06.05.1924
Efri deild: 64. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í C-deild Alþingistíðinda. (2621)

42. mál, einkasala á áfengi

Fjármálaráðherra (JÞ):

Viðvíkjandi 2. gr. frv., sem fjallar um fjármál, vildi jeg einungis geta þess, að nú er ekki heimilt að leggja neitt á áfengi það, sem ætlað er til lyfja, en þessi grein fer fram á, að því ákvæði verði breytt.

Jeg hefi leitað upplýsinga hjá forstjóra áfengisverslunarinnar um það, hvernig fjárhagshlið þessa máls snýr við. Hann segir, að hún fari mikið eftir því, hvort svo naumt sje skamtað áfengi til lyfja sem nú er gert. Segist hann hafa gert till. um skömtunina til lyfjabúða, en landlæknir um skömtunina til lækna.

Að vísu segir hann, að ekki hafi verið fallist á þessar till. sínar og landlæknis, heldur hafi aðeins verið leyfð skömtun ca. helmings þess, sem þeir gerðu ráð fyrir.

En hann álítur, að þessi skömtun geti ekki staðist til lengdar, og miðar því útreikninga sína við það, að framvegis verði farið eftir till. þeirra landlæknis og hans um skömtunina.

Þá áætlar hann tekjuauka ríkissjóðs skv. þessari grein um 120 þús. kr. á ári, ef að álagningin yrði 33%, en greinin heimilar 25–75% álagningu. — Segir hann, að ekki verði hjá því komist, að lyf þau, sem áfengi er notað í, hækki eitthvað við þessa ákvörðun, en sú hækkun verður ekki í hlutfalli við þá hækkun, sem frv. að öðru leyti hefir í för með sjer.

Mjer þótti rjett að skýra hv. þdm. frá þessu áliti forstjórans, svo að þeir geti haft það í huga, þegar þeir taka afstöðu til frv.

Jeg skal aðeins bæta því við, að ríkissjóði er full þörf allra þeirra auknu tekna, sem hv. þm. þykir fært að aflað verði á þennan hátt.