19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í C-deild Alþingistíðinda. (2650)

76. mál, bann gegn áfengisauglýsingum

Jakob Möller:

Jeg þyrfti víst helst að halda dálítinn fræðandi fyrirlestur um auglýsingar fyrir hv. þm. Str. (TrÞ). Að jeg hafi mikla trú á auglýsingum og telji þær þýðingarmiklar fyrir verslun og viðskifti þarf jeg auðvitað ekki að taka fram. En jeg hygg samt ekki, að þær geri alment mikið til þess að meira sje keypt af einhverri vöru en ella væri, nema um nýjar vörutegundir sje að ræða. En þar sem um fleiri tegundir sömu vöru, svo sem t. d. kaffis, er að ræða, þá getur oltið að nokkru á auglýsingum, hver tegundin mest er keypt.

Auglýsingar eru ákaflega þýðingarmiklar. En kaffi, t. d., er ekki auglýst af því, að hjer eða annarsstaðar sje fjöldi manna, sem ekki veit, að kaffi er til. Eins eru vínauglýsingarnar ekki til þess að auglýsa það, að hjer fáist vín, heldur til þess að halda fram gæðum sjerstakra tegunda. Frá bannlagasjónarmiði má okkur vera alveg sama, hvort þeir, sem neyta víns, drekka Dows eða Bodega. Ef vínsalarnir vilja kosta til auglýsinga, þá gerir það okkur hvorki til nje frá. Það verður ekki drukkið einni flösku meira af portvíni fyrir þá sök, en ef til vill dálítið meira af einni tegund heldur en annari. Auglýsingar skifta því engu máli frá þessu sjónarmiði, og alveg þýðingarlaust að banna þær. — Jeg geri ráð fyrir því, að hv. þm. Str. skilji mig, þó hv. ritstjóri Tímans geri það ekki.