08.03.1924
Neðri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í C-deild Alþingistíðinda. (2717)

66. mál, byggðarleyfi

Hákon Kristófersson:

Jeg verð að segja, að jeg get ekki tekið undir með hv. þm. Ak. (BL) í þessu máli. Þegar lögin um stytting sveitfestitímans voru samþykt, þá bjóst jeg við, að ekki mundi langt að bíða eftir frv. sem þessu. Mjer þykir leiðinlegt, að hv. þm. Ak. (BL) skuli hala þá ótrú á hlutaðeigandi stjórnarvöldum, að þau muni beita valdi sínu ómannúðlega. Hvað það snertir, að það sje hart fyrir einn bónda að fá ekki að ráða til sín vinnumann eftir sinni vild, þá kemur það vitanlega ekki fyrir, að það sje bannað, nema ef viðkomandi bóndi vildi taka inn í hreppinn mann, sem líklegt væri að yrði hreppsfjelaginu til þyngsla. Eftir því sem jeg hefi best vit á, eftir að hafa lesið frv., þá sje jeg ekki, að það feli í sjer nein ákvæði, sem ástæða sje til að vera hræddur við. Svo góða tiltrú hefi jeg til sveitarstjórnanna, sem með lögin fara. En hitt er víst, að það horfir til vandræða fyrir ýms bygðarlög, ef fólk heldur áfram að streyma þangað takmarkalaust.

Jeg hefi svo engu við þetta að bæta. Tel það aðeins illa farið, ef þetta frv. gengur ekki fram í einhverri þeirri mynd, sem takmarki innflutning fólks til ýmsra bygðarlaga. Jeg býst við, að málinu verði vísað til nefndar. Það verður þá hlutverk nefndarinnar að breyta frv. svo sem ástæða þykir til. En hitt tel jeg illa við eiga, ef það kæmi svo ekki frá henni aftur, eins og komið hefir fram hjá einum hv. þm., að heppilegt væri.