27.02.1924
Neðri deild: 9. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í C-deild Alþingistíðinda. (2552)

35. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálfræði

Bernharð Stefánsson:

Það getur varla talist álitlegt fyrir mig að byrja að tala, eftir að jafnvígfimur maður og hv. þm. Dala. (BJ) hefir haft í hótunum við mig fyrir það eitt, að kveðja mjer hljóðs.

Hv. þm. Dala. var allfjölorður um einhvern illan tilgang, sem lægi á bak við frv. okkar, t. d. það, að við vildum fleygja viðkomandi manni út á kaldan klaka, eða að minsta kosti að ganga svo frá hnútunum, að hann gæti ekki stundað sín störf. En eftir þeirri lofræðu að dæma, sem hv. þm. hjelt um próf. Guðm. Finnbogason, er mjer óskiljanlegt, að þjóðin geti ekki notið hans góðu hæfileika á annan hátt en þann, að viðhalda fyrir hann óþörfu embætti. Jeg hjó eftir því hjá hv. ræðumanni, að hann hefði viljað við það una, að ekki hefði verið nema einn prófessor í heimspeki við heimspekisdeildina, ef ekki hefði staðið svo á, að þessi maður hefði verið fyrir hendi. Mjer finst, að í þessu efni sje skýlaus viðurkenning á því, að embættið sje stofnað vegna mannsins, en ekki þarfa háskólans eða þjóðarinnar. Og það er þetta, sem við flm. frv. höfum viljað ráðast á, að stofnuð sjeu embætti handa einstökum mönnum, án tillits til þess, að þörf sje á því, en ekki hitt, að við höfum viljað á nokkum hátt vega að jafnágætum manni sem G. F., eða nokkrum öðrum. Þegar háskólinn var stofnaður 1911, þá gerðist það á þann hátt, að þrem æðstu skólunum, sem fyrir voru, var steypt saman og auk þess bætt við fjórðu deildinni, heimspekisdeildinni, þar sem svonefnd forspjallsvísindi skyldu vera kend og auk þess stund lögð á íslensk fræði, þ. e. sögu þjóðarinnar og tungu. Nú er það skoðun okkar og margra annara, að í þessum skorðum eigi háskólinn að vera fyrst um sinn, og að meiri áherslu beri að leggja á það, að fullkomna kensluna í þeim greinum, sem honum var frá upphafi ætlað að fást við, heldur en að bæta við nýjum vísindagreinum. Það er ekki eingöngu, að við höfum ekki efni á að bæta nýjum vísindagreinum við í háskólanum, heldur álít jeg, að hann hafi engin skilyrði til að veita jafngóða kenslu í þeim fræðum, sem eru sameign allra þjóða, eins og hægt er að fá annarsstaðar, jafnvel þótt okkur vantaði ekki menn til að hafa kensluna á hendi, sem væru starfi sínu fullkomlega vaxnir, þar sem hjer myndi jafnan verða skortur á fje og tækjum, sem nauðsynleg eru við háskólakenslu. — Nú er hjer raunar ekki nema um eitt embætti að ræða, og mætti því kanske segja, að þetta kæmi ekki til greina. En fyrir mjer vakir það, að þegar einum manni hefir verið veitt embætti, sjálfs hans vegna, en ekki vegna þarfar þjóðarinnar, hafi með því verið gefið fordæmi og út á þá braut farið, sem ef til vill yrði erfitt fyrir okkur að stöðva okkur á, ef ráðið er ekki tekið í tíma, svo að næst, þegar líkt stæði á með einhvern mann, þá yrði fjölgað embættunum á svipaðan hátt, með skírskotun til hins fyrra. Því álítum við heppilegast að taka skarið af strax, áður en það er orðið of seint. Og jeg býst við, að miklu meiri greiði væri háskólanum gerður með því að útvega honum betra húsnæði, heldur en að halda í svona embætti og stofna slík ný. Jeg hefi raunar ekki gerst víðförull í kenslustofum háskólans, en svo hefi jeg litið til, að það húsnæði, sem hann hefir yfir að ráða, hljóti að vera harla ónógt.

Og það lítið, sem jeg hefi af því sjeð, þá virðist mjer það algerlega óhæfilegt fyrir háskóla, og reyndar hvaða skóla sem væri. Það myndi því borga sig betur að leggja sem svaraði einum prófessorslaunum á ári í húsbyggingarsjóð handa háskólanum, heldur en að viðhalda þar óþörfu embætti.

Hv. þm. Dala rakti nokkuð æfisögu próf. G. F., og býst jeg við, að hann hafi skýrt rjett frá, eins langt og það náði. En honum láðist þó að geta þess, að þessi maður mun um árabil hafa búið sig undir annað starf en það, sem hann hefir haft síðustu árin á hendi, og verið kostaður til þess af landsfje. Nú stendur svo á, að sá maður, sem gegnir því embætti, sem próf. G. F. bjó sig undir í fleiri ár og átti í raun og veru að fá, er orðinn gamall, og getur því ekki liðið á löngu þar til hann þarf að fá hvíld frá störfum, og get jeg því ekki annað skilið en G. F. sje eins geðfelt að taka það starf að sjer nú, þar sem það líka mun á allra vitorði, að hann sje manna færastur til að gegna þeirri stöðu. Þá talaði hv. ræðumaður um hinar ýmsu rannsóknir próf. á verklegum sviðum. Jeg skal þá strax taka það fram, að jeg er ókunnur þeim rannsóknum, sem hann kann að hafa gert í sambandi við sjávarútveginn, og hefi því enga ástæðu til að álíta, að þær muni vera lítils virði. En um hinar aftur á móti, sem snerta landbúnaðinn, get jeg sagt það, að jeg hefi kynt mjer þær rækilega, og er þá víst sannast að segja, að flest það, sem hann hefir uppgötvað á því sviði, hefir áður verið kunnugt gömlum íslenskum bændum, þó ekki hafi verið mikið um það skrifað. Jeg hefi t. d., frá því fyrst að jeg fór að ganga að slætti, notað orf, sem stóð í hlutfalli við minn líkamsvöxt, eins og hann vill vera láta. Með þessu vil jeg þó alls ekki halda því fram, að G. F. hafi ekki lagt alla alúð við þessar rannsóknir sínar. En ef hv. Alþingi vill láta hann halda áfram að gefa sig eingöngu að vinnuvísindunum, þá gæti jeg miklu betur felt mig við, að það væri gert að sjerstöku starfi, en ekki látið standa í neinu sambandi við háskólann. Því þótt lögin eftir orðum sínum bindi embættið aðeins við próf. G. F., þá þætti mjer ekki ótrúlegt, að hv. þm. Dala, ef hann lifði það, að próf. G. F. fjelli frá eða færi úr embættinu, eða sumum öðrum, þætti nauðsyn bera til þess að skipa það öðrum manni í hans stað.