06.05.1924
Efri deild: 65. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í C-deild Alþingistíðinda. (2633)

42. mál, einkasala á áfengi

Jóhann Jósefsson:

Það er enganveginn rjett hjá hv. 5. landsk. (JJ), að jeg hafi notað tækifærið til aðdróttana um rekstur landsverslunarinnar. Það voru aðeins staðhæfingar hans, um að einokunarverslunin hafi haldið niðri steinolíuverðinu, sem jeg vildi, og vil enn mótmæla. Það er enn órannsakað mál, en er mjög mikilvægt, og þarf að rannsaka til hlítar, hvort þetta fyrirkomulag hefir orðið sjávarútveginum að liði eða ekki. Jeg fæ ekki betur sjeð en að mál þetta megi ræða með rósemi og gætni, og finst mjer því einkennilegt, hversu mjög hv. 5. landsk. (JJ), sem ekkert er við þessa verslun riðinn, hefir orðið æstur út af ummælum mínum. (JJ: Mjer gremst vitleysan.) Það er satt, að Standard Oil var orðið illa þokkað meðal landsmanna, enda mun það vera aðalástæðan fyrir því, að einkasalan er þó ekki ver þokkuð en raun er á, að hún tók við af Standard Oil. (JJ: Er þm. ekki útibússtjóri landsverslunarinnar í Vestmannaeyjum?) Jú, eða rjettara sagt það firma, sem jeg á í, er það. En það hindrar í engu, að jeg segi hjer skoðun mína á olíueinkasölu eða einkasölu yfirleitt — eins og öðrum málum. Það getur hv. 5. landsk. (JJ) reitt sig á.