19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

75. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg skal stuttlega víkja að undirbúningi þessa máls.

Eins og af greinargerðinni sjest, þá hefir Stórstúka Íslands fjallað að mestu um frv. þetta. Hafa unnið að því þeir hr. Einar H. Kvaran, Pjetur Halldórsson og Pjetur Zophoníasson, og hefir frv. þetta verið borið undir framkvæmdarnefnd Stórstúku Íslands.

Að því er kemur til tilefnis frv., þá er þess ekki langt að leita. Eins og mönnum er kunnugt, þá gekk þingið í fyrra frá löggjöf, sem segja má að kipt hafi fótum undan bannlöggjöf vorri, og er auðsætt, að þessari miklu breytingu hlaut að vera samfara nauðsynin á rækilegri endurskoðun áfengislöggjafarinnar, og eru breytingar þær, sem hjer er farið fram á, einmitt þær, sem bæði bannmenn og lögreglustjórar hafa sjeð af reynslunni, að eru nauðsynlegar. Jeg skal taka það fram, að þær eru margar hinar sömu sem þær, er fram voru bornar á þinginu 1921 af hv. 4. landsk. þm. (JM), sem þá hafði stjórnarforystu á hendi, en allshn. svæfði málið. Aðaltilgangurinn með frv. er í stuttu máli að koma í veg fyrir, að sjálf löggjöfin hindri, að þjóðin geti komið vilja sínum fram og framfylgt löggjöf sinni.

Í öðru lagi horfir málið öðruvísi við en áður, þar sem ríkið hefir nú tekjur af áfengisverslun, og áfengislögbrotin þar af leiðandi einnig svik við ríkissjóðinn. Það er því ný hvöt um heppilega löggjöf, og vænti jeg, að allir, bæði bannmenn og andbanningar, geti þá orðið sammála um það, hversu nauðsynlegt sje, að eftirlitið verði sem tryggast.

Í þriðja lagi er jeg sannfærður um það, að almenningsálitið krefst þess, að þeim einu lögum, sem sett hafa verið með alþjóðaratkvæðagreiðslu, verði sem dyggilegast eftir fylgt, og það er enginn vafi á því, að þjóðin mun dæma valdhafana mjög mikið með tilliti til þess, hvernig þeir fara með þetta mál. Hingað til hefir sá dómur stundum verið allþungur og því mikils um vert, að úr því verði bætt nú og löggjöfin verði svo úr garði gerð, að hægt verði að hafa alt eftirlit sem tryggast.

Það leikur ekki á tveim tungum, að drykkjuskapur hefir aukist mjög mikið síðan undanþágan frá bannlögunum var veitt, og það ekki einungis vegna þeirra Spánarvína, sem inn hafa verið flutt, heldur alls þess áfengis, sem flýtur í kjölfar þeirra. Og þjóðinni er það nógu þungbært og nógu mikil minkun í því að hafa orðið að láta erlenda þjóð beygja sig og grípa inn í löggjöf sína, þó hún þurfi ekki að horfa á, að mikið af áfengi sje svikið inn í landið.

Jeg er heldur ekki í einum vafa um það, að meirihluti þjóðarinnar hugsar sjer að koma á hjá sjer aftur fullkominni áfengisbannlöggjöf. Því verðum við líka að gera alt, sem í okkar valdi stendur, til þess að halda þjóðinni sem minst sýktri af áfengisnautn, svo hún verði sem best búin undir algert bann.

Jeg tel ástæðulaust að fara út í einstakar greinar frv. við þessa 1. umr. Margt af því, sem þar er, er áður rannsakað og viðurkent, og treysti jeg hv. allshn. vel til að ganga sem best frá frv. En til þeirrar nefndar vænti jeg, að málið verði látið ganga.