28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

42. mál, einkasala á áfengi

Klemens Jónsson:

Jeg hafði ekki hugsað mjer að taka til máls, en eitt atriði í ræðu hv. þm. Ak. (BL) hefir neytt mig til þess.

Hann tók svo til orða, að hann gæti ekki treyst þeim mönnum, sem gert hefðu steinolíusamninginn, til þess að fara með vínverslunina. Ef ásökun á að felast í þessum ummælum, þá eru þau algerlega órökstudd. Og geti hv. þm. (BL) sýnt með nokkru móti fram á, að steinolíusamningurinn sje landsmönnum óhagstæður, þá vil jeg fastlega skora á hann að gera það. Það er ekki nóg að kasta fram sleggjudómum, það verður að sanna þá.