23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

1. mál, fjárlög 1925

Guðmundur Ólafsson:

Jeg stend hjer ekki upp til þess að ræða um neinar brtt. við þetta fjárlagafrv., enda hefir lítið verið að því gert í umræðunum í dag, aðeins stöku sinnum minst á þær til þess að háttv. deildarmenn gleymdu því ekki, að þetta á að vera umræða um fjárlögin; en það er viðvíkjandi máli, sem nefnt var í umr. nú í sambandi við till. mentamálanefndar um fjárveitinguna til próf. Sigurðar Nordals, að jeg ætlaði að segja nokkur orð. Mál það, sem jeg á hjer við, var hjer til meðferðar á síðasta þingi og tók jeg þá nokkurn þátt í umr. um það, og er mjer því ekki óljúft, að það var dregið inn í þessar umr., svo jeg gæti lagt þar orð í belg. Hæstv. fjrh. (JÞ) gaf mjer þessa ástæðu, þegar hann mælti á móti till. um ritlaunin til próf. Sigurðar Nordals og taldi hana óvarlega, vegna þess að þetta gæti verið fordæmi fyrir meiri samskonar fjáreyðslu síðar. En hv. 5. landsk. (JJ) benti þá á það, að hæstv. fjrh. hefði ekki ávalt verið varfærinn í þessu efni með þær till., er hann hefði borið fram, og hefðu sumar miðað til stórra útgjalda fyrir ríkissjóð, og nefndi þá þetta mál, meðal ýmsra annara, sem jeg átti við í upphafi máls míns, — stofnun eftirlitsmannsembættisins með bönkum og sparisjóðum. Taldi hv. 5. landsk., sem rjett var, að hæstv. fjrh. hefði verið aðalstoð þessa máls á síðasta þingi, og ætti því aðalþáttinn í því, að þetta embætti var þá stofnað. En hæstv. fjrh. svaraði því, að hann hefði aðeins flutt málið fyrir beiðni þáverandi stjórnar, sem hefði viljað stofna þetta embætti til að þóknast háttv. 5. landsk. með því verki. Jeg er nú ekki svo lítillátur, að jeg geti unt hv. 5. landsk. þess heiðurs, að vera álitinn svo voldugur maður á þinginu, að hann hafi komið þessu til leiðar einn. Þessi embættisstofnun mun öllu heldur hafa átt að verða til þess að kveða niður þá óhæfu, sem talið var að við allir flokksmenn hv. 5. landsk. vildum hafa í frammi með því að leggja til, að þingnefnd athugaði Íslandsbanka. Hæstv. fjrh. sagði, að hinir skynsamari og gætnari menn í þinginu hefðu ráðið því, að þessi rannsókn, sem engin er nú orðin enn, færi fram á skynsamlegan og viðeigandi hátt, og því hefði þetta embætti verið stofnað. Það er auðvitað gott að geta farið slíkum orðum um sjálfan sig og sína flokksmenn, en reynslan hefir nú sýnt það, hve skynsamleg eða viðeigandi þessi embættisstofnun hefir verið. Embættið var látið verða ársgamalt áður en skipað var í það, en hefði maðurinn straks verið skipaður í það, mundi nú vera búið að eyða til þess 16–18 þús. kr. úr ríkissjóði. Reynslan hefir nú sýnt það, að það var álitið óhætt að láta líða heilt ár áður en maðurinn yrði skipaður, og mætti því ætla, að embættið hafi verið stofnað ári fyr en þess hafi þurft við. Hæstv. fjrh. sagði, að embættið hefði verið stofnað til þess að koma eftirlitinu með bönkunum í eðlilegt horf; en jeg veit nú naumast, hvenær það eftirlit muni byrja, því það gæti hugsast, að dregið yrði nokkuð enn, að eftirlitsmaðurinn byrji sitt lítils verða eftirlit, og kemur því altaf betur og betur í ljós, að enginn hefir trú á, að embætti þetta komi að gagni, aðeins þurft að stofna háttlaunaða stöðu. Jeg hygg því, að þar hafi alls ekki gætni ráðið, þegar þetta embætti var stofnað. Við skulum nú athuga laun þessa eftirlitsmanns í sambandi við laun próf. Sigurðar Nordals, ef hann fengi þennan styrk til ritstarfa. Próf. Sig. Nordal mundi þá hafa alls um 10 þús. kr. laun á ári, en eftirlitsmaðurinn hefði 6 þús. kr. hærri laun að minsta kosti og ferðakostnað eftir reikningi að auki, og verða því laun hans og ferðakostnaður að líkindum alt að 20 þús. kr. Nei, það á sitt hvað við í hvort skiftið. Það má vel vera gætni, sem ræður þessa stundina, en það er aðeins breytt þvert á móti því daginn eftir, eða þá strax á næsta þingi. Þá má athuga sparnað þann, sem komið verður á við háskólann í sambandi við þetta mál. Eftir því, sem hv. Nd. hefir gengið frá háskólalagafrv., verður þó sparaður 1 fastur kennari við háskólann, og að hæstv. forsrh. (JM) hefir eigi farið þess á leit við fjvn. að taka upp laun til kennara í íslenskri tungu, þótt hann bæri nú fram brtt. um það. Falli því eitt kennaraembættið niður við háskólann, en próf. Sigurður Nordal fái þessar 3000 kr., verður samt fjárhagslegur sparnaður við þetta, og er þó ekki tekið neitt tillit til alls þess hagnaðar, sem menn búast við, að landslýður allur hafi af því, að próf. Sigurði Nordal verði haldið kyrrum í embætti sínu hjer við háskólann. Það var aðeins þetta, sem jeg vildi taka ítarlegar fram en áður hefir verið gert hjer í deildinni. Það er ekki til neins að vera að halda því fram, að þetta muni skapa fordæmi síðar meir, þó þessi laun sjeu máske ekki í fullu samræmi við annað. Það skal að vísu viðurkent, að margir embættismenn hafa alt of lág laun, en það eru og margir þeir embættismenn til hjer, sem hafa óhæfilega há laun, samanborið við allan fjölda af embættis- og starfsmönnum ríkisins, eins og áður hefir verið tekið fram. Þá hafa og allmargir embættismenn hjer í bæ, þótt allvel launaðir sjeu, aukastörf sjer til tekjuauka, sem gefa af sjer jafnvel svo þús. kr. skiftir. Fyrir þessu þarf ekki að gera ítarlegri grein, vegna þess að þetta er alkunna. Háttv. 5. landsk. þm. nefndi t. d. einn tvílaunaðan embættismann hjer í bæ, sem samkvæmt samningi við stjórnina hefði 4 þús. kr. fram yfir embættislaun sín, og hefir því ekki verið mótmælt. Það verður því ekki fremur hægt að bera sig saman við próf. Sigurð Nordal, þó þetta verði samþykt, en þennan embættismann, sem hv. 5. landsk. þm. benti á. Svo er það ennfremur að athuga, að þó þessi launahækkun sje nú samþykt til próf. Sigurðar Nordals, til þess að missa hann ekki frá háskólanum, er það ekki þar með fastákveðið, að hann hafi þetta alla sína embættistíð. Gæti vel farið svo áður en mörg ár eru liðin, að þingið leyfði sjer að fella niður þessi ritlaun, þó að nú sje þörf á að veita þau.

Um þær brtt., sem hjer liggja fyrir, ætla jeg ekki að tala neitt frekar. Það mun sjást á atkvæði mínu, hvernig jeg lít á þær.