06.05.1924
Efri deild: 65. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í C-deild Alþingistíðinda. (2628)

42. mál, einkasala á áfengi

Jónas Jónsson:

Ennþá er lítið um svörin hjá Íhaldsflokknum. Í fjárlögum hafa menn verið að klípa af 100–500 kr., af ýmsum liðum, eða felt slíkar upphæðir niður. Var feldur í hv. deild með ráði og vilja hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) liður upp á 100 kr. eftirlaun til barnakennara nokkurs, sem búinn var að starfa dyggilega í 35 ár. Þeir hinir sömu sparnaðarmenn, sem unnu þetta afrek, sjá ekkert grand í mat sínum þar sem eru 18 þús. kr. handa dönskum lyfsala. Jeg tel það alveg eðlilegt, að þessir 8 hv. þm. hafa ekki komið með eina einustu röksemd til varnar þessari óhæfilegu eyðslu; jeg tel það ekki röksemd, þó hv. þm. Seyðf. vilji ekki festa landsverslun. Meðan áfengisverslun er rekin af ríkinu er hún landsverslun. Aðeins vill hv. þm. Seyðf. ekki festa landsverslun, sem er heiðarlega rekin, vill ekki trúa þeim manni, sem stýrt hefir stærstu „forretningu“ hjer á landi, manni, sem jafnvel megnustu andstæðingar hans hafa aldrei dirfst að tortryggja á nokkurn hátt.

Það er dálítið hart að heyra það borið fram af dómara í Reykjavík, að þegar starfsmaður landsins hefir verið svo óheppinn að láta stela út úr höndunum á sjer 30 þús. kr., sem enginn veit hvort nokkurntíma finnast — þá megi ekki tala um að setja fyrirtæki það, er sá maður stýrir, undir umsjón annars manns, sem staðið hefir óaðfinnanlega í stöðu sinni. Mjer þykir vænt um, að Þingtíðindin eru ennþá prentuð, til þess að borist geti út um landið ómurinn af rjettvísinni í Reykjavík, eins og hún kemur fram í þessum orðum.

Merkilegt er, að rannsókn þessa þjófnaðarmáls var fyrst fengin í hendur kornungum manni, sem ekki hefir aðra reynslu að baki en að hafa að nafni til verið ritstjóri eins hins ómerkilegasta blaðs, sem út hefir verið gefið hjer á landi. Það vakti ekki sjerlega virðingu fyrir rjettarfari Reykjavíkur, að maður var tekinn úr pólitískri flugumensku til þess að fást við rannsókn á þessu máli. Það gleður mig, ef satt er, að nú sje kominn í starfið ráðsettur maður, sem þjóðin hefir ástæðu til að bera traust til.

Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) hefir með atkvæði sínu stuðlað að því að hrekja einn af okkar færustu og frægustu vísindamönnum af landi burt. Sami hv. þm. rjettir glaður upp hendina til þess að fá haldið í forstjóra áfengisverslunarinnar, með 18000 kr. launum og 30 þús. kr. sjóðþurð.

Jeg hefi þær upplýsingar eftir einum af mönnum Íhaldsflokksins, að nú muni von á því, að margt skipist betur um innkaup áfengisins! Nú verði ekki lengur keypt „kemiskt“ tilbúin vín frá Danmörku, heldur verði þau keypt beint frá Spáni. En þetta er enn til áfellis Mogensen. Þrátt fyrir háu launin hefir hann keypt „óegta“ vín handa drykkjulýð landsins.

Það var rjettilega orðað hjá hæstv. forsrh. (JM), að hjer yrði að „láta slag standa.“ Hjer á ekki að hugsa eða reikna með forsjá, heldur láta tilviljunina eina ráða, eins og í áhættuspili.

Fer hjer sem svo oft áður, að launin eru hækkuð, þegar starfið minkar, og nú er gert ráð fyrir því, að yfirumsjón smásölunnar á áfenginu sje ljett af forstjóranum.

Hv. þm. Seyðf. mælti þau dýrmætu orð, að hann vildi ekki festa landsverslunina, en hann vill festa áfengisverslunina og forstjóra hennar við hana, og verður þó ekki öðruvísi á hana litið en verslun landsins, þótt hún hafi reynst illa með núverandi fyrirkomulagi. En þm. (JóhJóh) vill ekki festa þá landsverslun, sem gefið hefir og er líkleg til að gefa landinu í framtíðinni miklar tekjur og spara landsbúum mikið fje í innkaupum. Hið fyrra á við tóbakið. Hið síðara við olíuna. Veitir henni forstöðu fyrv. forseti sameinaðs þings, maður, sem allir verða að viðurkenna fyrir dugnað og hagsýni í þjónustu landsins.