annan hvern dag.

Vel má fara svo, að nafn háttv. flm. verði lengi í minnum haft. Kannast menn við Herostratos frá Efesos, er brendi Artemishof, nóttina sem Alexander mikli fæddist (364 f. Kr.). Nafn hans er ennþá þekt fyrir þetta eina ólánsverk. Er það gamall sannleikur, að þeir lifa lengst, sem frægir verða að endanum. En

So setzest du der ewig regen,

der heilsam schaffenden Gewalt,

die kalte Teufelsfaust entgegen,

die sich vergebens tückisch ballt.