06.05.1924
Efri deild: 65. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í C-deild Alþingistíðinda. (2632)

42. mál, einkasala á áfengi

Jónas Jónsson:

Jeg ætla að snúa aths. mínum að hv. þm. Vestm. (JJós), því að öðrum hv. þm., sem hjer hafa talað, hefi jeg þegar svarað. — Háttv. þm. (JJós) gerði tilraun til að verja þá afstöðu sína, að vilja halda við einu allradýrasta embætti landsins, með því að ekki væri rjett að reka svo stór fyrirtæki undir einni stjórn sem landsverslun yrði, ef 1. gr. frv. hefði verið samþykt. Jeg vil minna hv. þm. (JJós) á það, að hann hefir áður greitt atkvæði hjer í hv. deild, ásamt öðrum flokksbræðrum sínum, með því að hafa aðeins einn ráðherra yfir öllu landinu. Hvort heldur nú hv. þm. (JJós) að sje erfiðara, að veita forstöðu verslun með olíu og tóbak, og svo þó að áfenginu yrði bætt við, eða að stjórna öllu landinu? Jeg veit, að hv. þm. (JJós) er svo kunnugur víða erlendis, að hann hlýtur að vita, að landsverslunin með tóbak, olíu og áfengi handa öllu Íslandi er dvergvaxið fyrirtæki í samanburði við það, sem gerist um verslun hjá stórþjóðum.

Afstaða meirihl. hv. deildar verður enn erfiðari, þegar þess er gætt, að landsverslunin hefir gengið vel undir stjórn núverandi forstjóra, en áfengisverslunin aftur á móti illa undir stjórn forstjóra hennar, því eins og jeg hefi bent á, þá ber hann siðferðilega ábyrgð á þeim óhöppum, sem fyrir verslunina hafa komið. Eftir þessar almennu, en óverjandi hugleiðingar hv. þm. Vestm. (JJós), um að sjerstakan forstjóra þurfi fyrir hvorri þessari smáverslun ríkisins, þá notaði hann tækifærið til þess að koma með aðdróttanir um, að ekki væri alt í lagi í steinolíueinkasölunni, og til þess að draga það í efa, að hún hafi haldið niðri olíuverðinu.

Jeg vil skjóta þessu máli til æðra dómstóls en hv. þm. Vestm. (JJós), sem ekkert segist hafa rannsakað þetta mál. (JJós: Jeg sagðist ekki hafa rannsakað það til fullnustu.) Það sýndi sig, að hann hefir ekkert rannsakað málið og að dómar hans um það eru fullkomnir sleggjudómar. Hinn æðri dómstóll í þessu máli er fiskiþingið. Það á að hafa — og hefir — betri aðstöðu en allur almenningur til þess að rannsaka þetta mál, og hefir rannsakað málið. Og niðurstaða fiskiþingsins var sú, að það lýsti ánægju sinni yfir því, hve vel olíuverslunin hefir verið rekin í höndum M. Kristjánssonar. Fiskiþingið rak frá forsetastöðu Fiskifjelagsins þann mann, sem mest hefir unnið að því að ófrægja steinolíueinkasöluna. Þessi var dómur fulltrúa þeirrar stjettar, sem mest á undir steinolíuversluninni, og þá er hart, að háttv. þm. Vestm. (JJós) skuli dirfast að koma fram fyrir hv. deild og byggja á því, sem hann vildi hafa rannsakað, en hefir ekki gert.

En við skulum líta örlítið aftur í tímann. Hver hafði steinolíuverslunina með höndum áður en einkasalan komst á? Það var Standard Oil. Það fjelag hefir haft í þjónustu sinni marga hjerlenda menn, sem vitanlega vinna nú á móti einkasölunni. Það hefir og spent greipar sínar yfir ýms blöð í Ameríku og á væntanlega vingott við blöð, sem gefin eru út hjer á landi, en ekki má tala um í þessari hv. deild, vegna þess, að það kynni að koma nokkuð óþægilega við samviskuna hjá Íhaldsliðinu. En þau blöð eru allra blaða vísust til þess að breiða náðarfaðm sinn yfir háttv. þm. Vestm. (JJós), ef hann skyldi bjóða sig fram til þings oftar, og þakka honum þannig í verkinu fyrir að tortryggja landsins eigin bjargráðafyrirtæki.