22.02.1924
Efri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í C-deild Alþingistíðinda. (2711)

22. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. og frv. hv. 4. landsk. (JM) komu svo að segja jafnsnemma fram og var útbýtt samtímis. Mætti því segja, að hjer væri verið að bera í bakkafullan lækinn, og það því fremur, að telja má víst, að þau gangi bæði til sömu nefndar, fari bæði í sömu bræðsluna.

Jeg mun ei þurfa að gera ítarlega grein fyrir frv. þessu nú. Aðalatriði þess er hið sama og frv. hv. 4. landsk. (JM), það, að þingum verði fækkað. Á það leggjum við flm. aðaláhersluna. Hitt eru mest orðabreytingar, sem leiðir af þessari aðalbreytingu. Þó felst í frv. ein efnisbreyting önnur, sem jeg vík að síðar. En þess get jeg strax getið, og henni mun ekki haldið til streitu, ef sýnt verður, að það spilli framgangi málsins.

Þegar um er að ræða stjórnarskrárbreytingu, þá eru tvær leiðir til. Önnur er sú, að breyta litlu, hin að gera gagngerðar breytingar.

Sumir merkir stjórnmálamenn þessa lands, t. d. landlæknir Guðm. Björnson, vilja, að skipuð verði nefnd, sem taki stjórnarskrána til rækilegrar athugunar. Má telja víst, að það leiddi til gagngerðra breytinga. En við vitum, hversu erfitt mun að fá samþykki þjóðarinnar til slíks, jafnvel um breytingar, sem efalaust væru til bóta, t. d. að fækka þingmönnum um helming eða svo. Við það myndi allur kostnaður við þinghald minka að stórum mun, og mjög ólíklegt, að störf þingsins yrðu að nokkru ver af hendi leyst. En þessi breyting rekur sig á metnað kjördæmanna, sem um langan aldur hafa átt fulltrúa í þinginu og vilja ekki missa þá. Jeg nefni þetta sem dæmi þess, að erfitt mun að koma í gegn breytingum á stjórnarskránni, sem að raska mjög þeim formum, er hingað til hafa staðið.

Þessvegna höfum við flm. þessa frv., einskorðað okkur að mestu við þá breytingu, sem vitanlegt er, að mikill meirihluti þjóðarinnar vill, sem sje, að reynt verði að komast hjá þinghaldi annaðhvert ár.

Menn segja nú, að enda þótt ákveðið sje, að þing skuli aðeins heyja annaðhvert ár, þá verði ekki komist hjá aukaþingi hitt árið. En jeg er alveg sammála hv. 4. landsk. (JM) um það, að þó að slík aukaþing þurfi að halda við og við, þá verði kostnaður við þau miklu minni en við regluleg fjárlagaþing, og er jeg þó ekki eins bjartsýnn og hann á, að aukaþing muni alveg sparast, einkum þegar jeg lit á reynsluna eftir 1910. En hugsun okkar flm. frv. er sú, að ástæða sje til að fella niður þing anaðhvert ár, þegar mögulegt er. þessa breytingu höfum við á oddinum og munum fúsir á að teygja okkur langt til samkomulags um aðrar breytingar, til þess að koma henni fram.

Eina efnisbreyting frv. okkar, önnur en fækkun þinga, er sú, að ráðherrar sjeu tveir, en ekki þrír. Þessi breyting er bygð á því, að vel er hugsanlegt að komast af með þessa tölu. Síðasta ár verður ekki betur sjeð en að þetta fyrirkomulag hafi gefist heldur vel. Ráðherrarnir hafa aldrei verið báðir fjarverandi í einu; og enginn árekstur orðið, svo menn viti.

Sparnaður verður aldrei mikill við þessa ráðstöfun, en þó laun eins ráðherra, og er það meira en nú er, því núv. atvrh. mun fá einhverja aukaþóknun fyrir að fara með fjármálin líka.

Jeg skal ekki fara nú út í samanburð á því, að hala tvo ráðherra, og svo hinu, að einungis verði einn ráðherra og með honum landritari. En því vil jeg sjerstaklega skjóta til hv. 4. landsk. (JM), að jeg hygg, að við flm. frv. verðum tilleiðanlegir að falla frá þessari breytingu — og láta ákvæðið um þrjá ráðherra standa, ef það mætti gefa aðalbreytingu okkar betri byr í seglin. Það er ekki að öllu leyti auðvelt að vera í senn með því að fækka þingum — og veikja stjórnina að mun milli þinga. Að svo mæltu leyfi jeg mjer að óska þess, að frv. verði vísað til allshn., að lokinni umr.