29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

35. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálfræði

Bjarni Jónsson:

Það er að vísu á móti öllum þingreglum, að jeg fái að gera enn stutta athugasemd, en þessi ræða hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) kemur eftir dúk og disk. Jeg býst við, að Guðmundur Finnbogason verði honum þakklátur fyrir þann stuðning, sem þessi hv. þm. hefir nú veitt honum. Aftur á móti vona jeg, að jeg hafi ekki gert Guðmundi Finnbogasyni skömm og vansæmd í vörn minni fyrir hann, að minsta kosti ekki í augum hv. þm. Jeg hygg, að þeir skilji, að það var jeg, sem talaði, en ekki Guðmundur Finnbogason. Ef hv. þm. vilja refsa mjer fyrir framkomu mína í þessu máli, geta þeir gert það í næsta máli, því að þar er um mig að ræða. Telji þeir vörn mína ósóma, skellur hann á mjer einum. En hinsvegar mun minnisstæður stuðningur hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) við Guðmund Finnbogason. Aðalinntakið í varnarræðu hans var það, að nú væri rjett að skera hann, svo að hann yrði ekki drepinn seinna.