01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í C-deild Alþingistíðinda. (2612)

42. mál, einkasala á áfengi

Frsm. 1. hl. (Ágúst Flygenring):

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) staðhæfir, að sparnaður verði að sameiningu landsverslunar og vínverslunar. Meðal annars heldur hann, að mikið sparist við það, að aðalbókarinn verði aðeins einn. En jeg vil benda honum á, að flestir skrifstofumenn munu ekki eingöngu vinna eitt starf, heldur hvað sem fyrir kemur; svo mun það að minsta kosti vera hjá öllum verslunum einstakra manna og fjelaga. Nú vinna þrír menn á hverri skrifstofu, og eftir sameininguna verða þeir 6, svo að sparnaðurinn er enginn.

Hv. 3. þm. Reykv. benti á, að húsnæði sparaðist. Það kann að vera rjett. En mundi afgreiðsla ganga betur en áður, þegar vín og olía yrði hvort við hliðina á öðru? Forstjóri vínverslunar hefir á hendi talsverða bókfærslu auk venjulegra framkvæmdarstjórastarfa, sem jeg býst við, að forstjóri landsverslunar vildi ógjarnan taka á sig. Yrði þá að skipa deildarstjóra, og hygg jeg, að ekki þætti henta að velja hann af verri endanum, og ef þar væri um færan mann að ræða, mundi hann krefjast hárra launa.

Við viljum yfirleitt ekki hrófla við verslununum, þar sem við lítum svo á, að þar sje aðeins að tjalda til einnar nætur. Og þar sem það er sýnilegt, að ekkert sparast við slíka sameining, sem hjer er í ráði, síst svo um muni, þá finnum við enga ástæðu til breytinga, og þar sem búast má við, að störfin verði ekki eins vel leyst af hendi, ef sameinað er og vanrækslur geti frekar átt sjer stað, þá álítum við af þeirri ástæðu, að ekki beri að breyta. En jeg get vel skilið það, að þeir sem vilja binda þessar verslanir sem fastast ríkinu, vilji sameina þær, þeir, sem á allan hátt vilja styðja að framtíðar ríkisverslun í ýmsum greinum. En við lítum svo á, sem erum í 1. hl. nefndarinnar, að við þennan ríkisrekstur sje best að losna sem fyrst, en viljum aftur á móti ekki veikja trygginguna fyrir því, að landið hagnist eitthvað á versluninni, meðan það hefir hana með höndum, meðan hún verður að standa, og á jeg þá aðallega við olíuverslunina. Álítum við, að þessar stofnanir, vínverslun og olíuverslun, sjeu best komnar í þeirra höndum, sem eru þeim kunnugastir og hafa þegar sýni sig sem trúa starfsmenn.