28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í C-deild Alþingistíðinda. (2736)

83. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg segi það sama og hv. frsm. minnihl. (JBald), að mjer fanst mikill munur á seinustu ræðu hans og þeim fyrri. Nú kyssir hann mig og kjassar, en áður var að heyra sem jeg væri versti fjandi frv.

Nú finst honum, að jeg muni vera á móti frv., af því það færi ekki nógu langt. Það sagði jeg ekki. Jeg bað hv. frsm. (JBald) aðeins að sýna fram á sanngirnina í einu ákvæðinu. Hann reyndi ekki að gera það. Hvað snertir annan lið, sem jeg spurði um, svaraði hann engu. Treysti sjer víst ekki að bera í bætifláka fyrir hann.

En þó að jeg sjái, að endurbæta þarf frv., má hv. þm. ekki halda, að jeg ætli að taka að mjer þennan krakka hans. Jeg skal segja honum, hverju jeg tel að þurfi að breyta, en hann verður sannarlega úr því að sjá fyrir króganum sínum sjálfur. Jeg þykist vita, að frv. sje dauðadæmt, en jeg hefi sagt það sem jeg sagði, til þess að benda á, að hv. þm. (JBald) hefir hjer borið fram alveg vanhugsað og mjög ógreinilega orðað frv., sjálfsagt í því trausti, að það yrði felt. Þessari aðferð vildi jeg venja þingmanninn af.