06.05.1924
Efri deild: 65. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

42. mál, einkasala á áfengi

Jónas Jónsson:

Mjer kom nokkuð á óvart þessi sundurstykkjun á frv., sem gerð var við 2. umr. Jeg bjóst ekki við, að jeg þyrfti að tala meira um málið en jeg gerði þá, af því jeg bjóst við, að það væri ærleg meining hv. deildar að láta það ganga fram til sparnaðar fyrir landið. Þvert á móti hefir stjórnarflokkurinn undirbúið að koma í veg fyrir framgang þess. Finst mjer það ekki illa viðeigandi, að þeir menn, sem hafa staðið á móti því að fella niður þetta 18 þús. kr. embætti, fái tækifæri til að gera hreint fyrir sínum dyrum, æfi sig í því að koma hreint fram fyrir sína kjósendur. Það, sem fyrst vekur eftirtekt manns, er hið fádæma hneyksli, sem komið hefir fyrir í áfengisverslun ríkisins nú nýlega, sem vitanlega er ekki hægt að neita, að forstöðumaður hennar ber siðferðislega ábyrgð á, þó hann sje ekki sjálfur valdur að því. Manni verður á að spyrja: Hvaða rjettur er til í þessu landi, ef hinir „konservativu“ í Ed. grípa fram í fyrir Nd., sem var búin að ákveða að lækna kyrlátlega þetta hneykslismál? Mjer datt ekki í hug að vekja umræðu um ágalla áfengisverslunarinnar við 2. umr., af því jeg gerði ráð fyrir, að Íhaldsflokkurinn hugsaði eins hjer og í hv. Nd., að rjett væri að leggja niður þessa stofnun sem sjálfstætt fyrirtæki. Ef á að halda hlífiskildi yfir þessari óþörfu en rándýru stofnun, get jeg vel skilið hv. 1. landsk. (SE), að honum þyki ekki viðeigandi að spara á stofnunum svo sem háskóla og hæstarjetti. Þessi áfengisverslun er orðin fræg fyrir það, að þar starfa tiltölulega fleiri og miklu dýrari menn en í nokkurri annari grein ríkisrekstrarins. Forstöðumaður ber ábyrgð á þessu, þó hann hafi ekki beint ráðið alla mennina, þá hefir hann látið hlutlausar miður heppilegar ráðstafanir tveggja forsætisráðherra. Hvað svo? Sjóðþurð í versluninni, sem stendur undir yfirumsjón þessa manns. Hjer í hv. deild á sæti dómari bæjarins, sem hefir haft málið til meðferðar og sennilega kunnugri flestum öðrum um, hvað komið hefir fyrir. Ofan á þetta alt á að láta stofnunina halda áfram, ekki nóg að hafa mann upp á 18 þús. til að gegna embætti þessu, ekki nóg, að undir hans umsjón eru margfalt dýrari menn en venjulega gerist, — ofan á þetta má bæta sjóðþurð, upp á nærfelt 30 þús. Samt á alt að halda áfram óbreytt. Jeg býst við því, að forstöðumaðurinn sje saklaus af því að hafa dregið sjer peninga, og vil jeg ekki kasta steinum að honum í því efni, allra síst á undan rannsókn. En hann á engu síður að fara á þessu máli, alveg eins og I. C. Christensen ljet af stjórn í Danmörku, er uppvíst varð um þjófnað Albertis.

Úr því þetta hneyksli hefir komið fyrir, er það spursmálslaust óhjákvæmilegt að hreinsa til í áfengisversluninni. Þjóðin hefir enga ástæðu til að þola slíkt lengur. Nú hefir hv. Nd. gefið tilefni til að láta eðlilega breytingu gerast.

Jeg óska að gefa þeim 8 hv. þingmönnum, og þó sjerstaklega dómara Reykjavíkur, tækifæri til að gera grein fyrir því, hvernig þeir treystast til að koma fram fyrir kjósendur landsins eftir að hafa greitt atkvæði um þetta mál eins og þeir hafa gert.