29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það hefði ef til vill verið rjettast, að jeg tæki ekki fyrstur til máls, en það hefir verið venja, og vil jeg því ekki bregða út af henni.

Þetta frv. virðist ekki í fljótu bragði hafa tekið miklum breytingum í hv. Ed., þar sem það fór hjeðan með 178 þús. kr. tekjuafgangi, en kemur frá hv. Ed. með 170 þús. kr. afgangi. En því er þó ekki svo varið, því að hv. Ed. hefir hækkað tekjubálkinn um 322750 kr., en gjöldin um 330827 kr. Þannig hefir hv. Ed. hækkað gjöldin um þriðjung miljónar, og þó að hún hafi fundið tekjur til að vega upp á móti þessu, þá orka þær nokkuð tvímælis. Nefndin lítur að minsta kosti svo á, að hv. Ed. hafi gengið fulllangt í því að hækka stimpilgjaldið um 300 þús. kr., en hefir þó ekki viljað flytja brtt. um lækkun á þessum lið, enda vont að gera sjer grein fyrir, hver upphæð muni næst lagi. Það er verðtollurinn, sem á að gefa þennan tekjuauka, en það hlýtur að vera vafasamt, hve miklar tekjur verða af honum, þar sem hann er lagður á margar eða allar þær vörur, sem verða bannvörur samkvæmt yfirlýsingu hæstv. stjórnar, og í öðru lagi hlýtur hæð tollsins að draga úr innflutningnum. Nefndin telur því, að hv. Ed. hafi hjer farið á fremstu grös.

Af þessari 330 þús. kr. hækkun eru 2/3 hlutar fólgnir í 2 liðum, sem teljast mega óumflýjanlegar hækkanir. Fyrri liðurinn er hækkun á vöxtum af innlendum lánum, á annað hundrað þúsund. Nýjar skuldir höfðu fundist, svo að þennan lið hefði þurft að hækka um 140 þús. kr., en þó hefir hv. Ed. ekki farið lengra en að hækka þetta um 116 þús. kr. Hinn liðurinn, sem hækka þurfti, var dýrtíðaruppbót embættismanna. Fyrir þeirri hækkun hefir hv. Ed. gert 100 þús. kr. En á annað hundrað þúsund hefir hv. Ed. bútað niður til ýmsra útgjalda, sem telja má misjafnlega þörf, að áliti fjvn. neðri deildar.

Það virðist svo, sem hv. Ed. hafi litið á fjárhagsmál ríkissjóðsins frá nokkuð öðru sjónarmiði en þessi hv. deild. Það, sem hefir vakað fyrir oss nefndarmönnum frá því er vjer byrjuðum starf vort, er það, að eins og nú stendur sje óumflýjanlegt að taka öðrum tökum á þessum málum en undanfarið hefir verið gert. Vjer höfum flotið sofandi að þeim feigðarósi, sem vjer stöndum nú við. Fjárlögin hafa jafnan verið afgreidd með tekjuhalla, skuldir hafa safnast svo ört, að talsvert af þeim hefir týnst jafnharðan, með öðrum orðum hefir stjórnin ekki fylgst með til þess að taka alt upp í greinargerð sína, svo að nú stöndum vjer og horfum framan í þann beiska sannleika, að vjer ráðum ekki við neitt, nema vjer stöðvum og snúum við. Höldum vjer áfram, erum vjer glataðir. Það er sýnilegt, að þá munum vjer, eins og vjer höfum týnt skuldunum, týna öllu trausti á sjálfum oss til viðreisnar og glata allri ábyrgðartilfinningu fyrir því, hvernig farið er með fje ríkissjóðs.

Það hefir verið tekið fram, að ekki sje einhlítt að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaus; það sje svo margt annað, sem taka þurfi til greina. En það er þó miklu stærri þáttur en menn ætla. Um leið og það er stöðvun á takmarkalausum útgjöldum, þá opnar það augu annara, sem til vor líta, fyrir því, að vjer sjeum að vitkast, að vjer tökum á þessum málum eins og ber að gera, eins og þjóð, sem vill og ætlar að bjarga sjer. Þetta er tvímælalaust einn þátturinn, og hann ekki lítill, í því að hækka gengi krónunnar.

Þessa afstöðu tók fjvn. þessarar deildar þegar í upphafi. Þarf jeg ekki að brýna þetta fyrir hv. deild; hún hefir fylgt þessari stefnu, og væntir nefndin þess, að hún fylgi tillögum hennar eins og áður. Þó skal jeg geta þess, að tillögur fjvn. eru ekki eins ákveðnar og áður og hún hefði kosið, því að hún hefir í ýmsu komið á móti hv. Ed. Telur hún ekki rjett að vekja stífni milli deildanna og vill því koma svo langt á móti hv. Ed., að frv. þurfi ekki að velkjast fram og aftur og komast í sameinað þing.

Jeg skal þá snúa mjer lítið eitt að brtt. nefndarinnar á þskj. 460. Fyrsta brtt., undir I, er að fella niður fjárveitingu til að reisa fangahús á Ísafirði og í Vestmannaeyjum, sem hv. Ed. hefir sett inn í frv. Þessi till. er flutt af meiri hluta fjvn. Svo stendur á um þessa fjárveitingu, að kvartanir hafa komið frá Vestmannaeyjum um, að brýn þörf sje á fangahúsi. Þar hafði verið eitthvert hreysi, sem selt var og rifið, og rann það fje í ríkissjóð, en aldrei hefir neitt verið lagt fram til þess að reisa húsið á ný. Á Ísafirði brann fangshúsið, en það var óvátrygt, og er því ekkert fje til þess að reisa það aftur. Fjvn. telur betra, ef unt væri að fresta þessu um nokkra hríð, þar sem húsagerð er nú dýr, en er þó ekki öll á einu máli um það.

Næsta brtt. nefndarinnar, VI,1, fer fram á að fella niður styrk til hjúkrunarnáms erlendis. Þetta er ekki stór liður, en nefndin tók í upphafi þá stefnu að fella niður alla styrki til utanferða. Við 2. umr. hjer í deildinni var samskonar styrkur til ljósmæðra tekinn af, og telur nefndin því rjett, að þessi verði einnig feldur burt. Þess má geta, að þetta á ekki að vera nein stöðvun af hálfu nefndarinnar, heldur aðeins frestun þangað til betur árar. Þá má taka þetta upp aftur, en nefndin telur þessháttar styrki ekki svo bráðnauðsynlega, að þeir megi ekki falla niður að sinni, enda samþykti þessi hv. deild það um ljósmæðrastyrkinn og sömuleiðis þennan við 2. umr. með miklum atkvæðamun.

Þá er brtt. VI,2, að styrkurinn til Guðmundar Guðfinnssonar falli niður. Að henni stendur ekki nema meiri hl. nefndarinnar. Frá því er nefndin gekk frá þessari brtt. hafa henni borist ýmsar upplýsingar, er sumir nefndarmenn vilja taka til greina, þó að nefndin taki ekki brtt. aftur.

Brtt. VI,3 fer fram á, að styrkur til Elínar Sigurðardóttur sje feldur niður. Jeg hefi áður tekið fram, hvernig fjvn. lítur á sjúkrastyrki sem þessa. Hún vill ekki skapa fordæmi, en verður ekki sannað með læknisvottorðum, að ríkissjóði beri skylda að hlaupa undir bagga í slíkum tilfellum. En verði farið að nota ríkissjóð sem einskonar líknarstofnun, munu fleiri koma á eftir, enda hefir nefndinni borist fjöldi erinda um samskonar styrkveitingar.

Þá er VIII. brtt. á sama þskj., að fjárveitingin til flutningabrauta sje lækkuð úr 100 þús. kr. í 75 þús. kr. Þessi liður hafði verið afgreiddur þannig hjeðan úr deildinni, en hv. Ed. hækkaði hann upp í 100 þús. kr. Nefndinni hafði virst, að sú upphæð, sem ætluð var í frv. stjórnarinnar til viðhalds flutningabrauta, væri allsæmileg og þyrfti ekki við að bæta, og þar sem það ráð hefir verið tekið, að öllum framkvæmdum skuli frestað, telur nefndin ekki rjett að gera undantekningu í þessu efni. Skal jeg ekki ræða frekar um þetta að sinni, enda mun síðar verða tækifæri til þess.

Brtt. VIII,2 fer fram á að lækka styrk til bifreiðaferða úr 2000 kr. í 1000 kr. Til þessa var veittur styrkur í fyrra, en stjórnin hafði gleymt að taka hann aftur upp í frv. Nefndin tók því upp 1000 kr. styrk, eftir beiðni hennar. Virtist hv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem hjer á hlut að máli, gera sig ánægðan með þessa upphæð og flutti enga brtt. við þennan lið. Þessi styrkur var svo hækkaður í hv. Ed., en nefndin hefir leyft sjer að flytja brtt. um að færa hann aftur niður í 1000 kr. Það getur verið varasamt að hafa þennan styrk of háan. Væntanlega verður samið um ferðirnar við einn mann, en fjöldi manna keppir um þessa flutninga, og verða þeir þá vitanlega að lækka flutningsgjaldið, svo að þessi styrkur verður þeim einum til ágóða, sem stjórnin semur við. Og verði það mjög há upphæð, sem til þessa er veitt, mundi það hjálpa þeim manni svo mjög í samkepninni, að hætta væri á, að hinir fjellu úr sögunni, en að því vill nefndin ekki stuðla.

Þá leggur nefndin til í brtt. VIII,3, að launin fyrir háskólakenslu hjeraðslæknis sjeu færð niður í 1000 kr. úr 1500 kr. Jeg hafði áður við umr. hjer í hv. deild ekki minst á þennan lið sjerstaklega, og fór hann þannig í gegnum deildina. Meiri hluti nefndarinnar telur rjett að lækka þennan lið aftur í sama horf, sem hann var í áður. Þegar bæjarlæknisembættið var stofnað, var gert ráð fyrir því, að annaðhvort hann eða hjeraðslæknir tæki þessa kenslu að sjer sem kvöð á embættinu. Nú hefir það ekki verið gert, og þó að það væri samþykt, býst jeg ekki við, að eftir því yrði farið, ef samningur hefir verið gerður við hjeraðslækni, eins og sagt hefir verið, enda hefi jeg heyrt, að hann kenni alt að því eins mikið og prófessorarnir. Þetta er ástæðan til þess, að nefndin vill veita nokkra upphæð í þessu skyni.

Næsta brtt., um lagalæknisfræði, er tekin aftur.

Þá er X. brtt., um námsstyrk stúdenta erlendis. Hv. Ed. hefir hækkað hann um 3000 kr., en nefndin hefir fært hann í sama horf og áður. Jeg hefi áður gert grein fyrir skoðun nefndarinnar í þessu efni, og skal jeg ekki endurtaka það. Það vakti sjerstaklega fyrir henni, að óhugsandi væri að halda áfram að veita jafnháan styrk til náms við erlenda háskóla sem hingað til. Við því er búist, að um 40 stúdentar útskrifist á næsta ári og að margir þeirra eigi sömu kröfu til námsstyrks við háskóla erlendis sem þeir, er áður eru þangað komnir. Nefndin telur óumflýjanlegt að stöðva á þessari braut, en það verður ekki gert, nema það komi hart niður á einhverjum. Telur hún rjett, að það komi harðast niður á þeim, sem hafa verið einn vetur utan, en miðar við það, að þeir stúdentar sjeu um 10, sem hafa stundað nám 2–3 ár, og eigi þeir að sitja fyrir. En ríkissjóði er ofvaxið að taka alla á arma sína. — Það má einnig taka fram, að nú virðist ekki sjerstök vöntun á embættismönnum í þeim greinum, sem ekki er unt að nema hjer á landi. Það vill líka fara svo oft og einatt, að þegar þessir menn hafa lokið fullnaðarprófi, verða þeir embættismenn ytra eða koma hingað heim og fá enga atvinnu. Og hvorugt virðist nefndinni þannig vaxið, að rjett sje, að ríkissjóður styrki það.

Þá er jeg kominn að XIII. brtt., við 14. gr. B. III. b. 4, sem er um tímakenslu við mentaskólann. í hv. Ed. hefir hjer verið settur inn einn kennari, sem hæstv. forsrh. hefir ráðið í haust eð var til næsta vetrar. Þótt nefndin játi, að þörf hafi kunnað að vera á að taka þennan kennara, sjerstaklega fyrir vissa sjerfræðilega þekkingu hans, þá hefir hún samt litið svo á, að um leið og þessi kennari er festur, þá sje hægt að draga úr tímakenslunni við skólann. Því fyrv. forsætisráðherra segist engan hlut hafa átt í því að festa þennan kennara til frambúðar, og hefir hans þá naumast verið brýn þörf. Nefndin hefir því komið með þessa till. um að lækka þetta tillag um 2000 kr., og vill hún með því brýna fyrir hæstv. stjórn, að ekki sje þarna fremur en annarsstaðar um skör fram eytt fje ríkissjóðs í óþarfa kenslukrafta. Að öðru leyti vill nefndin ekki hagga hjer neitt við gerðum hv. Ed.

Næst er hjer útgáfa veraldarsögu. Hefir sá liður verið settur inn í hv. Ed, Nefndin hefir það sama að segja um þetta og aðra bókaútgáfu, að rjettara sje að fresta henni enn um skeið, ef úr rættist fjárhaginum og ódýrara yrði síðar. Enda sýnist mega komast af eins og verið hefir.

Næst er styrkur til Ingibjargar Guðbrandsdóttur, og leggur nefndin til, að sá liður falli niður. Hlutaðeigandi hefir haft styrk til að kenna utanbæjarstúlkum leikfimi nú undanfarið, en bæði er, að nefndinni finst ekki svo ýkjamikil nauðsyn á þessu, og auk þess þykir henni einkennilegt, að þingið veitir ár eftir ár styrk til slíkra hluta án þess nokkurn tíma að fá að sjá skýrslur um það, hvað gert hefir verið með fjeð. Það liggur ekki nein slík skýrsla fyrir nú, og er nefndin meðal annars af þeirri ástæðu eindregið á móti því að veita þetta fje.

Þá kemur næst XV. brtt., við 15. gr. 15 a og 15 b, sem er fjárveitingar til Jóhannesar Lynge og Þórbergs Þórðarsonar. Nefndin þótti nokkuð harðleikin seinast, er hún rjeðist á fjárveitinguna til þessara manna. Hefir hún því nú viljað fara hóflegar í sakirnar og hefir fært tillagið til Jóhannesar Lynge niður um 1000 kr. frá því, sem háttv. Ed. hefir ákveðið það, og Þórberg Þórðarson niður í 1000 kr.

Sömuleiðis hefir nefndin farið milliveginn að því er snertir tillagið til Helga Pjeturss. Eru till. hennar í þessu efni hinar sömu og fjvn. hv. Ed.

Þá er næst XXI. brtt., fjárveitingin til Heimilisiðnaðarfjelagsins. í hv. Ed. var þar gerð sú breyting, að Halldóra Bjarnadóttir var sett undir nýjan lið og styrkurinn til hennar lækkaður um 800 kr. Nú vill nefndin minka styrkinn til fjelagsins um 800 kr. og færa það til Halldóru Bjarnadóttur. Nefndin lítur nefnilega svo á, að þessi kona hafi langmest aðgert í þessum efnum, og vill því ekki færa niður tillagið til hennar. Að öðru leyti get jeg látið mjer nægja að vísa til orða minna við 2. umr.

Næst kemur XXIII, Bandalag kvenna. Það er brtt. um, að sá liður verði niður feldur. Þá tillögu tekur nefndin aftur af þeim sökum, að hún hefir nýlega fengið ýmsar upplýsingar um þennan fjelagsskap, sem hún hafði ekki áður fengið, er hún kom fram með till.

Næst er liðurinn um skipulag kauptúna. Leggur nefndin til, að hann falli niður. Jeg býst að vísu við, að þetta muni sæta andmælum, en nefndin lítur svo á, að þótt hjer sje um allnauðsynlegt verk að ræða, þá megi samt auðveldlega fresta því. Það hafa nú þegar verið gerðar allar mælingar í kauptúnunum, og virðist vera hægt að vinna úr þeim án sjerstaks framlags úr ríkissjóði, þar sem vegamálastjóri hefir tiltölulega lítið fyrir stafni. Nefndinni hefir nú verið sýndur framtíðaruppdráttur af einu kauptúni landsins. Það er teikning af Bolungarvík, eins og hún á að verða í framtíðinni. Það má segja, að þar sje aðeins sjeð fyrir framtíðinni. Ekki einu sinni brimbrjótinn, þennan sögulega múrvegg, þarf að nota lengur. Þeir hafa rekið sig á tjarnarpoll neðan til í kauptúninu og hann er gerður að miðpunkti allrar framtíðarfegurðar. Hann á að verða mótorbátahöfn með öllum nýtísku byggingum og þægindum, og út frá þessu liggja svo bústaðir kaupstaðarbúa í kílómetralöngum sambyggingum.

Verkfræðingurinn, sem sýndi nefndinni þetta, taldi ekki vafa á því, að það myndi greiðlega verða grafið í gegnum malarkambinn til þess að hleypa sjó inn í tjarnarholuna. Og þó að það kynni að koma fyrir, að sjórinn í bræði sinni lokaði þarna aftur, þá væri hægur vandi að fara aftur að brúka brimbrjótinn! Svona á að koma því haganlega fyrir! Nú virðist ekki alveg sama, — það er að segja þeim, sem eru ólærðir, — hvort gengið er út frá með framtíðarbyggingar því, sem er ómögulegt, eða því, sem er mögulegt. En ef þeim, sem fyrir þessu standa, þykir þetta engu skifta, þá held jeg, að það væri rjett, að þeir hættu starfinu. Þó hefir nefndin ekki lagt annað til en að fella þetta að sinni, en alls ekki til frambúðar, ef fje á annað borð þarf til þess að lúka verkinu. En hjer myndu geta unnið að ýmsir starfsmenn ríkisins, sem ekki hafa ofboðsleg störf. Nefndin væntir því fastlega, að till. hennar verði samþykt.

Næst eru hjónin í Hítardal. Hefir nefndin lagt til, að sá liður falli niður. Þetta má að vísu virðast harðbrjósta af nefndinni, enda hefir henni þótt það sjálfri; en hún hefir hinsvegar ekki álitið tiltækilegt að fara inn á þessa leið, af ótta við, að heill hópur kæmi á eftir með samskonar beiðni. Er og þegar komin fram tillaga frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um samskonar styrk handa öðrum hjónum, á þskj. 467, og er þó ekki langt um liðið. Nefndinni myndi að vísu hafa þótt mjög ánægjulegt, ef hægt væri að gera þetta, en henni þykir það með öllu ógerlegt sökum fordæmisins, því um alt landið mun vera fólk, sem á svipaða sögu að segja. Er því nauðugur einn kostur að neita öllum slíkum beiðnum, svo framarlega sem ekki á að fara að skoða ríkissjóðinn eins og nokkurskonar sveitar- eða líknarsjóð.

Þá er hjer næst Bjarni Magnússon, sem hv. Ed. hefir veitt 800 kr. Nefndin leggur til, að sá liður falli niður. Þessi maður hefir verið fangavörður í Stykkishólmi og hefir þar fría íbúð í fangahúsinu. Er hann og ekki mikið tekinn frá öðrum störfum með þessu, og lítur nefndin því ekki á þetta sem verulegt sanngirnismál.

Þá er næst XXVI. brtt., við 19. gr., um dýrtíðaruppbót. Nefndin telur óhjákvæmilegt að hækka þann lið aftur um 68000 kr., þar sem auðsætt er, að ekki verður komist hjá að greiða þetta að minsta kosti. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir annars gert ítarlega grein fyrir þessu, og þarf jeg því ekki að fara fleiri orðum um það. Aðeins vil jeg taka það fram, að það er ekki sú allra minsta ástæða til að vera að hafa þessa áætlunarliði lægri en nokkurn veginn er fyrirsjáanlegt, að þeir muni verða; að gera það er einungis að blekkja sjálfan sig, því ekki getur hvort eð er neitt sparast við það.

Þá er næst XXVIII. Er þar fyrst till. um að fella niður greiðslufrest á afborgun og vöxtum af viðlagasjóðsláni Ólafs Hvanndals. Þykir nefndinni ekki nein nauðsyn til þess bera að veita þennan greiðslufrest.

Þá er hjer næst breyting á aths. viðvíkjandi Álafossi. Eins og menn vita, varð eigandinn gjaldþrota, og hefir ríkissjóður eignina að veði. Hafa nú komist á samningar með svofeldu móti, að eignin skuli afhent konu Sigurjóns Pjeturssonar gegn ákveðnum skuldbindingum. Hefir verið farið fram á, að gefinn væri þriggja ára frestur á afborgunum, og lítur nefndin svo á, að þetta muni vera tiltækilegt, en hefir þó breytt aths. svo, að hjer sje um heimild að ræða fyrir ríkisstjórnina, en ekki beina skyldu. Er stjórninni með öðrum orðum falið að gera það, sem henni þykir rjettast í þessu, að rannsökuðu máli.

Þá er eftir aðeins ein brtt. Hún er viðvíkjandi Guðmundi Björnssyni sýslumanni í Borgarnesi, að liðurinn falli niður. Svo stendur á, að í brjefi, dags. 4. mars 1924, hefir sýslumaðurinn farið þess á leit, að ekki verði krafist, að hann borgi 1200 kr. sem vexti af viðlagasjóðsláni, sem hann kveður sjer í rauninni ekki skylt að borga. Svo stendur þar á, að þegar hann fjekk þetta lán, þá voru vextir af bankalánum 8%, og fjekk hann lánið gegn 6% vaxtagreiðslu. Nú hafa vextir síðan lækkað niður í 7%, og með því að sýslumaðurinn lítur svo á, að tilætlunin hafi verið sú, að hann nyti þarna 2% lægri vaxtakjara en bankarnir veita, þá telur hann sjer ekki skylt að borga nema 5% af láninu. Nefndinni kemur þetta að vísu ekki neitt á óvart, því henni er kunnugt um, að þessi maður byggir á ummælum tveggja fjárveitinganefndarmanna, eins úr hvorri deild, þeirra þm. Dala. (BJ) og þm. Seyðf. (JóhJóh), og liggja hjer fyrir skriflegar yfirlýsingar þessara manna um, að þetta hafi verið tilætlunin. En aftur hafa aðrir fjárveitinganefndarmenn frá þeim tíma ekki viljað kannast við, að neitt hafi komið til tals með þetta og neita því gersamlega, að sú hafi verið meiningin. Og þótt svo hefði nú verið, þá lítur nefndin svo á, að fjvn. geti ekki skuldbundið þingið á þann hátt eða gert út um slík mál upp á eigin spýtur — hvað þá einn eða tveir menn úr nefndinni. Leggur nefndin því til, að ekki sje tekið neitt tillit til þessa, en vextirnir ákveðnir áfram 6% og innheimtir samkvæmt því.

Það eru svo ekki fleiri till., sem nefndin hefir komið fram með. Býst jeg við, að þær kunni ef til vill að þykja nokkuð einhliða og að nefndin hljóti ný ámæli fyrir hina ríku sparnaðarstefnu sína, en við það verður að sitja.

Jeg ætla ekki að fara neitt að sinni út í brtt. hv. þm., en mun bíða þangað til flm. þeirra hafa talað um þær.