08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í C-deild Alþingistíðinda. (2679)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Tryggvi Þórhallsson:

Það er ákaflega þægileg aðstaða, þegar tveir flokkar eigast við í þinginu, að vera í þriðja flokknum, sem engin teljandi áhrif getur haft á gang málanna, og standa upp með mikilli vandlætingarsemi, kasta hnútum á báða bóga og þykjast vera að bjarga landinu. Það er ósköp þægilegt að sitja þar, sem engin ábyrgð hvílir á, og lasta hina, sem eftir aðstöðu sinni verða að bera ábyrgðina. Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir notað sjer þessa aðstöðu vel og óspart skemt sjer og öðrum með steinköstum til beggja aðalflokkanna. Hann talaði um leikaraskap — og það var gaman að sjá hann leika, því þetta ljek hann vel. Jeg ætla mjer nú ekki að taka upp þykkjuna fyrir Íhaldsflokkinn, hefi ekki gert það og mun vart gera. En það var eitt atriði í ræðu hv. þm. (JakM), sem hann kallaði leikaraskap af beggja hálfu, Framsóknarflokksmanna og Íhaldsmanna, sem jeg vil drepa á. Jeg vil halda því ákveðið fram, að hvað viðvíkur stjórnarskrármálinu í hv. Ed., þá sje alls ekki hægt að bregða Framsóknarflokksmönnum um leikaraskap. Stærsta atriðið í því máli var að fá þing aðeins annaðhvert ár. Og því var margyfirlýst og það þrásinnis boðið af Framsóknarmönnum, að allar aðrar brtt. skyldu feldar niður, nema þessi eina, sem leiddi af sjer stórfeldan sparnað. En þegar sjeð var, að samkomulag náðist ekki um þetta og búið var að skjóta mörgum fleygum inn í málið, bar Framsóknarflokkurinn fram aðra brtt., sem horfði líka til sparnaðar, en hafði þau áhrif, að Íhaldsflokkurinn drap frv.

Jeg vil aftur mótmæla því, að Framsóknarmenn hafi haft nokkurn leikaraskap frammi í því máli.