26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í C-deild Alþingistíðinda. (2661)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jakob Möller:

Það má um það deila, hvort ferðakostnaðarreikningarnir sjeu yfirleitt handahófsreikningar. Ef svo er skilið, að kostnaðurinn sje handahófskostnaður, má það ef til vill til sanns vegar færa. En því held jeg fast fram, að jeg man ekki betur en að fylgiskjöl hafi fylgt öllum reikningunum, sem þingfararkaupsnefndin 1920 úrskurðaði. Um reikningana síðan er mjer ókunnugt, en jeg vil benda hv. flm. á, að flokksbróðir þeirra, hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) hefir átt sæti í nefndinni síðan, og geta þeir spurt hann, hvort hann hafi úrskurðað slíka handahófsreikninga. Jeg tel nefndina bregðast skyldu sinni, ef hún úrskurðar og ávísar handahófsreikningum, er henni virðast ósanngjarnir.

Þetta frv. er í raun rjettri ásökun til allra þingmanna, að þeir sjeu ekki heiðarlegir menn. Ekki einungis þeir, sem gefa reikninga til þess að draga sjer stórfje, heldur og einnig hinir, sem úrskurða reikningana. Þetta er óhæfa. Til þess ber brýn nauðsyn, að fyrir því sje gert ráð sem sjálfsögðum hlut, að á þingi sitji ekki aðrir en heiðarlegir menn. Það verður að vera krafa frá sjálfsbjargarmeðvitund þjóðarinnar, að fulltrúar hennar sjeu ekki óheiðarlegir. Annars hefir þingið mist tilverurjett sinn, og er þá sjálfsagt að leggja það niður. Ef þingið þarf að verjast svo ágengni sjálfs sin, að ferðakostnað þurfi að ákveða með lögum, má það lengi leita að aðferð til að koma í veg fyrir, að þingmenn geti einhverja smugu fundið til þess að draga sjer fje.

Það liggur í augum uppi, að ógerningur er að fastákveða kostnað við þingsetu og ferðir til þings, þegar af þeirri ástæðu, hve gildi peninga er reikult, og allra síst má lögfesta kaup, sem er í raun og veru lægra en þegar það var 6 kr. Ef til þess er ætlast, að þingmenn fái kostnað sinn endurgoldinn, verður að greiða hann eftir reikningi og treysta því, að þingmenn sjeu heiðarlegir menn og gefi ekki ranga reikninga.

Þar sem sjerstaklega hefir verið dreginn inn í umræðurnar ferðakostnaður þm. V.-Sk. 1920, skal jeg geta þess, að sá þingmaður hefir vafalaust ferðast þá á sama hátt sem hann er vanur fyrir eigin kostnað. Jeg hefi átt tal við hann um þennan reikning, og kvaðst hann jafnan ferðast um sýsluna á þennan hátt. Hann er heilsuveill og getur því ekki ferðast á sama hátt og þeir, sem fullhraustir eru, og sjest af þessu, að ekki er auðið að ákveða jafnan ferðakostnað fyrir alla. Þeir þingmenn, sem eru svo hraustir, að þeir geta gengið norðan úr landi, geta auðvitað ferðast ódýrara en aðrir, en það er ekki unt að gera þá kröfu til allra þingmanna, að þeir komi gangandi, ef til vill norðan af Langanesi, og klofi snjó um hávetur yfir fjöll og firnindi. Jeg skoða þetta ekki sem fjárhagsatriði, heldur sem hreint og beint kjaftshögg á Alþingi.