07.04.1924
Efri deild: 42. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í C-deild Alþingistíðinda. (2688)

121. mál, þingsköp Alþingis

Forseti (HSteins):

Jeg vil benda á það, að þetta frv. er stórgallað, og gæti þessvegna verið ástæða til að vísa því frá. í byrjun 1. gr. stendur:

„Fjárveitinganefnd neðri deildar skal skipuð í lok hvers þings, fyrir það þing, er halda skal næst á eftir.“

Þarna er ekki tekið fram, hvort sameinað þing eigi að kjósa í fjárveitinganefnd eða aðeins neðri deild. En 2. málsgrein hljóðar svo:

„Nú fara fram almennar kosningar til Alþingis, og skal þá skipað í fjárveitinganefnd neðri deildar með hlutbundnum, skriflegum eða símuðum kosningum allra þingmanna, sbr. 17. og 48. gr.

Hjer er farið fram á kosningu af hálfu allra þingmanna. Ef samræmi á að vera hjer á milli, virðist mega draga þá ályktun, að allir þm. eigi að kjósa í nefndina, jafnvel þó að þingkosningar hafi ekki farið fram. Verður ekki annað sagt en að það ríði í bág við stjórnarskrána. Hún gerir ráð fyrir, að hver deild kjósi í nefndir innan deildarinnar, en ekki sameinað þing.

Annar aðalgallinn er sá, að ætlast er til, að nefndin sje kosin áður en þingmenn eru orðnir starfshæfir, áður en þeir hafa unnið eið að stjórnarskránni, áður en kjörbrjef þeirra eru prófuð, áður en þingmenn eru orðnir þinghæfir.

Þessir gallar gera það að verkum, að frv. er algerlega óaðgengilegt eins og það er. En í því trausti, að bæta mætti úr göllunum í nefnd, vil jeg leggja til, að frv. verði umræðulaust vísað til hv. allshn.