28.04.1924
Efri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í C-deild Alþingistíðinda. (2697)

121. mál, þingsköp Alþingis

Eggert Pálsson:

Það voru nokkur orð út af ræðu hv. 5. landsk. (JJ). Jeg vil álíta, að það sje ekki mögulegt að framkvæma þessa nefndarkosningu þau árin, sem þingkosning fer fram. Hvað hitt snertir, ef flokkaskifting væri mjög ákveðin og fjárlög gerð samkvæmt flokkaskiftingu, eins og í enska þinginu, má segja, að ekkert sje að því að finna. Þá stæði á sama, hvort Pjetur eða Páll ætti sæti í fjvn. Hjá okkur er ekki til ákveðin flokkaskifting. Þingið hefir undanfarið verið bygt upp úr ósamstæðum flokksbrotum. Þau hafa slegið sjer saman eitt árið og myndað stjórn, en klofnað sundur aftur á næsta þingi. Væri þinginu skift í tvær ákveðnar stefnur, væri kanske hægt að koma þessu við; en eins og nú stendur, er það ómögulegt. Viðvíkjandi því, að gömlu flokkarnir, Heimastjórnarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hafi verið fjármálaflokkar, þá get jeg sem gamall heimastjórnarmaður lýst því yfir, að í þeim flokk voru fjármál yfirleitt aldrei gerð að flokksmáli. Hinsvegar mun það hafa komið fyrir, að Sjálfstæðisflokkurinn gerði fjármál að flokksmáli, en einmitt líka þessvegna klofnaði hann. Jeg get þessvegna tæplega viðurkent það, að sama fyrirkomulagið hvað snertir fjvn. eigi sama rjett á sjer hjer og í enska þinginu. Grundvöllurinn er ekki sá sami. Og þá hlýtur líka byggingin, sem reist er á þeim grundvelli, að verða önnur.