28.04.1924
Efri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í C-deild Alþingistíðinda. (2692)

121. mál, þingsköp Alþingis

Sigurður Eggerz:

Jeg skal leyfa mjer að taka það fram strax, að jeg mun greiða atkvæði á móti þessum brtt. Er aðalástæðan sú, að jeg er ákveðinn á móti 1. gr., sem gengur bersýnilega í þá átt að mynda hjer nokkurskonar yfirþing, eins og rjettilega var tekið fram af hv. 1. þm. Rang. (EP). Leiddi það til þess, að fjvn. færi að seilast inn á þau svið þingsins, sem eru fyrir utan starfssvið hennar. Enda hefir bólað á slíkri tilhneigingu hjá nefndinni nú á þessu þingi, þar sem hún hefir verið að koma með till. um fræðslumál, sem vitanlega voru svo óhentugar, að þær voru feldar. Það er auðvitað mál, að fjármálaþræðirnir liggja til allra mála þingsins, en til þess eru nefndir skipaðar, að þær rannsaki og geri till. hver á sínu takmarkaða sviði.

Um aðrar brtt., sjerstaklega ræðustólinn, skal jeg taka það fram, að jeg sje enga ástæðu til þeirrar nýbreytni hjer, enda þótt slíkt tíðkist erlendis. Það má vel vera, að menn veigri sjer við að fara upp í ræðustólinn, nema nauðsyn sje til, og er það auðvitað. En ástæðan til þess, að jeg er á móti þessu, er sú, að jeg vil sem minstu breyta á þessu sviði. Enda álít jeg, að fyrirkomulagið sje fullsæmilegt eins og það er. Finst mjer yfirleitt bóla um of á breytingagirni á Alþingi á síðustu árum. Vildi jeg í því sambandi áminna Íhaldsflokkinn um það, að vera íhaldssamur, þar sem um er að ræða hið gamla og góða, en þessa virðist mjer ekki gæta mikið hjá greindum flokki.

Hvað 3. gr. snertir, þá skal jeg geta þess, að jeg efast um að svo mjög sje við hana sparað. Jeg held, að þeir menn sjeu fáir, sem halda framsöguræðu lengur en í klukkutíma, það kynni þá helst að vera frsm. fjárveitinganefndar, en hann má líka tala lengur samkvæmt frv. Eins býst jeg við, að það sje ekki oft, sem aðrir þm. tala lengur en klukkustund.

Annars er jeg á móti allri þessari breytingagirni, sem hjer er verið að skipa í öndvegið. Ekkert er hjer heilagt. Hjer er sjálfsagt að breyta öllu, hæstarjetti, Alþingi, háskólanum. (EÁ: En stjórnarskránni!) Stjórnarskránni líka. (JJ: Þá er sendiherrann!) Já, við eigum svo sem ekki að vera að ómaka okkur með því að ráða okkar utanríkismálum. Okkar aðalstofnanir eru einskonar æti, sem hinir breytingargjörnu kjá stöðugt yfir. Auðsætt er nú, að ef hæstarjetti verður breytt í hreppsnefndaráttina, þá þarf strax á næsta þingi að lágfæra hann. Og mun jeg gera það sem í mínu valdi stendur til þess að lagfæra hann.