28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

42. mál, einkasala á áfengi

Magnús Jónsson:

Þegar maður athugar þessi þrjú nál. fjhn., mætti vel ætla, að þetta mál væri orðið alveg að sjerstöku flokksmáli í þinginu Menn hafa vandlega skifst í þessu máli eftir flokkum, og það jafnvel svo, að einn af flm. frv. í nefndinni, sem þó mætti ætla, að vera mundi með frv. óbreyttu, fylgir flokksmönnum sínum að málum og skrifar undir nál. þeirra með þeim. Jeg er því hálfsmeykur um, að jeg sje að fremja einhverja goðgá, þegar jeg, sannfæringar minnar vegna, verð að lýsa því yfir, að jeg get enganveginn fylgst með flokksmönnum mínum í þessu máli, og skal jeg nú gera grein fyrir því.

Mjer finst það vera fjarri því, að gerð sje full grein fyrir því í nál. 1. hl., eða í framsöguræðu hans, að það verði enginn sparnaður að þessu. Það var t. d. upplýst við umræðurnar um fyrirspurnina um starfsmannahaldið við ríkisverslanirnar, að forstöðumaður vínverslunarinnar, sem þó aðeins var ráðinn upp á 15 þús. kr. laun á ári, hefir fengið greiddar 18 þús. kr. árlega. Þetta munu vera þau allrahæstu embættislaun í öllu ríkinu, og er líklegt, að þau megi þó spara, hvað sem öðru líður. Já, þetta eru áreiðanlega hæstu embættislaun á landinu, því að bankastjórarnir hafa þó ekki nema 15 þús. kr. fastar. Er það þá enginn sparnaður, ef þessi forstöðumannslaun verða spöruð? En það má áreiðanlega spara þau að mestu leyti. Jafnvel þótt ráðinn yrði einhver cand. pharm. til einhverra starfa þarna, færi þó aldrei svo, að hann æti upp meir en helming þessara forstöðumannslauna, og munar samt talsvert um sparnaðinn. Já, „öðruvísi mjer áður brá,“ þegar ekki mátti nefna, að samþ. yrði 1000 kr. mismunur, þar sem áttu í hlut forstöðumaður og aðstoðarmaður við þjóðskjalasafnið. En um þetta, dýrasta embættið í landinu, á ekkert að muna. Nei, það má ekki minnast á, að það megi missast, þó það sje fullsannað, að það sje nær óþarft. Einn mjög merkur læknir sagði nýlega við mig, að þetta forstöðumannsembætti, að því er til lyfjaútvegunar kæmi, væri hreinasta „húmbúg.“ Störf hans væri mjög lítið notuð, aðeins lítið eitt af læknum úti um land, en það mætti eflaust fá þetta leyst af hendi fyrir miklu minni útgjöld úr ríkissjóði. Annars undrar það mig mjög, hvað mikið menn vilja leggja upp úr orðum forstöðumanna þessara verslana. Það er annars æðihart, þegar orð og tillögur háskólaprófessora og hæstarjettardómara er að engu haft, þá skuli hlaupið upp til handa og fóta, ef einhver verslunarstjóri segir eitthvað. Það liggur nærri að segja, að það sje 10-falt meiri trygging fyrir því, að dómstjóri hæstarjettar, eða prófessor við háskólann segi óhlutdrægt frá stofnunum sínum en þessir verslunarstjórar, að þeim ólöstuðum þó. En það liggur svo ólíkt til grundvallar fyrir vali þessara manna. Hæstarjettardómarar eru beinlínis valdir með það fyrir augum, að þar sjeu menn, sem ekki halli rjettu máli í neinu, en forstöðumenn verslana eiga að veljast með dugnað í verslunarrekstri fyrir augum. En sá dugnaður getur meðal annars birst í því, að þeir standi fast með sínum stofnunum. Það er talað mikið um þá sjerþekkingu, sem þessir menn hafi aflað sjer, og að allmikla sjerþekkingu þurfi til þess að veita vín- og tóbaksverslun forstöðu. En það er nú eins og það er tekið. Jeg mundi hafa haldið, að þessi fræði væru mjög fljótlærð. Jeg mundi t. d. treysta mjer til að setja mig sæmilega inn í þetta á 2–3 mánuðum. Það var eitt sinn settur lærður maður fyrir verslun hjer í bænum, og það liðu ekki nema örfáar vikur frá því hann tók við þeim störfum, þangað til hann var kominn í tölu þeirra manna, sem langfróðastir þóttu um þær vörutegundir á öllu landinu. Menn halda til dæmis, að það þurfi engan tíma til að átta sig á tugum þúsunda af skjölum og bókum í söfnum, en það, að rótast í tóbaki og vínflöskum, á að vera svo mikill galdur, að til þess þurfi mann með 1500 kr. mánaðarlaunum. Þetta held jeg þó, að sje eitthvað í áttina að vera fjarstæða. En þá er enn eftir ein ástæða, sem mælir móti sameiningunni, en jeg held þó, að ekki hafi verið nefnd ennþá. Þegar rætt var um niðurlagningu tóbakseinkasölunnar, var hún feld, ekki svo mjög af því, að menn væru svo ginkeyptir fyrir því að halda þessum verslunarrekstri áfram, heldur var það ekki talið tímabært ennþá að leggja einkasöluna niður, vegna þess, að enn væri ekki fengin nóg reynsla um hana, og málið enda ekki nægilega undirbúið. Jeg fyrir mitt leyti var þessu ekki samþykkur. Jeg mundi ekki hafa hlífst við að greiða atkvæði með niðurlagningu einkasölunnar þegar í stað, og auk þess býst jeg við, að áður en næsta þing kemur saman, hafi ýmsum þessum ástæðum þá verið rutt úr vegi, svo einkasalan verði lögð niður á næsta þingi. Það er nú upplýst, að forstöðumaður vínverslunarinnar er ekki ráðinn lengur en til næstu áramóta, og þá þykir mjer ólíklegt, að stjórnin hlaupi til að ráða þegar aftur mann til 3 ára, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) gerði því skóna til. En ef nú tóbakseinkasalan á að leggjast niður á næsta þingi, þá mætti segja, að óhyggilegt væri að rugla verslununum saman núna, því að þá væri erfiðara að ná sparnaðinum við niðurlagninguna fullkomlega. Það væri ekki svo auðvelt að segja, hvað af starfskröftunum heyrði til tóbakinu og hvað víninu. En jeg er ekki svo viss um, að sá góði málstaður sigri á næsta þingi, að tóbakseinkasalan verði lögð niður, og því get jeg eigi verið á móti þeim sparnaði, sem nást mundi með sameiningu verslananna. En jeg er sannfærður um, að þetta er eins mikill sparnaður og hvað annað, sem hjer hefir verið borið fram í sparnaðarskyni. Það, sem hjer ræðir um að spara megi, er eitt af allra dýrustu embættum. Það er ekki verið að sýta yfir því, hvort þúsund kr. þurfi meira eða minna, eða hvort komast megi af með prófessor eða dósent í einhverri fræðigrein við búskólann. Nei, hjer er um miklu feitari bita að ræða. Hann er meira en á við prófessor með heilan dósent á bakinu, eða dómstjóra hæstarjettar með einhverju hrafli af háskólamönnum í ofanálag. Jeg verð að taka undir það, sem sagt er í nál. mentmn. um háskólalögin, að það yrði þinginu til lítils sóma, þó það sparaði við háskólann, nema það sýndi alvarlega viðleitni í því að spara á öllum sviðum. Jeg öfunda ekki þá menn, sem greiða atkvæði á móti þessum sparnaði, en með ýmsu öðru, sem hjer hefir verið fram flutt, þegar þeir verða spurðir um það af kjósendum sínum, hvað þeir vilja gera við landsverlunina, þegar þannig hefir verið sparað við háskólann og hæstarjett.

Þegar jeg nú greiði atkvæði með frv., er það af því, að jeg ber fult traust til núverandi stjórnar, að hún muni, ef hún situr áfram við völd, sem jeg vona að hún geri, greiða vel úr þeirri flækju, sem af þessari sameiningu verslananna kann að hljótast, ef tóbakseinkasalan verður lögð niður. Mun því sparnaðurinn við sameininguna samt geta komið að fullum notum, og er því máske ekki ástæða til þess að gera of mikið úr þessu óhagræði.