01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

42. mál, einkasala á áfengi

Frsm. 3. hl. (Jakob Möller):

Háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) þverneitar því, að nokkur sparnaður geti orðið á sameining áfengisverslunarinnar og landsverslunar, því það sje ekki sparnaður að láta sömu menn vinna á 2 skrifstofum, þó það sje að nafninu til undir einum forstjóra. Honum er ómögulegt að skilja það, að skrifstofan á ekki að vera nema ein. Dettur hv. þm. (HStef) virkilega í hug, að þau firmu, sem versla með fjölda vörutegunda, hafi sjerstaka skrifstofu fyrir hverja? Nei, vitanlega ekki. Þau hafa aðeins eina skrifstofu fyrir allar sínar vörutegundir. Og aðalsparnaðaratriðið í þessu máli er það, að hafa ekki nema eina skrifstofu fyrir verslanir ríkisins. Þá mætti komast af með einn aðalgjaldkera í staðinn fyrir tvo nú, einn aðalbókara í stað tveggja, og þannig mundu sparast tveir dýrir menn, auk eins forstjóra. Þá sagði háttv. þm. (HStef), að sparnaðurinn yrði að engu, úr því að það þyrfti lyfjafræðing við verslunina eftir sem áður. — Í fyrsta lagi er ekki víst, að þess þurfi. Stjórninni er það í sjálfsvald sett. En þó fenginn yrði lyfjafræðingur að versluninni, þá má samt spara hjer allmikið. Eins og kunnugt er, þá hefir forstjóri vínverslunarinnar 18 þús. kr. í árslaun. En enginn vafi er á því, að hægt er að fá mann með lyfjafræðiprófi fyrir laun, sem eru að minsta kosti einum hæstarjettardómaralaunum lægri en það. Þar sparast þá samt 10 þús. kr. Og þar við bætist, að það er alls ekki skylda að hafa lyfjafræðing, aðeins kveðið svo á, að stjórnin geti skipað slíkan mann, ef henni þykir þurfa. En þó hún gerði það, og jeg ætla að gera ráð fyrir því, að hún geri það, þá mun auðvelt að fá lyfsalasvein fyrir jafnvel heldur minna en hæstarjettardómaralaun. Jeg held, að slíkum mönnum sje ekki borgað mikið betur en það. Já er sá sparnaður, sem verður af sameining skrifstofanna. Þar er fyrst að telja ávinning af því að hafa húsnæði, ljós og hita á einum stað. Jeg get trúað, að það mundi nema álíka miklu, eða á borð við hæstarjettardómaralaun. Þá er sparnaður í mannahaldi, einkum yfirmanna. Það má eflaust komast af með einn yfirgjaldkera og einn yfirbókara. Skifting starfanna er sjálfsögð á svo stórri skrifstofu, og þarf ekki að valda neinum ruglingi. Slíkt er altítt og verður ekki vefengt. Sparnaðaráætlun mín er því síst of há.

Hv. 2. þm. N.-M. (HStef) var að gefa það í skyn, að jeg fylgdi þessu frv. af illum hug til landsverslunar, jeg vildi hana feiga. Háttv. þm. má halda hvað sem hann vill um það. Jeg mun ekki um það deila við hann. En jeg vil deila við hann um hin praktisku atriði málsins, hvað auðsætt er að gæti sparast með þeirri tilhögun, sem um er að ræða. Þegar andmælin eru ekkert annað en gjammandi fullyrðingar, þá býst jeg ekki við, að mikið þýði að eyða orðum móti þeim. En það er von mín, að slík andmæli sjeu lítils virði í augum allra sanngjarnra manna móti rökstuddum dæmum þess, sem spara má, En ef hið háa Alþingi vill ekki úrskurða málin eftir slíkum gögnum, þá býst jeg við því, að ýmsum þætti niðurstaðan verða af handahófi.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hafði þá ástæðu að færa gegn frv., að hv. Ed. mundi ekki vilja fallast á það. Jeg get ekki fallist á að taka slíka mótbáru til greina, því hjer í hv. Nd. hafa engin rök verið færð móti málinu, sem geri það skiljanlegt, að meirihluti hv. Ed. geti orðið því mótfallinn. Hæstv. stjórn hefir líka sýnt þingríki sitt mjög ljóslega í meðferð hæstarjettar, og jeg skil ekki í öðru en henni muni geta tekist að koma þessu frv. gegnum hv. Ed., ef hún vill. En kanske hún vilji drepa það í Ed. Mjer verður að segja, að ef henni er ekki meira um sparnaðinn gefið en það, að hún beiti áhrifum sínum til þess að drepa þetta mikla sparnaðarmál, eftir að hafa spilt hæstarjetti í sparnaðarskyni, þá er henni ekki vorkunn, þótt henni veitti örðugt að fá fje milli handanna — hún á það þá sannarlega ekki skilið.