23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Mjer hefir orðið framsagan fyrir hönd fjvn. að mun ljettari en jeg bjóst við, þar sem allar þær brtt., sem fjvn. hafði borið fram, voru samþyktar við 2. umr. fjárlagafrv., og nú hafa heldur engar brtt. nefndarinnar sætt neinum andmælum, og væri það því ófyrirgefanlegt af mjer, ef jeg færi að lengja þessar umr., sem þegar hafa staðið yfir í 12 stundir, með því að fara að tala um brtt. nefndarinnar, sem jeg býst við, að verði samþyktar með öllum atkv. þessarar hv. deildar, og verð jeg að álíta, að fjvn. hafi tekist starf sitt vel. En eins og öllum hv. deildarmönnum er kunnugt, er skrifari fjvn. veikur og hefir ekki getað tekið þátt í síðustu fundunum. Jeg hefi því ekki annað að gera en að skýra frá afstöðu fjvn. til brtt. einstakra þm., en sumar þeirra eru svo seint fram komnar, að nefndin hefir ekki getað borið sig saman um þær.

Þá eru þær fyrstar brtt. á þskj. 417,II, frá hæstv. forseta (HSteins), og getur fjvn. með engu móti fallist á þær. Þessar brtt. lágu báðar fyrir þessari hv. deild við 2. umr. fjárlagafrv., að vísu lítið eitt öðruvísi orðaðar, en deildin hefir lagt fullnaðarúrskurð sinn á þær með því að samþykkja brtt. fjvn. Jeg skil því ekki, hvað þessi háttv. þm. ætlar fyrir sjer með því að bera nú þessar brtt. sínar fram hjer aftur, því að jeg get ekki ætlað, að hann vænti þess, að þessi háttv. deild kúvendi svo fljótt í þessu máli. Önnur brtt. þessa sama háttv. þm. fer nú að vísu fram á nokkru lægri upphæð, en nefndin getur þó ekki mælt með því, að þetta verði samþykt. Ekki af því, að fjvn. álíti það ekki vera gott og nauðsynlegt fyrir lækna að fara utan, heldur leggur nefndin á móti þessu nú aðeins vegna þess, hversu fjárhagur ríkisins er örðugur á þessum tímum, svo að spara verður alt, sem hægt er að spara, og nefndin álítur, að hægt sje að spara þessi útgjöld um svo sem 2–3 ár, án þess að verra hljótist af, og væntir þess, að læknastjett ríkisins sætti sig við þetta eins og allir aðrir hafa orðið að gera.

Næst er þá 3. brtt. á sama þskj., frá hv. 5. landsk. (JJ), og hefir nefndin þar óbundnar hendur. Þetta er sjúkrastyrkur til kvenmanns, sem áður hefir notið þessa styrks; en meiri hl. nefndarinnar sá sjer þó ekki fært að mæla með þessu, vegna þess að fyrir nefndinni lá önnur umsókn, frá manni í Dalasýslu vestur, sem þjáður er af sjúkdómi, sem þar mun vera talinn lítt læknandi, og er nefndin hrædd um, að fleiri muni á eftir koma, ef þetta verður samþykt.

Þá getur fjvn. ekki fundið skynsamlegar ástæður fyrir því, að skólagjöld sjeu lægri við Flensborgarskólann en aðra skóla í ríkinu. Þessi hv. deild hefir samþykt, að skólagjöld skuli hækkuð úr 100 kr. upp í 150 kr. fyrir innanbæjarnemendur, og álítur nefndin, að þetta geti orðið til að draga úr óeðlilegri aðsókn að skólunum en ella.

Þá hefir nefndin óbundnar hendur um næstu brtt., frá sama hv. þm. Jeg hefi heyrt, að skólinn í Bergstaðastræti sje vinsæll hjer í bænum, og er nefndinni það ekki kappsmál, þó að þetta verði samþykt. Sama er og að segja um næstu brtt., VI., frá hv. 5. landsk. Það er aðeins spurningin, hvort ekki sje þegar orðið fullskipað í sundlaugunum, enda þótt nefndin álíti sanngjarnt, að allir skólar, sem styrktir eru af opinberu fje, njóti sömu hlunninda í þessu.

Þá hefir nefndin og óbundnar hendur um brtt. VIII á sama þskj., um hækkun á styrknum til sjera Jóhannesar L. L. Jóhannssonar. Fjvn. vildi ekki fara lengra en hún gerði till. um, og getur enda verið spursmál, hvort háttv. Nd. vill sætta sig við þessa síðari uppfærslu, þótt vera kynni, að hækkunin upp í 5 þús. kr. hefði fengið að standa óhögguð í Nd.

Þá kem jeg að brtt. um að veita próf. Sigurði Nordal 2000 kr. styrk með verðstuðulsuppbót til ritstarfa. Það er talið svo, að það kosti ekki nema þessar 3000 kr. að halda þessum manni, en jeg sje ekki betur en að það kosti líka 5700 kr., sem feldar hafa verið niður til dr. Alexanders Jóhannessonar, því jeg skil ekki í því, að hv. þm. geti svo gert upp á milli þessara manna, að öðrum sje sparkað burt, en hinn keyptur til að vera kyr fyrir ærið fje. Finst mjer það helsti mikill munur, þó annar kunni að vera víðfrægari, en jeg hygg, að dr. Alexander sje og nokkuð þektur sem vísindamaður erlendis.

Hvað snertir brtt. XI, frá háttv. þm. Vestm. (JJós), um erindrekstur í Miðjarðarhafslöndunum, þá hefir hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) minst á hana, og er nefndin mjög sammála því, er hann sagði. Nefndin leit svo á, að væri stjórninni umhugað um, að slíkt yrði gert, þá gæti hún gripið til þess fjár, sem veitt er í 16. gr. 15 í fjárlögunum til markaðsleitar, og eins væri Fiskifjelaginu skylt að styðja þetta og bönkunum, sem aðallega hafa hafist handa um nauðsyn á slíku. Og nefndin leit svo á, að hefði stjórninni verið þetta áhugamál, þá myndi hún hafa borið fram slíka till. áður. (Atvrh. MG: Stjórnin hefir mælt með þessari till.).

Brtt. XII er nefndin eindregið á móti; hún vill á engan hátt verða til þess að hvetja Ísafjarðarkaupstað til að ráðast í slíkt stórræði á þessum tímum sem bygging hafskipabryggju er, og allra síst eftir að upplýst hefir verið, að hann getur ekki staðið í skilum við ríkissjóðinn.

Þá er brtt. XIV. frá hv. 2. þm. S.-M. (IP). Hefir nefndin óbundin atkvæði um hana. Maður sá, sem hjer ræðir um, hefir starfað lengi í þjónustu þess opinbera, en er nú orðinn aldraður og kona hans sömuleiðis. Mjer er kunnugt um, að þetta er sæmdarmaður, og mun fyrir mitt leyti greiða atkv. með þessari till.

Hinsvegar getur nefndin alls ekki fallist á brtt. XV. frá hv. 5. landsk., sem fer fram á að taka Guðmund Björnsson upp í fjárlögin með 200 kr. Helmingi lægri upphæð var feld hjer síðast, ekki af því, að nefndinni þætti hún of lág, en af hinu, að hún treysti sjer ekki til að taka upp alla aldraða kennara, þó mætir væru, og vildi því láta þennan mann sæta sömu kjörum og júbil-ljósmóðurina.

Brtt. XVI, frá hæstv. fjrh. (JÞ), er jeg persónulega hlyntur, en nefndin taldi ekki rjett að taka hana upp í fjárlögin, því óvíst væri, hver upphæðin yrði, þegar til kæmi.

Um brtt. XVIII, frá hv. 2. þm. G.-K. (BK) og hv. 1. landsk. (SE), hefir nefndin ekki annað að segja en að hún telur hana vera til bóta.

Loks hefir nefndin óbundnar hendur um allar till. á þskj. 422. Eins er um brtt. á þskj. 434, frá hæstv. fjrh. Nefndin hefir ekki getað borið sig saman um hana, en jeg hygg, að ekkert geti verið á móti því, að stjórnin fái heimild til að selja þessi hús á Akureyri, fyrst hún þarf ekki að nota þau.

Um brtt. hv. þm. Vestm. (JJós), um sjerstaka upphæð af styrknum til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga, hefir nefndin ekki borið sig saman, en nefndin tók hana ekki upp af því, að hún vildi ekki veita ákveðnu fjelagi styrk og binda um leið hendur þess, hvernig það notaði hann. Það er ekki svo að skilja, að nefndin vilji ekki, að þessi stúlka fái styrk, enda er einn úr stjórn þess fjelags í fjvn., hv. 6. landsk. (IHB), og henni er kunnugt um, að þessari stúlku verður veitt eins mikið af fjelagsstyrknum og fært þykir hlutfallslega.

Jeg gat þess á fyrri ræðu minni í dag, að ef allar brtt. fjvn. yrðu samþyktar og aðrar ekki, þá yrði tekjuaukinn í fjárlögunum, er þau færu út úr þessari háttv. deild, 220 þús. kr.

Nú nema brtt. hv. þm. 181650 kr., og ef þær verða allar samþyktar, þá má rjett heita svo, að við skilum fjárlögunum tekjuhallalaust, og þó ekki, ef tekið er tillit til heimildarinnar um styrkinn til Eimskipafjelagsins. Og einnig má benda á það, að undir umr. hefir verið útbýtt hjer nál. um berklaveikislögin, þar sem lagt er til, að málinu sje vísað til stjórnarinnar, en þá er bert, að upphæðin, sem veitt er í 12. gr. 12 í fjárlagafrv. og er 200 þús. kr., er að minsta kosti 100 þús. kr. of lág. Og þá er knapt um, að fjárlögunum verði vísað tekjuhallalaust út úr deildinni, þó tölurnar sýni annað.

Jeg álít því rjett, að hv. deild fari sjer hægt í því að auka útgjöldin meira en það, sem fjvn. leggur til.