28.04.1924
Efri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í C-deild Alþingistíðinda. (2696)

121. mál, þingsköp Alþingis

Sigurður Jónsson:

Það hefir máske lítið að þýða að halda langa ræðu. Það virðist augljóst, að mál þetta nái ekki fram að ganga á þessu þingi, svo skiftar skoðanir eru um það í hv. deild. Fyrir mitt leyti get jeg ekki fallist á frv. eins og það liggur fyrir. Má taka fram viðvíkjandi 1. gr., að það mun að líkindum verða lítill tímasparnaður að því, að þessi fasta nefnd komi saman 14 dögum fyrir þing. Þessi nefnd myndi trauðla losna við einstaklingsaðsókn þingmanna í Reykjavík og utan af landi. Auk þess hefir ekki verið sýnt fram á, að það yrði gert auðvelt, að þingmenn lengra að ættu kost á að mæta hjer, svo nefndarmenn myndu frekar verða valdir úr Reykjavík og grendinni.

Jeg hygg það væri til bóta, ef hægt væri að koma ræðustól fyrir í deildinni.

Mjer þykir ólíklegt, að á nokkru þingi sje takmarkað málfrelsi á þann hátt, sem frv. ræðir um. Það mun ekki vera svo á Englandi. Get jeg alls ekki verið með því. Hugsum okkur þetta í framkvæmdinni. Jeg hygg, að forseti myndi í síðustu lög taka þann sið að stöðva menn, kanske í miðri ræðu, á vissri mínútu. Að minsta kosti kærði jeg mig ekki um það.