19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í C-deild Alþingistíðinda. (2645)

76. mál, bann gegn áfengisauglýsingum

Jón Kjartansson:

Jeg stend ekki upp til þess að mótmæla frv. þessu, en jeg hygg, að þeir, sem að því standa, hafi ekki farið rjetta leið. Það er nefnilega augljóst, að þetta er ekki löggjafarefni, heldur getur stjórnin sett ákvæði um þetta inn í reglugerð um áfengissöluna, enda er það ríkið sjálft, sem hjer á hlut að máli, því það hefir einkasölu á áfengi. En mjög er hætt við því, að þetta ákvæði yrði brotið og það af sjálfri ríkisstjórninni, sem er skylt að hafa vín til sölu, því vafasamt er, í hversu víðri merkingu „auglýsingar“ skyldu takast. Undir auglýsingar (propaganda) geta t. d. heyrt áletranir á flöskunum sjálfum, tilkynningar um vörumerki í Lögbirtingablaðinu og Stjórnartíðindunum o. fl.

Það var aðeins þetta, sem jeg vildi benda hv. flm. (TrÞ) á, að frv. er óþarft í sjálfu sjer, og nokkurt ósamræmi í því, t. d. refsingin. Annars er þetta ekki neitt stórmál í mínum augum, og býst jeg ekki við, að það hafi mikla þýðingu, hvorki til nje frá.