28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

83. mál, fátækralög

Frsm. minnihl. (Jón Baldvinsson):

Mjer þótti hæstv. atvrh, (MG) miklu betri í seinni ræðu sinni. Skildist mjer nú sem honum þætti jeg ekki ganga nógu langt með frv. þar sem maður, sem ætti 3 börn heima en 1 annarsstaðar, nyti ekki þessara ákvæða.

Um það, að vísa mönnum á atvinnu, hjelt jeg því einu fram, að ekki nægði að gera það alment, heldur, að það þyrfti að benda mönnum á ákveðna atvinnu, sem þeir gætu fengið, hvort sem hún væri í hreppnum eða ekki.

Eftir þeirri yfirlýsingu, sem hann gaf síðast, virðast mjer góðar vonir um að koma málinu sæmilega fram, því hæstv. atvrh. (MG) bauðst til að vinna með mjer að heppilegum orðabreytingum. Vil jeg nú á móti sýna honum vináttu og spyrja hann, hvort málið eigi þá að fara til 3. umr. nú breytingalaust, eða hvort ekki sje rjettara að taka það út af dagskrá nú þegar, svo við getum unnið að breytingunum áður en til atkvgr. kemur. Teldi jeg það heppilegra, því jeg þykist fullvís um, að frv. nái fram að ganga, ef við getum orðið sammála um breytingarnar.