28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í C-deild Alþingistíðinda. (2587)

42. mál, einkasala á áfengi

Frsm. 3. hl. (Jakob Möller):

Jeg sje það, að hv. frsm. 2. hluta fjárhagsnefndar er ekki viðlátinn, svo það verður væntanlega ekki skoðað sem framhleypni af mjer, þó jeg, sem 3. og minsti hluti nefndarinnar, skjótist fram fyrir hann.

Eins og hv. þdm. hafa nú kynt sjer, þá hefir það atvikast þannig, að jeg einn í fjhn. er því fylgjandi, að sú sameining ríkisverslananna fari fram, sem þetta frv. leggur til.

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) vildi ekki kannast við það, fyrir hönd 1. hluta fjhn., að nokkur sparnaður geti af þessu frv. orðið. Jeg geri nú ráð fyrir því, ef jeg hefði látið þessi orð falla, að þá hefði verið sagt, að þetta væri vanaviðkvæðið, þegar talað væri um sameining embætta. En í þessu tilfelli er það augljóst, að um stórfeldan sparnað er að ræða. Ef það er sparnaður að sameina landsbókavarðar- og þjóðskjalavarðarembættin, þar sem það kemur ekki til mála að blanda söfnunum saman á neinn hátt, nje gera sameiginlega afgreiðslu, heldur aðeins að setja einn mann yfir bæði söfnin, þá er sparnaðurinn enn augljósari hjer, þar sem nota má sömu skrifstofur og sömu afgreiðslu fyrir verslanir ríkisins. Skrifstofustörfum er svo háttað, að þó menn hafi yfirdrifið að gera einn daginn, þá hafa þeir kanske lítið að starfa hinn. En því stærri sem skrifstofurnar eru, því jafnari er vinnan. Þetta er viðurkent, enda eru stórar verslanir ódýrari í rekstri, hlutfallslega, en hinar smærri. Það er því furða, að nokkur maður, hvað þá maður, sem nákunnugur er verslunarrekstri, skuli leyfa sjer að halda slíku fram, að hjer geti ekki verið um neinn sparnað að ræða. Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) fer heldur ekki lengra en það, að hann segir, að ef til vill muni eitthvað geta sparast á skrifstofuhaldi. En það er vitanlega ekki það eina, sem spara má á. Það er lafhægt að sameina forstöðu verslananna og fá hana í hendur einum manni.

Jeg vil nú vekja athygli hv. þdm. á einu atriði í nál. 1. hluta fjhn. í þessu máli. Þar segir svo:

„Fari svo, að breyting verði á forstöðu þessarar verslunar, teljum við sjálfsagt að skipa í þá stöðu hæfan mann, er hafi nokkra fagþekkingu í allri meðferð og geymslu vínfanga og hafi auk þess góða almenna verslunarþekkingu.“

Þetta er auðvitað rjett. En hvað er á móti því, að maður, sem hefir slíka þekkingu, veiti einnig tóbaksversluninni forstöðu? Ef maður, sem er hæfur landsbókavörður, er að sjálfsögðu hæfur þjóðskjalavörður, þá ætti að vera auðsætt, að maður, sem hefir sjerþekking á meðferð vína og er gæddur almennri verslunarþekkingu, ætti engu síður að vera hæfur til að taka að sjer forstöðu þessara tveggja verslunarfyrirtækja. Eðlismunur starfanna er ekki meiri hjer, heldur minni, því fyrir utan það að vera gæddur almennri verslunarþekkingu og vera tryggur og dyggur maður, sje jeg ekki að útheimtist neitt til þess að stjórna tóbaksversluninni. Jeg skal játa, að til þess að stjórna vínversluninni þurfi öllu meiri sjerþekkingu. Nú eru þar ráðnir menn, sem enga sjerþekkingu hafa, svo ekki er úr háum söðli að detta, hvað þetta snertir. Því þó þeir sjeu búnir að vinna þarna eitt til tvö ár, þá mun sjerþekking þeirra ekki alldjúp enn orðin, svo þó þeirra misti við, þá mundi mega fá fulteins hæfa menn í þeirra stað.

Því er borið við, að báðir forstjórarnir leggi á móti sameiningunni. Jeg játa það, að nefndin gerði menn á fund þeirra beggja til þess að biðja þá að segja sitt álit, og töldu þeir báðir sameininguna óheppilega. Þetta er eðlilegt. Hver forstjóri kýs að hafa minna starf og ábyrgð heldur en meira. Jeg sje því enga ástæðu til þess að taka þetta til greina. Síst sje jeg ástæðu til þess að taka meira tillit til slíkrar umsagnar þessara verslunarforstjóra en til umsagnar hæstarjettardómaranna um það mál, sem þá snerti. Jeg verð líka að segja, að það er miklu viðurhlutameira fyrir landið, ef rasað er að því að gera breytingar á hæstarjetti. En ef Alþingi er nokkur alvara með það að gera sitt ítrasta til þess að spara, þá veit jeg ekki hvað liggur nær en að spara á verslunarrekstri ríkisins.

Jeg fæ ekki sjeð, að hægt sje með nokkrum sanni að bera því við, að vínverslunin og tóbaksverslunin sjeu svo fjarskildar, að ekki sje hægt að reka þær í sameiningu. Það er kunnugt, að fjölmörg firmu út um heim reka þessa verslun sameinaða í stórum stíl. Jeg játa, að það gegnir nokkuð öðru máli um steinolíuna, svo ef greina ætti verslunarreksturinn að, þá er eðlilegt, að steinolían yrði skilin frá. Nú er steinolíuverslunin rekin af sama forstjóra og tóbaksverslunin, og talar enginn um það að greina þær sundur. Ef menn óttast það, að olíubragð komi að vínunum, ef vínverslunin og olíuverslunin eru reknar af sama forstjóra, þá ætti vindlunum í rauninni ekki að vera búin minni hætta af olíunni. Annars er það um steinolíuverslunina að segja, að hún er mjög einföld, eins og hún nú er rekin, þar sem hún er bundin föstum samningi, og störfin við hana meira verkstjórnarstörf en verslunarstörf.

Jeg tel engan vafa á því, að með sameiningu þessara verslana er auðgert að spara á launum forstjóranna ca. 15 þús. kr., og jeg er heldur ekki í vafa um það, að spara má stórfje á skrifstofuhaldinu.

Hv. frsm. 1. hl. (ÁF) hafði það eftir forstjórunum, að menn hjá þeim ynnu eins og hægt væri og yrði engu á þá bætt, svo ef sameining yrði, þá kæmi hún ekki fram í öðru en því, að alt yrði flutt undir eitt þak, en hver hjeldi sínu verki. En það er sá ljóður á þessum upplýsingum, að þær eru bersýnilega rangar. Öllum hv. þdm. er nú kunnugt, að einn aðalmaðurinn á skrifstofu vínverslunarinnar var tekinn þaðan nýlega, án þess að manni væri bætt í hans stað. Og stuðningsmenn hæstv. stjórnar hafa fagnað því, hvað henni hafi þarna tekist að færa saman. Þarna mátti aðalmaðurinn á skrifstofunni missa sig, þrátt fyrir yfirlýsing forstjórans. Nú eru enn fleiri menn á skrifstofu landsverslunar, og gæti vel verið eins ástatt þar. Trúi þeir, sem trúa vilja, að ekki mætti einhverju bæta á allan þann fjölda. Að minsta kosti er auðsætt, að gjaldkerastarfið við báðar verslanirnar er ekki meira en það, að einn maður gæti gegnt því, ef þær yrðu sameinaðar. Hjer eru þá enn allhá starfsmannslaun, sem spara má. Þá er jeg sannfærður um það, að ekki þarf nema einn aðalbókara. Bókfærslan er ekki meiri en það, að einn maður getur haft eftirlit með henni. Jeg er því ekkert hræddur við að fullyrða, að hjer megi spara tvöfalda fúlgu á við það, sem búist hefir verið við að spara á hæstarjetti með fækkun dómaranna. Jeg sje ekki, hvernig þeir menn, sem verja gerræðið gegn hæstarjetti með því, að það sje sparnaður, fara að því, að afsaka það að spara ekki hjer. Þessu beini jeg ekki til nefndarinnar, því hún er yfirleitt því máli mótfallin. En það eru aðrir háttv. þdm., sem þetta gera. Jeg skil ekki, hvernig þeir ætla að verja það að spara ekki það, sem hægt er að spara á þessum verslunarrekstri, þar sem er þó um mjög mikinn sparnað að ræða og ríkinu alveg að skaðlausu.

Það var sjálfsagt engin tilviljun, að hv. frsm. 1. hl. (ÁF) talaði aðallega um vínverslunina og steinolíuverslunina. En um tóbaksverslunina talaði hann ekki fremur en hún væri ekki til. Hv. þm. (ÁF) hefir líklega mint, að frv. mitt um afnám hennar hafi gengið fram. En svo var nú ekki. Tóbakseinkasalan var sett á vetur, að minsta kosti þetta kjörtímabilið. Og þó hún standi ekki lengur, þá er ófært að ætla að hindra sameining verslana ríkisins með þeirri viðbáru, að hún muni verða lögð bráðlega niður.

Jeg gat um það við 1. umr. þessa máls, að mín afstaða til þess færi mjög eftir því, hvað ráðið yrði nú um framtíð þessara fyrirtækja. Og ef tóbaksverslunin yrði niður lögð, þá sje jeg ekki ástæðu til þess að sameina vín- og olíuverslunina. En nú hefir þingið sýnt það, að það vill ekki leggja tóbakssöluna niður. Og jeg tel því sjálfsagt, meðan tóbaks- og vínsalan er rekin af ríkinu, þá sje sú verslun rekin í einu lagi. Og það er vitanlega alveg eins auðvelt að leggja tóbakssöluna niður síðar, þó hún sje komin undir einn hatt með vínversluninni. Það er engin fyrirstaða fyrir þingið, ef það vill koma því í framkvæmd.

Að endingu vil jeg geta þess um forstjórana, að þó svo færi, að hvorugur þeirra treysti sjer til þess að reka þetta stærra fyrirtæki, þá er það engin ástæða móti framgangi málsins. Því auðvelt mun að fá nóga menn til þess að taka að sjer forstöðuna. Og mín till. um sameining verslananna er alls ekki bundin við þessa menn, og því alveg á valdi hæstv. stjórnar að laga þetta í hendi sjer. Eins og nú er kunnugt, er ráðningartími forstjóra vínverslunarinnar bráðum á enda. En forstjóri landsverslunar mun hafa uppsegjanlegan samning með venjulegum fyrirvara.

Svo mikill sparnaðarandi hefir ríkt hjer, að jeg geri ráð fyrir því, að deildin sjái sjer ekki annað fært en að samþykkja frv. óbreytt. Annars sýnir hún illa, hvern hug hún hefir á sparnaði yfirleitt.