23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

1. mál, fjárlög 1925

Jóhann Jósefsson:

Út af ummælum hv. 2. þm. G.-K. (BK) um till. samgmn. um úthlutun á flóabátastyrknum skal jeg aðeins geta þess, að nefndin hefir alls ekki hallað á Hvalfjarðarbátinn samanborið við Grímseyjarbátinn. Frá fyrra ári hefir styrkurinn til Grímseyjarbátsins lækkað um 40%, en ekki nema 33% hvað snertir Hvalfjarðarbátinn.

Svo er það aðeins lítil athugasemd viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) sagði um brtt. mína, og í raun og veru hv. form. fjvn. (JóhJóh) líka. Hv. 1. þm. Eyf. hjelt því fram, að óþarfi væri að bera fram till. um sjerstaka fjárveiting til erindrekstrar á Spáni, því að í fjárlögunum væru veittar 15 þús. kr. til markaðsleitar erlendis. Nú er það upplýst af hæstv. atvrh. (MG), að stjórnin muni verja meginhlutanum af þessum 15 þús. kr. til markaðsleitar fyrir kjöt og aðrar landbúnaðarafurðir. Hafði jeg heyrt um þetta áður og sje ekkert á móti því, þar sem mjög ríður á slíku nú. En eftir að hæstv. atvrh. hefir lýst þessu yfir og um leið lýst yfir fylgi sínu við brtt. mína, verð jeg að vona, að hv. 1. þm. Eyf., og eins hv. fjvn., sjái nauðsynina á því, að mín brtt. sje samþykt, þar sem stjórnin að öðrum kosti hefir ekkert fje, sem hún getur varið til erindrekstrar á Spáni.

Jeg skal ekki þreyta hv. deild með lengri ræðu um þetta mál, enda búið að ræða það lengi. Jeg hefi gert skyldu mína gagnvart þessum höfuðatvinnuvegi og bent á þýðing þess, að slík erindi sjeu rekin, og því er það á ábyrgð hv. deildar, hvernig hún fer með þetta mál.

Út af því, sem hv. 5. landsk. mintist á málið aftur í síðustu ræðu sinni, skal jeg geta þess, að það er ekki sprottið af misskilningi hjá mjer að brúka orðið „erindreki.“ Hann hjelt því fram, að jeg hefði vilst á orðum og að erindreki þýddi sama og verslunarumboðsmaður.

Þetta er ekki svo. Þessi maður er altaf nefndur erindreki, og í brjefi um þetta mál, sem hjer liggur fyrir og ekki er undirskrifað af færri en 6 bankastjórum, er hann altaf kallaður erindreki. Enda þurfti ekki að fara í neinar grafgötur til að finna, hvað jeg meinti með till.; jeg sagði það strax í upphafi og dró þá fram aðalatriðin í því, sem jeg ætlast til, að slíkur maður geti unnið fyrir landið. En það er því miður sama nú og áður, að hv. 5. landsk. skilur þetta ekki, og er þó búinn að tala um það þrisvar. Hann heldur, að slíkur maður yrði einkum stórútflytjendum að gagni. Það er alveg gagnstætt.

Jeg veit ekki hvernig mjer gengi, ef jeg færi í skóla hv. 5 landsk., en jeg held tæplega, að jeg gæti reynst tornæmari þar en hann er nú á það, sem jeg hefi verið að reyna að koma inn í höfuð hans í kvöld.

Slíkur erindrekstur er sannarlega ekki til ágóða fyrir Copland — það hefir verið minst á hann hjer í deildinni. Jeg er sannast að segja hissa á því, að hv. 5. landsk. skuli ekki vita, að Copland og hans nótar hafa fulla vitneskju um fiskmarkaðinn, þó við höfum engan erindreka. En það er í þágu smærri fiskeigendanna víðsvegar um landið, að upplýsingar sjeu fyrir hendi um það, hvernig markaðurinn stendur, svo þeir selji ekki fisk sinn lægra verði vegna ókunnugleika um verðið á Spáni en þeir ella mundu gera. Þeim er það til hjálpar, en ekki stórútflytjendunum; þeir hafa vissulega aðrar hjálparhellur beggja megin hafs.

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta frekar, en af því að hv. 5. landsk. sagði, að jeg ætti að vera honum þakklátur fyrir stuðning hans við björgunarskipið Þór, þá vil jeg hjer, eins og jeg hefi áður gert annarsstaðar, við það kannast, að jeg tel hann hafa sýnt þar virðingarverðan skilning, jafnvel öðrum fremur. En hann má þó alls ekki ætlast til þess, að jeg í skjóli þess leyfi honum átölulaust og hirtingarlaust að ráðast hjer í háttv. deild á stjettarbræður mína, útvegs- og verslunarmenn, víðsvegar um land. Jeg hefi ekki gert það nú og mun ekki gera það heldur framvegis meðan jeg á hjer sæti.