01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í C-deild Alþingistíðinda. (2578)

42. mál, einkasala á áfengi

Forsætisráðherra (SE):

Hv. 1. þm. Árn. (MT) leit svo á, að reglugerðin frá 1922 væri ekki í gildi ennþá, þar sem lög þau, sem hún væri bygð á, væri fallin úr gildi, en þar til er því að svara, að lögin frá 1923 eru alveg eins og lögin frá 1922, að því undanskildu, að síðari lögin eru ekki bundin við neinn ákveðinn tíma. Jeg skoða þessa aðfinslu sem hreint „juristeri“, sem ekki muni hafa neina praktiska þýðingu. Að lögin frá 1899 sjeu ennþá í gildi, tel jeg meira en vafasamt. (BL: Þau hafa altaf verið í gildi.) (Atvrh., KlJ: Fjellu með bannlögunum.) Háttv. 1. þm. Árn. (MT) álítur væntanlega, að þau hafi verið vakin upp með undanþágunni frá bannlögunum, en þar skjátlast honum.

Að því er seðlana snertir, þá voru þeir ætlaðir til að draga úr vínaustrinum. Jeg held, að þeir hafi komið að einhverju gagni. Sama er að segja um 10 lítra ákvæðið. Jeg geri ráð fyrir, að hv. nefnd taki einnig þetta ákvæði til athugunar. En því má ekki gleyma, að bæði seðlarnir og aðrar takmarkanir reglugerðarinnar voru viðleitni af stjórnarinnar hálfu til þess að takmarka vínnautnina í landinu; en það verk er ákaflega mörgum erfiðleikum bundið. Jeg hefi gert fleiri tilraunir í þessa átt, t. d. reynt að takmarka áfengi það, sem læknar hafa til umráða, og sömuleiðis áfengi lyfjabúðanna, en það er miklum erfiðleikum bundið. Jeg hefi farið talsvert lengra í því efni en ráðunautar mínir hafa lagt til, því jeg hefi skilið vilja þingsins þannig, að reynt skuli að hafa hemil á áfengisnautninni eftir föngum.