01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í C-deild Alþingistíðinda. (2611)

42. mál, einkasala á áfengi

Halldór Stefánsson:

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að með frv. þessu væri um það eitt að ræða, að sameina áfengisverslunina og landsverslun. Jeg veit ekki, hvort hann talar þannig í ógáti eða af yfirlögðu ráði, að nefna alls ekki lyfjaverslunina og lyfjaeftirlitið. En jeg vil skjóta því til hv. flm., hvort það hafi verið þeirra ætlun að afnema lyfjaverslunina og lyfjaeftirlitið. Jeg hygg, að það hafi engum komið til hugar, og vísa um það einnig til þeirra umr., sem um frv. urðu í nefndinni, enda segir hjer í þessu frv., að skipa megi lyfjafróðan mann til eftirlits með lyfjaversluninni. Og hjá því verður vitanlega heldur ekki komist. Og þá er hjer ekki um annan mun að ræða en þann, hvort sá maður skuli heita forstjóri eða undirtylla. Jeg benti áður á það, að þessi sjerfróði maður yrði að líkindum að hafa sína eigin skrifstofu. En hinsvegar þó skrifstofurnar væru sameinaðar með einhverjum sparnaði, þá yrði meiri verktöf á einni stórri skrifstofu en tveim minni. Jeg sagði ekki, eins og hv. þm. (JakM) vildi hafa eftir mjer að enginn sparnaður gæti að frv. orðið. Mín orð voru þau, að hann yrði lítill, og við það get jeg staðið. Hv. 3. þm. Reykv. sagðist ekki mæla af illum hug til landsverslunar. Jeg skal ekki fullyrða um það. Jeg ætla ekki að segja annað en það, að hann væri henni mótfallinn, og það er alkunnugt. Það er aðeins hans vonda samviska, sem lætur hann misskilja orð mín.

Þá var hv. þm. (JakM) að blanda hjer inn í skoðunum mínum í öðru máli. Hann telur, að jeg muni hafa fylgt því af líkum skoðunum og hæstv. forsrh. En það voru líka færðar aðrar ástæður í því máli, þar sem öryggi rjettarins var talið fyllilega jafntrygt, þó frv. gengi fram, og með þeim skilningi samþykti jeg lögin um hæstarjett.