26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í C-deild Alþingistíðinda. (2663)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Tryggvi Þórhallsson:

Orð hv. þm. V.-Sk. (JK), þau, að hinn hái ferðakostnaður fyrirrennara hans hefði stafað af veikindum hans, mega ekki vera ómótmælt. Í þeim getur legið bein aðdróttun um fjárdrátt. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) upplýsti raunar, að þetta væri rangt, en jeg tel þessi orð hv. þm. (JK) svo óviðeigandi og ósæmileg, að hann geti ekki látið hjá líða að biðja hv. deild afsökunar á þeim.

Brtt. eru ekki til umr. nú, en jeg get lýst yfir því, að jeg mun greiða atkv. á móti frv. þessu, ef brtt. mín og hv. 1. þm. S.-M. nær ekki fram að ganga. Með því viljum við ráða bót á því órjettlæti, sem utanbæjarþingmenn eru beittir með frv. og sem jeg þykist vita, að hv. flm. þess hafi ekki ætlast til að ætti sjer stað.

Loks vil jeg senda mínum kæra vini, hv. þm. Dala. (BJ) ofurlítið skeyti. Hann gat þess nefnilega, að kostnaðurinn við sig væri 1/3 minni en við aðkomumenn. Í þeim útreikningi átti hann víst aðeins við kostnaðinn við að komast til þings. En gaman væri að heyra, hvort hann kemst að sömu niðurstöðu, þegar hann reiknar saman allan þann kostnað, sem af dvöl hans hjer á þingi flýtur.