29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í C-deild Alþingistíðinda. (2554)

35. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálfræði

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg sje, að háttv. þm. Dala. (BJ) er hjer ekki viðstaddur, en ef hann er einhversstaðar hjer nærri, svo hægt sje að ná í hann, óska jeg, að það sje gert. Hann var að andmæla þessu frv. í byrjun þessarar umr. og fór allgeist að vanda. Það er vani hans, þegar mál eru til umræðu, sem hann er andstæður, að hann fer geist og hirðir ekki um ástæður. Ræða hans kom alls ekki við aðalefni þessa máls, sem jeg nefndi og taldi vera höfuðatriði þessa máls: getu landsmanna eða gjaldþol annarsvegar, embættis- og starfsmannahald landsins og nauðsyn þessa embættis hinsvegar. Af ræðu háttv. þm. Dala. hefði mátt ætla, að jeg hefði ráðist að þessum heiðursmanni, sem þetta mál snertir. Og hann sagði beinlínis, að vjer flm. þessa frv. hefðum flutt það af vondum hvötum.

Ræða hans frá upphafi til enda var eintómt illindaraus og getsakir um varmensku í garð okkar flm. þessa frv. Hvað gefur honum rjett til að haga þannig orðum sínum, veit jeg nú ekki. En honum má vera nóg, að hann veit sig hafa hreinan skjöld. Hann mun aldrei verða kvaddur til að svara fyrir gerðir okkar flm. þessa máls. Vjer frábiðjum okkur alla íhlutun hans.

Hv. þm. Dala. hefir nú setið á 15 eða 16 þingum alls, og hann hefir ætíð leikið þar þennan sama leik. Áheyrendur, sem heyrt hafa munnsöfnuð hans, geta því borið um það, aðrir, sem ekki hafa átt kost á að hlýða á hann, geta lesið þetta í þingsögunni. Að þessu leyti virðist ekki vera um neina framför að ræða hjá þessum háttv. þm.Hv. þm. var að tala um tilraunaskepnu fyrir prófessorinn í vinnuvísindum, en af öllum tilraunaskepnum, mun þessi „þingskepna“ vera best fallin til rannsóknar fyrir þennan háttv. prófessor.

Þá skal jeg í fáum orðum víkja að þeim örfáu atriðum, þar sem ræða hv. þm. Dala snerti málefnið, sem hjer er til umræðu. Jeg skal reyna að vera eins stuttorður og mjer er unt. Því að ef jeg ætti að eltast við allar fjarstæður hv. þm., mundi fara til þess alt of langur tími. Annars býst jeg við því, að málefnið, sem hjer er til umr. græði lítið á þessum umræðum okkar hv. þm. Dala., eins og þeim nú er komið. En hv. þm. Dala. ræður nú, í hvaða tón talað er. Þó skal jeg geta þess, að jeg mun sem allra minst víkja í umr. að prófessor G. F. Jeg vil ekki láta hann gjalda þess, þó að formælandi hans — það mun eiga að skoða hv. þm. Dala. svo — kunni ekki að haga orðum sem siðuðum manni sæmir.

Það mun nú vera í þriðja sinni, sem hv. þm. Dala. segir æfisögu próf. Guðmundar Finnbogasonar hjer á Alþingi, svo hún ætti að fara að verða mönnum kunn. Mintist hann á umbætur þær, sem prófessorinn hefði gert á vinnubrögðum í landinu. Jeg hygg nú, að atvinnurekendur þeir, sem hann drap á, viti fult svo glögt, hversu miklar þær eru. þær eru áreiðanlega ekki miklar eða mikilvægar. Enda var varla mikils að vænta. Próf. G. F. hefir alls ekki stundað neina slíka vinnu, og auk þess er hann of bundinn við önnur störf á afar óhentugum stað — háskólanum — til þess að nokkurt gagn gæti orðið að þessari starfsemi hans.

Prófessor G. F. hefir lagt stund á, árum saman, alt annað en það, sem að verklegum vinnubrögðum lýtur. Hann stundaði í mörg ár háskólanám, og síðan mest fengist við fyrirlestrastarfsemi o. þ. h. Til þess að hann hefði getað gert nokkrar umbætur á vinnubrögðum (verklegum athöfnum), hefði hann þurft að starfa alt öðruvísi og á öðrum stað. Jeg hygg það sje enganveginn rangt gagnvart próf. G. F., þó maður segi, að árangur af störfum hans í þágu bættra vinnubragða hafi orðið sáralítill. Hv. þm. Dala. sagði, að eftir vinnubrögðum okkar flm., eins og þau lýstu sjer í þessu frv. okkar, mætti ætla, að við flm. þessa frv. vildum, að sjómenn færu upp í sveit til að temja hesta, en landkrabbar gerðust sjómenn. Þetta dæmi hv. þm. Dala. átti að sýna, hve fjarstætt það væri að taka próf. G. F. frá háskólanum, auðvitað vegna nauðsynar á starfsemi hans við háskólann í þágu umbóta á almennum vinnubrögðum í landinu. En þessi röksemdaleiðsla háttv. þm. Dala. er harla bágborin. Próf. G. F. hefir kynt sjer þessi vinnuvísindi af erlendum bókum, en ekki stundað líkamlega vinnu, síðan þá að hann var á unga aldri. Jeg býst við, að flestir muni vera á mínu máli um það, að þegar þannig er nú ástatt um þessa starfsemi, þá sje ekki neitt tiltökumál, þó lítils árangurs sje að vænta í þessu efni, enda munu þeir, er almennum vinnubrögðum í landinu eru kunnugastir, telja býsna litlar umbætur hafi orðið. En jafnvel þótt próf. G. F. hefði eitthvað gert í þessu efni, er högum vorum nú svo komið, að við höfum ekki ráð á að láta hann fást við þessi störf lengur. En það var annað starf, sem próf. G. F. hafði sjerstaklega búið sig undir og varið til þess löngum tíma og var styrktur af opinberu fje til þess. Hann átti að kynna sjer fræðslustarfsemi helstu mentaþjóða, aðallega alþýðufræðsluna, og átti að gera tillögur um fyrirkomulag þeirra mála hjer á landi. Nú mætti ætla, að til þessa starfa hefði hann einmitt verið vel fallinn, sökum þekkingar sinnar á því máli og mikils undirbúnings, og jeg er heldur ekki að segja, að tillögur hans, hvað þetta snertir, sjeu ekki að mörgu leyti góðar. En hvað segir hv. þm. Dala. um þessar tillögur? Hann segir, að allar tillögur hr. G. F. um þau mál og núgildandi fræðslulög, sem mestmegnis eru hans verk, sjeu hreinasta fjarstæða og eigi alls ekki við hjer á landi. Hv. þm. Dala. leggur ekki mikið upp úr þessum tillögum hr. G. F. og telur, að þar hafi meiriháttar mistök orðið á, en einmitt til þessa starfa hafði G. F. undirbúið sig allrækilega.

Háttv. þm. Dala. taldi það svik af hálfu landsins, ef það segði embættismanni upp stöðu sinni. Jeg ljet það í ljós, að til væru störf, fyrir þennan mann, sem hann væri vel fallinn til að gegna, sökum þekkingar sinnar og allrar mentunar, og sem hann vel mundi geta tekið við, og þó ekkert sje tekið fram um þetta í þessu frv., gat jeg um þetta í framsöguræðu minni. Það er svo að sjá, að háttv. þm. Dala. líti svo á, að ef Alþingi einusinni hefir stofnað eitthvert embætti, megi ekki leggja það niður aftur, því þá væri það brigðmælgi eða svik gagnvart viðkomandi embættismanni. Ef svo væri, mundi sama gegna um hvaða starfsmann sem væri, er sagt væri upp stöðu. Það tæki þá alveg eins til þeirra manna, sem einhverskonar starfsemi hafa með höndum og þurfa á verkafólki að halda. Nú er það augljóst, að enginn einstaklingur gæti haldið áfram neinni starfsemi í þessu landi, ef ekki mætti segja neinum upp vinnu, sem atvinnurekandi hefir einhverntíma þurft á að halda. En sje einstökum atvinnurekanda heimilt að segja upp vinnu verkafólki sínu, þá hefir þjóðfjelagið sama rjett til að segja embættismönnum upp starfa. Og síst ættu almennir verkamenn, er fyrir starfsmissi verða, að vera betur færir til að sjá sjálfum sjer borgið en embættis- eða starfsmenn landsins. Jeg veit ekki betur en ríkið skifti sjer meira af undirbúningi embættismanna undir æfistörf þeirra en almennings, með námsstyrkjum og ýmsu fleira. Þegar svo að náminu loknu að ríkið veitir þeim einhvern starfa, en ástæður breytast svo síðar að þeirra er ekki lengur þörf, eða meira gagn verður að vinnu þeirra við önnur störf en upphaflega var ákveðið, þá eiga það að kallast svik, ef mönnum er sagt upp eða fluttir í annan stað. Þetta finst mjer hálfbágborin röksemdaleiðsla. Það er og undarlegt, ef þessir menn ættu að vera ver settir til að sjá sjer farborða, af því að þeir hafa búið sig undir eitthvert ákveðið starf og notið máske mikillar mentunar, en fátækir, mentunarlausir almúgamenn. Þá þætti mjer sem nokkurum skugga brigði á mentamál þjóðarinnar og hennar lærðu menn. Jeg hygg heldur eigi, að þetta sje almenn skoðun mentamanna, sem hv. þm. Dala. hefir haldið fram, þótt það kunni að vera skoðun hans sjálfs, síst í þessu máli, þar sem til er annað starf, ekki óhliðstætt því, sem hann hafði áður, handa þessum manni.

Háttv. þm. Dala. sagði, að próf. G. F. hefði siglt erlendis og numið hjá mörgum helstu menningarþjóðum þessarar álfu. Þá er því til að svara, að það hafa fleiri menn en hann siglt til annara landa og leitað sjer þar frama og mentunar, án þess að þeir hafi krafist framfærslu af þjóðinni á eftir. Tómas Sæmundsson sigldi líka suður í lönd til að kynna sjer mentun og menningu annara þjóða og verklegar framkvæmdir þeirra, en þegar hann kom heim aftur, gerðist hann prestur í sveit. Hann hugði, að hann gæti best unnið fyrir þjóðina með því að gerast fyrirmynd og foringi hennar, eins í verklegum framkvæmdum sem mentamálum, yfir höfuð því, sem henni mátti best að gagni koma. (BJ: Var hann ekki guðfræðingur?) Jú, en hann fór upp í sveit og starfaði þar, en heimtaði ekki, að stofnað væri handa sjer sjerstakt embætti, alveg óþarft.

Annars verð jeg að segja það, að ef margir embættismenn hjer á landi væru hjer sömu skoðunar sem hv. þm. Dala., þá yrði þess ekki langt að bíða, að þeir kæmust á sama stig og dýrategund sú við Amason-fljótið í Suður-Ameríku, sem maurfluga nefnist. Húsbændurnir á heimilunum þar eru svo værukærir, að þeir nenna sjálfir ekkert að gera. Þeir láta vinnumennina ekki einasta viða að á allan hátt, heldur og mata sig, því þeir geta ekki einu sinni borðað hjálparlaust, og drepast úr hungri, þótt maturinn sje settur fyrir þá, ef þeir eru ekki mataðir. Eg segi þetta ekki af því að jeg ætli, að þessu sje þannig farið um embættismenn landsins, heldur út af því, sem hv. þm. Dala. hefir nú haldið fram í ræðum sínum, að það hefir litið svo út sem hann telji embættismann ófæran um að bjarga sjer, ef honum er sagt upp stöðu sinni. þesskonar aumingjaskapur er ekki frambærilegur.

Hv. þm. Dala. sagði, að fjárhagsörðugleikar landsins væru orðnir illviljuðum mönnum að skálkaskjóli. Jeg vil í því sambandi minnast eins atriðis, sem kom fyrir eitt sinn áður, er við áttum sæti hjer í hv. deild. Hann bar þá fram frv. um að landið skyldi taka að láni 20 miljónir króna til fossakaupa. Má nokkuð sjá á þessu, að ekki hefir hann þá talið fjárhag landsins erfiðan. En á því sama þingi var flutt till. um að veita bláfátækum barnamanni 500 kr. árl. styrk um tvö ár. Þessum fátæka manni hafði verið vísað frá starfi fyrirvaralaust að kalla, án þess unt væri að sjá, að minsta kosti með nokkurri vissu, að hann hefði verðskuldað það. En hv. þm. Dala. var ekki hissa á að drepa þessa tillögu. Honum gengu ekki þá til hjarta vonir foreldranna og barnanna. Jeg hefði ekki tekið þetta dæmi, ef hv. þm. hefði ekki gert orð á því, að þetta væri aðeins ókindarskapur af okkur flm., að vera að hreyfa þessu máli. Við værum með því að gera tilraun til að skaprauna foreldrum og vinna börnum tjón, og ýmislegt fleira af því tæi. En þegar maður minnist dæmisins, sem jeg gat um áðan, þá lítur úr fyrir, að það sje ekki sama, hvert foreldrið eða barnið er hjá hv. þm. Dala. Ef það nú er brennimark á okkur flm. að hafa borið þetta frv. fram, þá mun það ekki síður vera brennimark á hv. þm. Dala., gerðir hans í þessu máli, sem jeg nefndi. Væri það og lítill skaði, þótt menn með þannig löguðum brjóstgæðum ættu ekki sæti á Alþingi.

Hv. þm. kvað aðra höfuðástæðu til þessa frv. vera fávisku og heimsku. Jeg skal ekki fara langt út í það mál, en vil þó enn minna á eitt atriði, sem gerðist á þinginu 1922. Þessi sami hv. þm. (BJ) flutti þá frv. þess efnis, að gjöld þau, sem landsmenn greiddu í ríkissjóðinn, skyldi goldið í gullkrónum, þ. e. eftir verðgildi þeirra. Með því hefðu gjöld manna til hins opinbera orðið svo há, að það hefði verið öllum þorra almennings algerlega um megn að rísa undir því, nú um 200 kr. á hvert mannsbarn í landinu. Það má vera, að hv. þm. (BJ) hafi þá flutt frv. með það fyrir augum, að það yrði ekki samþ., að það hafi átt að vera nokkurskonar löðrungur á þá menn í þinginu, sem helst vildu spara. En það hefði þá mátt ætla, að sá maður, sem þykist öllum öðrum vitrari og betri í þinginu hefði ekki gert fjármál landsins að fíflskaparmáli.