28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í C-deild Alþingistíðinda. (2593)

42. mál, einkasala á áfengi

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg vildi aðeins skjóta því fram, út af orðum hv. 1. þm. Skagf. (MG), sem reyndar er áður fram tekið, að jeg var alls ekki í þeirri nefnd, sem að lokum rjeð víneinkasölunni til lykta 1921, og því ekki frsm. hennar. Hann hefir því skotið fram hjá markinu. Annars held jeg, að hann sje einn þeirra, sem kenna má um undanþágu álagningarinnar.

Jeg man ekki til þess, að hv. þm. (MG) legðist neitt fast á móti undanþágunni, og mun hafa fallist á hana mótstöðulítið eða mótstöðulaust. Hitt er eðlilegt, að jeg og aðrir, sem af fenginni reynslu hafa sjeð, að þetta undanþágufyrirkomulag er óheppilegt og hefir verið misbrúkað, sjeum fúsir á að hafna því.

Jeg verð enn að halda því fram, að sú sjerstaka ásökun til mín, frá hv. 1. þm. Skagf., vegna meðferðar laganna 1921, sje órjettmætt olbogaskot. — Blindskotinu frá hv. þm. Dala. (BJ) ætla jeg ekki að svara.