26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í C-deild Alþingistíðinda. (2655)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sveinn Ólafsson:

Jeg vil byrja á því að þakka hv. flm. fyrir að hafa komið fram með þetta frv. Má líta á það sem einstakan vott fórnfýsi og sjálfsafneitunar, þótt tvímælis orki um kostina. Því það er auðsætt, að ef þetta verður að lögum, þá verða þm. ekki matvinnungar, ekki nærri skaðlausir af þingferðum eða þingsetu, þeir, sem úr fjarlægum hjeruðum eru. Þeim er því ætlað hjer að færa fórnir. Skal jeg fyrir mitt leyti ekki skorast undan því. En hitt dettur mjer ekki í hug að halda, að 12 kr. dagkaup nægi fyrir öllum daglegum útgjöldum hjer í bænum, að minsta kosti ekki á meðan sú dýrtíð ríkir, sem nú er. Hv. flm. virðist annars hafa skilið það rjett, að fórnfýsin verður að byrja hjá þingmönnunum sjálfum, ef sparnaðarstefnan á að hafa tilætluð áhrif. En þótt jeg sje háttv. flm. sammála um efni frv., að þessu leyti, þá er jeg ekki samþykkur meðferð þeirra á efninu og niðurröðun fórnanna og er jeg viss um, að hægt verður að finna rjettlátara fyrirkomulag. Svo lítur út eftir frv. sem þessa fórn eigi aðallega að færa bændur þeir, sem á þingi sitja, og með því er bændum gerð torveldari þingsetan en öðrum, og hygg jeg þó, að sá hafi tæpast verið tilgangur flm. Því það liggur í augum uppi, að þeir, sem að koma til bæjarins, geta ekki komist af með jafnlitið fje og þeir, sem þar eru búsettir. Það virðist því rjett að taka upp regluna frá 1912, að gera mun á kaupi aðkomuþingmanna og þeirra, sem búsettir eru hjer í Reykjavík. Einnig væri rjett að taka nokkurt tillit til þess, hvort sá, sem hlut á að máli, tekur samtímis laun úr ríkissjóði fyrir annað starf eða embætti, eða nýtur á annan veg styrks af almannafje. Takmörkunin verður að vera sem næst rjettum hlutföllum og sanngjarnleg. Fyrir því hefi jeg leyft mjer, ásamt hv. þm. Str. (TrÞ), að koma fram með brtt. við 1. gr. frv. Sú till leitar að þessu meðalhófi, sem jeg hefi nú drepið á, gerir mun á kaupi þingmanna búsettra hjer í bæ og þeirra, sem jafnhliða þingfararkaupi njóta fjár af almannafje og hinna, sem ekki njóta þess. Skal jeg annars ekki tala neitt frekar um þá brtt. við þessa umr. málsins, en geri ráð fyrir, að hún fylgi frv. til nefndar. Jeg vil annars minna á það, að það kaup, sem hjer er ráðgert, 12 kr. daglega, er mun lægra er þær 12 kr., sem lögin 1912 ætluðu þingmönnum, og liggur það í lággengi krónunnar íslensku. Hún var gullgeng 1912, en nú er hún vart meira en 46–48 aura virði, metin gegn gulli. Þessvegna er þetta ráðgerða þingfararkaup bersýnilega lægra en kaup óbreyttra verkamanna nú um stundir. En jeg tek það aftur fram, að jeg er fús til að fórna fje á þennan veg, ef kvöðinni er sanngjarnlega jafnað niður á alla þingmenn, og mun því styðja frv., ef fram gengur till. okkar hv. þm. Str.

Jeg vil svo, áður en jeg sest niður, víkja með fáum orðum að niðurskiftingu ferðakostnaðarins Jeg hefi ekki gert neina brtt. við þá gr., en það er þó ekki af því, að ekki sjeu misfellur á henni. Skal jeg t. d. taka, að ef ferðum til þings verður hagað sem hingað til, að hefja þingferðir með skipi syðst á Austfjörðum norður um land, þá nær engri átt að áætla ferðakostnað úr Suður-Múlasýslu minni en úr Norður-Múlasýslu, því þegar farið er norður um land, verður sú ferð eðlilega lengri og dýrari úr syðri sýslunni en þeirri nyrðri. Það virðist líka skjóta nokkuð skökku við, að ferðakostnaður úr Vestur-Skaftafellssýslu er áætlaður hæstur á landinu, eða 400 kr. Engin Rómsganga er þaðan til Rvíkur, og áður var ferðakostnaður úr Norður-Múlasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu lagður að jöfnu. En þetta eru alt minni háttar atriði, og er hægðarleikur fyrir nefndina að lagfæra það. Annars vil jeg að lokum minna á það, að hjer verður að viðhafa alla gát, þegar stefnt er til sparnaðar á kostnað einstakra manna, að ekki sje einum ofboðið, en öðrum ívilnað. Vegna þessarar hættu er áðurnefnd till. fram komin.