29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

1. mál, fjárlög 1925

Bjarni Jónsson:

Þar eð mjer hefir nú ekki gefist kostur á að taka þátt í umræðum um það frv. til fjárlaga, er hjer liggur fyrir, neyðist jeg til að kveðja mjer hljóðs. Þetta er ein umræða, svo að jeg hygg, að mjer muni leyfast að tala nokkuð alment um málið og minnast nokkrum orðum á stefnu þessa þings í fjármálum, áður en jeg tek að mæla fyrir þeim fáu brtt., sem jeg hefi flutt. Bið jeg menn að afsaka það, að jeg mun ekki verða hvassyrtur, því að mjög er jeg orðinn spaklátur og geðbetri en áður.

„Parturiunt montes et nascitur ridiculus mus“. Svo hljóðar latneskur málsháttur, er mjer þykir vel við eiga að taka mjer nú í munn. Menn þeir, sem hjer eru samankomnir, hafa allir komið hingað með hinn besta og einlægasta vilja til að bæta hag landsmanna og einkum landssjóðs. En þegar litið er yfir árangurinn af þeirra stritmikla starfi, þá getur þar eigi að líta annað en mýslu litla og vesaldarlega. Hefir hæstv. þingi eigi hugkvæmst til bjargar annað ráð en það, sem svo snýst í hendi þess, að bœði er það til óheilla landi og þjóð.

Jeg hygg, að þeim ríkissjóði muni altaf óhætt, sem á á bak við sig efnaða og vel stæða þjóð. Aftur á móti lít jeg svo á, sem því ríki sje illa farið, sem raunar á fje í ríkissjóðnum, en þjóðin er á nástrái. Mundi velgengni þess skammgóð og eigi gott um úrræði þá er fram í sækti. Hæstv. þing hefir valið hina öfugu leið, reynt að spilla hag þjóðarinnar, í stað þess að bæta hann. Hefir nurl þingsins gengið svo langt, að eigi hefir verið first að ganga á gerða samninga og virða þá að vettugi. Eru það eigi færri en sex samningar, sem þing þetta hefir rofið eða gert tilraun til að rifta, og veit jeg þó eigi, nema mjer muni hafa sjest yfir einhverja tilraun þingsins til samningsrofa.

Má þar fyrst nefna samningsrofin við dr. Alexander Jóhannesson. Við hann hafði þingið beinlínis gert samning um, að hann kendi norræn fræði við háskólann. Voru honum ákveðin dósentslaun, er hækka skyldu eftir sömu reglum og laun fastra dósenta. Einnig skyldi hann fá dýrtíðaruppbót eftir sömu reglum og aðrir embættismenn þessa ríkis.

Til þess að þessir samningar gætu tekist, varð hann að afsala sjer því starfi, er hann hafði á hendi. Hann var hjer starfsmaður annarar þjóðar, er greiddi honum góða borgun fyrir vinnu sína. Kaus hann heldur að vinna sinni þjóð, einkum þar eð honum gafst kostur á að stunda þau fræði, er hann hafði lært og lagt við hina mestu alúð. Hefir hann í starfi sínu sýnt framúrskarandi dugnað og áhuga, enda mun það sannast mála, að eigi munum vjer átt hafa nú um skeið honum jafnlærðan málfræðing. Veit jeg, að margir þeirra fræðimanna, er við erlenda háskóla hafa starfað árum saman, eru honum síst lærðari, og nægir að benda á það, sem þeir erlendir menn, er best hafa vit á, segja um bækur þær, er hann hefir samið um málfræðileg efni.

Þá er tilraunin til að lækka laun hjeraðslæknisins í Reykjavík fyrir kenslu við háskólann bein rof á samningi. Eins og allir hljóta að sjá, ber honum engin lagaskylda til að gegna þessu starfi, svo að augljóst er, að hjer er um samning að ræða. Virðist lítið samræmi í því að lækka við þennan mann, þá er nýlega hafa verið rýrðar tekjur hans með stofnun bæjarlæknisembættisins.

Næst kem jeg þá að styrknum til íslenskra stúdenta, er stunda nám við erlenda háskóla. Er þar greinilega rofinn samningur, er þing og stjórn gerði, þá er vjer gerðum samninginn við Dani 1918. Þá fjell niður Garðstyrkurinn, sem íslenskir stúdentar höfðu notið, og tók landið að sjer að sjá sjálft um sína stúdenta. Þetta eru því hrein og bein svik. Svo lítur það út, þegar það er flett sparnaðarflíkunum, svo er það og eigi fallegra þegar því er svift undan svartvængjum þinglómsins, er vofir hjer yfir mönnum og málefnum. Má það heita í meira lagi furðulegt, ef ætlast er til, að stúdentar einir greiði það gjald, er koma varð fyrir sjálfstœði vort, og hart er það, að þjóðin íslenska reynist ver sínum eigin börnum en erlend þjóð, alls óskyld, reyndist þeim.

Þá er tilraunin til að setja kaup Jóhannesar Lárusar Lynge Jóhannssonar niður úr því, sem það á að vera. Hann er beinlínis ráðinn fyrir 4000 kr. á ári, og hefir síðan á hverju þingi verið reiknuð út dýrtíðaruppbót af þeirri upphæð, og fjárveitingin síðan orðið það fram yfir 4000 kr., sem dýrtíðaruppbótinni hefir numið. Þessi maður er því ráðinn fastur starfsmaður ríkisins, og þess vegna um bein samningsrof að ræða.

Þá vil jeg minnast á ungan efnismann, sem þingið hefir reynt að svíkja við gefin loforð stjórnarinnar. Á jeg þar við Kristin Ármannsson. Hafði hann tekið próf í klassiskum fræðum og átti kost á kennaraembætti í Rípum í Danmörku. Eru þar auðvitað borguð betri laun en hjer. En þar eð þörf þótti vera starfskrafta hans hjer heima og maðurinn þykir með afbrigðum efnilegur, rjeð stjórnin af að ráða hann kennara við mentaskólann hjer. Má nú nærri geta, hvort þessi maður hefði slept embætti því, er hann átti kost á að fá í Rípum, ef hann hefði haldið, að hjer væri aðeins verið að tjalda til einnar nætur. Er hjer greinilega um að ræða svik, ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis. (Frsm. ÞórJ: Það hefir alls ekki verið hreyft við þessu embætti). Jú, jeg hefi skilið það svo, sem lækkun fjár til skólans væri gerð með það fyrir augum, að þetta embætti fjelli niður. (TrÞ: Þetta er alls ekki rjett). Nú, jæja, þá bið jeg að afsaka. Jeg hjelt, að þessu væri svona varið, fanst það líklegt, þar sem jeg bjóst ekki við, að þingið vildi lækka fjárveitingu til skólans án þess að honum væri ætlað að draga saman seglin.

Næst er þá tilraunin til að brigða loforð við Guðmund Finnbogason háskólakennara. Sú tilraun er ekki ný. Hún hefir þing eftir þing gengið eins og grár köttur með þingbekkjum. Er þó embætti þetta stofnað með lögum, beinlínis handa honum, og lögin undirskrifuð af konungi þessa ríkis. Er þá langt gengið í nurlinu, er þingið leyfir sjer annað eins og þetta. Mun þá erfitt að vita, hverju trúa skal, ef eigi má festa trú á loforð þingsins, staðfest af konungi. Mundi það eigi verða til þess að auka orðheldni í landi hjer, að þingið hjeldi áfram á þessari braut, því „hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sjer leyfist það.“ En orðheldni hefir ávalt þótt góð dygð með Íslendingum.

Þá hafa hjer fram komið till. til sparnaðar, sem í sjer fela hina mestu vanvirðu fyrir þetta land og þessa þjóð. Hygg jeg, að sá Íslendingur hefði stokkið upp á nef sjer, sem útlendingur hefði leyft sjer að hafa þau orð við, að þá er vjer hefðum eftir 70 ára baráttu náð í vorar hendur æðsta dómsvaldi í vorum eigin málum, mundum vjer þegar taka að rýra þá stofnun, er þetta vald hefði. Og hvað sparast við þetta? Fáein þúsund. Og fyrir það vilja hv. þm. brennimerkja þjóðina og rýra rjettaröryggið í landinu.

Eins er tilraunin til að limlesta og halaklippa háskólann, þessa stofnun, sem svo mjög var af vanefnum ger, en ræst hefir úr mun betur en ætla hefði mátt. En þessi stofnun ætti í raun og veru að vera svo elskuð og virt af öllum landsmönnum, að enginn vildi af því vita, að hún yrði að nokkru skert eða nokkuð það gert, sem til þess gæti orðið að hefta starfsemi hennar eða rýra heiður hennar.

En eltingaleikur sá, sem hafinn er af þinginu gegn öllum þeim, er einhver göfug fræði stunda, bendir fyllilega á það, að mjög sje nú dreginn mergur úr beinum alþjóð íslenskri — enda verður því harðari eltingarleikurinn, sem menn eru meiri vísindamenn. En allir þeir skólar, er fleyta mönnum á hundavaði handahófsins í bóklegum fræðum, eru svo friðhelgir, að eigi má drepa við þeim fingri. Hinum skal gert þröngt fyrir dyrum, þá skal halaklippa og helst drepa, hvað sem öllum menningargildum og mentum líður í landi hjer.

Einn af þeim vísindamönnum, sem notið hafa styrks til vísindaiðkana, er mjer mjög nákominn. Á jeg þar við bróður minn, dr. Helga Jónsson. Sje jeg, að þessi styrkur hefir verið feldur niður. Þykir mjer vænt um það, því að jeg vildi helst, að hann hefði aldrei fengið eyri frá ríkinu, svo að það sæist sem allra best, hve erlend þjóð hugsar meira um rannsókn landsins en vjer sjálfir. Þessi vísindamaður hefir frá annari þjóð fengið margfalt ríflegri styrki til þess að rannsaka gróður þessa lands, því til hagsbóta og velferðarauka. Er þetta ágætt dæmi þess, hvað hið íslenska Alþingi hefir glöggan skilning á gildi vísindalegra rannsókna. Þessi maður er nú orðinn 57 ára að aldri. Árum saman hefir hann ferðast um landið og rannsakað gróður þess. Á hann nú ekki eftir nema lítinn blett órannsakaðan, og í dagbókum sínum á hann margvíslegar vísindalegar athuganir, sem hann hefir gert á ferðum sínum, en ekki getað unnið úr, þar sem hann hefir orðið að vinna fyrir sjer með kenslu við skóla. Sýnir það glögglega hagsýni þingsins, að það gefur honum eigi kost þess að vinna úr safni sínu, og mun þess vegna nauður reka til að styrkja ungan mann til þessa starfs, þar sem eigi geta aðrir unnið úr lauslegum dagbókarathugunum, þó að sá, er ritað hefir, geti haft þeirra full not. Mundu nú skynbærir menn segja, að væri þing þetta hagsýnt, gerði það eigi annað þar, er betur borgaði sig, en segja við þennan mann: Hjerna eru peningar handa þjer, svo að þú getir hœtt kenslustörfum og lokið við hinar vísindalegu athuganir þínar á gróðri landsins, og ekki þurfi síðar að kosta menn til þess að vinna sama verkið.

Þetta er aðeins eitt dœmi um hina hagfeldu fjármálastefnu hæstv. þings, svo að jeg minnist nú ekki á, hve frábært það er að lækka svo styrk til veðurathugana, að ekki geti þær orðið af neinu viti. Hjer hefir vantað í veiðistöðvum landsins, að dregin væru upp merki til viðvörunar sjómönnum, þegar hætta er á ferðum. Er venjan sú í því efni að draga upp kúlu á stöng, er sjest geti úr allri veiðistöðinni. Sje óveður í nánd, er kúlan dregin niður, og að nóttunni logar ljós í henni. Veit jeg t. d., að Englendingar settu upp slíkar merkjastengur í veiðistöðvum víðsvegar um landið, eftir að slys hafði orðið á vissum stað, margir menn druknað. Hefir síðan mjög dregið úr druknunum, og er sagt, að Bretum þyki borga sig að verja nokkru fje til varnar mannslífum. Er það og ærið hart, að þing sjái eftir fáum krónum til varnar því, að hraustir synir þjóðarinnar sigli út í opinn dauðann. Og slíkt er stærri vanvirða en svo, að bætt verði fyrir það með fárra króna sparnaði.

En svo þegar allur sparnaðurinn er lagður saman, verður það eins og krœkiber í ámu, sem sparast hefir. Hagur landsins stendur á engan hátt betur en áður. Hann er jafnt í lausu lofti og fyr, enda ekkert verið gert til að festa tekjurnar, sem er það eina, sem að haldi má koma. Benti jeg þó á ráð til þess, þar sem jeg lagði til, að gildi peninga væri miðað við álnir, á gamla íslenska vísu. Nefndi jeg, eftir lauslegum útreikningi, að margfalda skyldi tekjurnar með hlutfalli milli álnar líðandi árs og verðgildi álnarinnar síðustu 30 árin, sem verður hjer um bil Þetta hækkar tekjurnar mun minna en ef miðað er við gullkrónu, sem jeg hygg að fullfrekt sje að gera. Þetta kemur rjettlátlega niður á öllum framleiðendum, þar sem þeir gjalda hærri skatta að krónutali, þegar þeir fá háa krónutölu fyrir afurðir sínar. Ranglátlega kemur þá þetta ekki niður á öðrum en verkamönnum og ríkisþrælunum, sem eru verst farnir að því, að þeim hefir með lögum verið bannað að gera verkfall.

Þá hefi jeg lokið hinum almennu athugasemdum mínum um fjármál landsins og stefnu þingsins í þeim málum. Þrátt fyrir alt nurlið hefir ekkert sparast, sem teljandi sje. Þó að það sje alt lagt saman, er upphæðin ekki nefnandi. Og ekkert hefir verið gert til að festa verðgildi tekna ríkisins eða bæta gengi krónunnar, svo að í raun og veru eru vandamálin jafnóleyst og þá er þetta þing kom saman. Hagur ríkissjóðs hefir því ekki verið bættur, en mikið reynt til að gera hag almennings erfiðari en hann er nú.

Þá vil jeg minnast á brtt. þær, sem jeg hefi gert. Hefi jeg eigi getað komið fram með þær fyr, þar sem jeg hefi verið vant við látinn. Mun jeg tala um þær á þeirri röð, sem þær eru í á þskj. 460.

Er þá fyrst að nefna styrk til byggingar sjúkraskýlis og læknisbústaðar í Flatey. Jeg sje, að veita á styrk til hins sama í Borgarfjarðarlæknishjeraði, og mun sú ástæða færð fyrir þeirri veitingu, að ella muni læknirinn fara þaðan. En jeg get fullvissað háttv. þm. um það, að Borgarfjarðarhjerað mun aldrei verða læknislaust. Vel má vera, að þessi læknir fari þaðan, en þá kemur annar í staðinn.

Öðru máli er að gegna um Flateyjarhjerað, sem er fáment og eitthvert hið erfiðasta á landi hjer. Er þaðan leiðin þangað sem sjúkrahús er yfir erfiðan sjó og skerjóttan, og á vetrum eru oft ísalög, er hefta alt samband við land mánuðum saman. Stormar og illviðri hefta þar og tíðum allar samgöngur, enda flóinn breiður og stórir sjóar sem á hafi úti. Er til næsta sjúkrahúss, sem er í Stykkishólmi, 7 vikna sjór og leiðin skerjótt og rismiklir sjóar. En það er ekki einungis Barðastrandarsýsla, sem hefir not af sjúkrahúsi í Flatey. Kjósendur mínir hafa beðið mig að gangast fyrir þessu máli hjer á Alþingi og leita um það samvinnu við háttv. þm. Barð. (HK). Býst jeg við, að það mál verði við hann auðsótt, þar sem hann mun hafa reynt að koma þessu fram hjer á þingi, enda oftar en einu sinni. En þess vegna vilja Dalamenn, að jeg vinni að þessari styrkveitingu, að af Skarðsströnd utanverðri og úr Rauðs- og Rúgeyjum er styst að leita læknis til Flateyjar. Á sumrum hefst og fólk við í Ólafseyjum og fleiri úteyjum, sem ekki eru bygðar, og er þaðan eigi ýkjalangur sjór til Flateyjar og styttra þangað að leita en til læknisins í Dalasýslu. Er þetta því áhugamál tveggja kjördæma. Lít jeg svo á, að ríkissjóður sje eign kjósenda landsins, og þá er mikill hluti þeirra æskir fjár til þess, sem nauður rekur til að fram gangi, finst mjer rjett, að orðið sje við óskum þeirra. Hirði jeg eigi um að fjölyrða meira um þessa till., þar eð jeg veit, að háttv. þm. muni veita henni fylgi sitt.

Þá er till. mín um hækkun á námsstyrk stúdenta. Hefir sá styrkur verið nauðalítill, og þá er nú á að helminga hann, sje jeg eigi annað en hv. þm. sjeu að gera gys að piltunum og foreldrum þeirra. En hv. þm. mega vara sig á slíku, því að hvorttveggja mun jafnsatt, að hv. kjósendur munu eigi hirða um, að þingið spotti þá og vilja ekki að börn þeirra sjeu svelt.

Það mun hafa verið tilætlun nefndarinnar, að úr sáttmálasjóði yrði stúdentum bætt upp lækkunin. En hvers vegna bendir ekki háttv. nefnd á, að Nathan & Olsen veiti uppbótina! Hv. Alþingi hefir alveg jafnmikinn rjett til ráðstöfunar á fje Nathans & Olsens og sáttmálasjóðsins. Mundi foreldrum alls ekki hafa dottið í hug að senda sonu sína í skóla, ef þeir hefðu getað ímyndað sjer, að þingið færi svona að ráði sínu, og piltunum mundi alls ekki hafa komið til hugar að halda áfram námi. Margir stúdentar munu nú þegar skulda um 6–7 þús. og jafnvel meira, og geta menn þá gert sjer í hugarlund, hvað fyrir þeim liggur, ef þeir eiga að bæta miklu við skuldirnar og taka við jafnkauplágum embættum og eru hjer á landi. Fyrir þeim liggur auðvitað ekki annað en gjaldþrot. Nú, og þá teljast þeir auðvitað óhæfir embættismenn og fá ekki einu sinni að halda kosningarrjetti og öðrum mannrjettindum. Jeg sje ekki, að um sje nema tvent að velja fyrir háttv. þm., annaðhvort að hækka styrkinn upp í það, sem hann var, eða fella hann alveg niður.

Þá er námsstyrkur til stúdenta við erlenda háskóla. Jeg mintist áðan á það, að ríkinu bæri bein skylda til að veita stúdentum styrk, sem næmi Garðstyrknum. En jeg hefi ekkert á móti því, að athugasemdinni sje breytt þannig, að þeir stúdentar, sem fá 3. eink., skuli einskis styrks njóta. Slíkt ákvæði var áður, og hefi jeg enga löngun til að senda út í lönd til náms ljelega námsmenn. Og oftast mun það vera, að þeir sjeu ljelegir námsmenn, sem fá mjög lág próf, og eins hitt, að ljelegir námsmenn munu oftast vera þeir lítt vitrustu, þó að undantekningar kunni að vera frá því.

Það var ákveðið af fjvn. á undanförnum þingum, að hver nemandi, sem legði stund á þá fræðigrein, er ekki fengist kensla í hjer heima, fengi 1200 kr. námsstyrk á ári, en upphæð Garðstyrksins var þá 1400 kr. árlega. Þetta var að vísu lægri upphæð en Garðstyrkurinn, en þó var þetta ákveðið með hliðsjón af honum og var til þess ætlast, að sama hlutfall hjeldist, hvort sem Garðstyrkurinn hækkaði eða lækkaði; hafði fjvn. ákveðið þennan grundvöll til frambúðar. Jeg þykist vera viss um það, að háttv. þm. muni ekki hika við að greiða þessari till. minni atkvæði. Hvað á ella að verða um þessa ungu menn, sem farið hafa út í heim í von um að þeir fengju þessar 1200 kr. árlega, og foreldrar þeirra hafa slept þeim að heiman vegna þess, að þeir treystu þessum fyrirheitum Alþingis og hugsa þess vegna, að börnunum sínum væri óhætt, en þá er alt í einu og fyrirvaralaust kipt að sjer hendinni, er hið háa Alþingi bregður þessum loforðum. Hvernig fer þá! Þessir ungu námsmenn eru ef til vill orðnir skuldugir og geta ekki komist heim þess vegna. Foreldrar þeirra eru heldur ekki þess megnugir að geta borgað fyrir þá skuldir þeirra og leyst þá þannig út. Hvernig eiga þeir þá að fara að því að bjarga börnunum sínum úr þessu ástandið Er það tilgangurinn, að foreldrarnir verði að snúa sjer til stjórnarinnar og biðja hana að sjá um, að þessir unglingar verði sendir heim aftur á kostnað þess opinbera, þ. e. að grípa verði í þessu skyni til þess fjár, sem ætlað er til líknar nauðstöddum Íslendingum erlendis? Það er ávalt áætluð einhver upphæð í þessu skyni. Á þá þessi framtíðarvon og óskabörn íslensku þjóðarinnar að verða þannig stödd, vegna þess að Alþingi hefir brigðað heit sín við þau? Þetta kemur fyrirvaralaust yfir þessa ungu menn, sem alveg eru öllum ókunnir í erlendu þjóðfjelagi, eiga hvergi athvarf og eru óheimsvanir með öllu. Vita þeir því ekki, hvert eigi að snúa sjer eða hvað er til ráða, enda mun fátt verða þeim til hjálpar þar. Jeg er alveg fullviss um það, að ef þetta væri lagt undir atkvæði þjóðarinnar, fengi jeg 9/10 hluta allra greiddra atkvæða með mjer í þessu máli í það allra minsta. Líklega miklu fleiri.

Þá á jeg næst tillögu um litla fjárveitingu til kaupa á íslenskum listaverkum. Það hefir verið draumur fjvn. að undanförnu, eins og það hefir verið minn draumur og háttv. núverandi frsm. fjvn. (ÞórJ), að hjálpinni til okkar ungu listamanna yrði þann veg fyrir komið, að verk þeirra yrðu keypt fremur en að þeir væru beint gerðir að styrkþegum. Auðvitað verður að styrkja unga listamenn meðan þeir eru við nám. Það er ekki nema sjálfsögð sanngirniskrafa, sem þeir eiga alveg á móts við hvern annan strák eða stelpu, sem eiga heimtingu á því að fá að ganga í skóla og njóta kenslunnar fyrir ekkert í hvaða skóla sem er á landinu. Því jeg tel ekki þetta litla hneykslisgjald — skólagjöldin, — sem Alþingi hefir nýlega lögleitt, en á engan rjett á sjer og á því að hverfa og mun hverfa, enda er það lítið á við annan kostnað við námið. En þegar námi listamannsins er lokið, á ekki að þurfa að tala um styrk handa honum. Það á ekki við að gera listamönnum vorum þá skapraun að láta þá þurfa að þiggja styrki. Þegar þeir þurfa hjálpar við, á sú hjálp að koma fram í því, að verk þeirra verði keypt. Halda menn máske, að það sje óþarfafjáreyðsla að kaupa þessi listaverk meðan mennirnir eru enn ungir og miður þektir, á móts við það að kaupa þau, er höfundarnir eru orðnir gamlir menn og víða frægir! Spyrjið þá, sem þekkja til á slíkum söfnum, hvort ódýrara muni vera að kaupa listaverkin meðan listamennirnir eru ungir eða gefa tífalt eða hundraðfalt meira fyrir þau síðar, þegar þessir sömu listamenn eru orðnir frægir um heim allan. Eða mundi það verða ódýrara, sem sumstaðar hefir komið fyrir, að þurfa að leita dyrum og dyngjum eftir einhverjum verkum þessara manna, innanlands eða utan, aðeins til þess að ná í eitthvað eftir þá, og verða svo að greiða hundraðfalt gjald fyrir, ef eitthvað verður látið falt! Þeir, sem best skyn bera á þetta og til þekkja á listasöfnum, telja það vera beinlínis mikla hagsýni að kaupa listaverkin meðan höfundar þeirra eru ungir menn og fjeþurfa.

Þá kem jeg að fjárveitingu þeirri, sem mönnum er orðið svo tamt að kalla styrkveitingu, til sjera Jóhannesar L. L. Jóhannssonar. Þann lið vil jeg nú orða svo, að ekki geti út af því risið neinar deilur framvegis. Hann var ráðinn til þess að starfa að undirbúningi útgáfu á vísindalegri íslenskri orðabók ásamt dr. Birni heitnum frá Viðfirði. Nú var það ekki sök sjera Jóhannesar, að dr. Björn dó, og ekki var það heldur sök sjera Jóhannesar, að enginn var fenginn til að starfa með honum í stað dr. Björns heitins. Nei, það var sök Alþingis, sem ekki vildi veita meira fje til þess, að unnið yrði verk, sem þjóðinni gæti orðið sómi að. Það er regluleg þjóðarskömm, að ekki er til nein nýtileg íslensk orðabók handa oss Íslendingum sjálfum. Jeg er ekki með þessu að lasta það, þó samin hafi verið orðabók í íslensku handa útlendingum, til að hafa við lestur íslenskra rita, með dönskum þýðingum (orðabók Sigfúsar Blöndals), heldur hitt, að ekkert skuli vera til handa innlendum mönnum af þessu tægi. Hví ætti ekki nú að leggja fram krafta til þess, að samin verði vísindaleg og ábyggileg orðabók með íslenskum þýðingum og skýringum, sem nothæf væri íslenskri alþýðu, er það er augsýnilegt, að við erum á þeirri leið, sem liggur til glötunar íslenskri tungu og þjóðerni? Það mun því vart seinna vænna. Hver á að finna orðin þá, er þau eru með öllu týnd! Nei, það er ekki sjera Jóhannesi L. L. Jóhannssyni að kenna, að ekki er meira unnið að þessari orðabók. Hann var tekinn úr embætti sínu um leið og laun presta voru bætt, og ef Alþingi nú vildi veita honum embætti það hið sama aftur, veit jeg, að hann mundi taka við því með þökkum. Mig undrar það mjög, er hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) heldur því fram, að sjera Jóhannes sje ekki hæfur til þessa starfs, en það er nú raunar flest, sem menn nú orðið leyfa sjer að bera á borð fyrir sakleysingjana í þinginu. Jeg vildi aðeins, að dr. Jón sál. Þorkelsson rektor, kennari minn og sjera Jóhannesar, væri hjer kominn til þess að bera vitni um það, hvort sjera Jóhannes brysti fróðleik í þessum efnum. (Frsm. ÞórJ: Það var ekki mín meining heldur). Jæja, ef það er þá meining hv. fjvn. að brigsla honum um, að hann sje orðinn of gamall til þess að vinna að þessu, — hann er orðinn 65 ára — ætti ekki fjvn. að lækka þessa upphæð með það fyrir augum, að hann gæti fengið sjer aðra atvinnu. Það er betra að mæla ekki svona fyrir till. sínum; þessi rök eru þeim til lítils sóma, er þau bera fram. (Frsm. ÞórJ: Það mega fleiri vara sig). Jú, hv. frsm. fjvn. þykist öruggur í skjóli meiri hlutans; en jeg er þess fullviss, að fleiri menn munu greiða þessari till. minni atkvæði sitt, því það er rjett, að sjera Jóhannes hafi það kaup, sem samið var við hann um, að viðbættri dýrtíðaruppbót eins og aðrir starfsmenn ríkisins, og er hann þó þeim mun ver settur en aðrir embættismenn, að hann fær enga launaviðbót með hækkandi árafjölda í starfinu, og í rauninni ætti hann ekki að vera ver settur en hver annar vísindamaður í þjónustu ríkisins, t. d. prófessorar við háskólann, en þessi launaupphæð er þó ekki nema á móts við það, sem dósentar hafa eftir fyrstu launahækkun.

Það er enn ein lítil fjárupphæð, sem jafnan hefir fengist af fjvn. að leggja með á undanförnum þingum og fjvn. hefir ávalt haldið fram þessari upphæð óbreyttri; það er styrkurinn til Þórdísar Ólafsdóttur til þess að halda uppi kenslu í hannyrðum, heimilisiðnaði og öðrum kvennafræðum í Dalasýslu. Þetta er ekki mikið fje, en hitt er furðu mikið, sem fyrir það hefir verið unnið. Þórdís Ólafsdóttir hefir mjög lagt fram krafta sína til þess að afla sjer þekkingar á þessum sviðum; hefir t. d. verið árum saman erlendis í því augnamiði, en kent hjer heima síðan. Er það auðsætt, að hún getur ekki til lengdar tekið fólk heim til sín og kent því fyrir sama sem ekkert eða styrklaust. Meðmæli með þessari styrkbeiðni og vottorð um kensluhæfileika Þórdísar Ólafsdóttur eru hingað komin frá prófasti og sýslumanni þar vestur og ýmsum fleiri þektum mönnum. Nú er einmitt meiri ástæða til að veita þetta í þágu Dalasýslu, kjördæmis míns, þar sem þetta er í rauninni eina styrkbeiðnin, sem jeg flyt fyrir mína kjósendur, og eins vegna þess, að skóli, sem þar hefir starfað að undanförnu, legst nú niður, þótt sorglegt sje til þess að vita. Get jeg látið þess getið, að skólinn legst þar niður að nokkru leyti vegna þess, að skólastjórinn hefir ekki reynst sá búmaður, sem þurfti, og var ekki fær um að hafa þá hlið af skólastjórninni í sínum höndum, en hann var ágætur kennari og er hinn mesti skaði að því fyrir hjeraðið að missa skólann þaðan, eins og að missa af þessum kennara og hinni ágætu uppfræðslu hans. Hví brosir hv. þm. Str. (TrÞ) nú svo mjög! (TrÞ: Er það þá máske ekki leyfilegt!) Vissulega, jú, en mjer fanst þó eitthvað sjerstakt liggja í þessu brosi háttv. þm. Hann heldur máske, að jeg geti ekki unt þessum manni, sem jeg talaði um, sannmælis, vegna þess, að hann var andstæðingur minn í stjórnmálum við síðustu kosningar í Dalasýslu. (TrÞ: Má jeg brosa aftur!). Já, þó háttv. þm. vilji alveg út að eyrum. En jeg vænti þess, og tel það meira að segja víst, að háttv. þingdeild samþykki þessa litlu upphæð, sem jeg var að mæla fyrir, eins og þetta hefir áður verið samþykt hjer í deildinni.

Brtt. XVII, við 21. gr. 3, á þskj. 460, um lán handa veikum bónda í Dalasýslu, hefir áður verið borin fram hjer í háttv. deild við fyrri umr. fjárlagafrv. Jeg hafði beðið hæstv. atvrh. (MG) að bera þessa till. fram fyrir mig meðan jeg lá veikur, og hæstv. atvrh. fylgdi þessari tillögu minni vel og skörulega fram, en það kom fyrir ekki. Háttv. deild þóknaðist ekki að samþykkja þetta, þótt mjer þyki það allundarlegt. Að vísu hefði nokkur afsökun verið, ef keypt hefði verið hingað í landið gagnvermis-(diathermi-)áhald það, sem þingið í fyrra veitti fje til, og vísa hefði mátt þessum manni á til þess að leita sjer þar lækningar. En því er nú ekki að skifta; áhaldið hefir ekki ennþá verið keypt og maður þessi getur því ekki vænst þess að fá bót á veiklun sinni hjerlendis. Þetta er ungur bóndi, sem nýlega hefir reist bú, og ætti hann nú að taka þessar 2000 kr. úr búi sínu, væri búskap hans þar með lokið. Hann yrði öreigi eftir, ef lækningin mishepnaðist, og gæti þá enga von gert sjer um að vinna þetta upp aftur. Fengi hann aftur á móti þetta lán og lækningin færði honum einhvern bata, gæti hann endurgreitt lánið á 10 árum, en hjeldi þó búi sínu óskertu. Jeg vil því mæla með því, að honum verði veitt þetta lán, vegna þess að lán til þessara hluta eru ófáanleg í bönkunum. Jeg veit það og, að hjer eru svo margir bændur innan veggja í þessari hv. deild, sem munu skilja, hvílík nauðsyn þessum manni það er, að geta farið utan og fá bætur ráðnar við þessari vanheilsu sinni. Munu þeir því fúslega greiða þessu atkvæði sitt. Þó er engin vissa fyrir því, að hann geti fengið fulla lækningu, en það eru miklar líkur til þess að það megi stöðva veikina á því stigi, sem hún er, svo maðurinn hafi þó fótavist, en annars mundi hann áreiðanlega verða að leggjast í rúmið, ef við þetta ætti að sitja, og þá engin von um, að hann yrði starfshæfur framar; en maðurinn er á besta aldri. Hjer er því aðeins til svo lítils mælst, að undarlegt væri, ef það fengist ekki, enda er auðvelt svo um þetta að búa, að áreiðanlegt sje, að þetta lán verði endurgoldið. Það mætti t. d. taka veð í búi hans og ábyrgðir góðra manna þar vestra, sem jeg efast alls ekki um, að hann geti útvegað, svo að stjórninni þættu þær gildar. Þetta er svo lítil upphæð, að ríkissjóði ætti að vera fært að veita hana, þótt þröngt sje þar í búi, er áhættan er engin á því, að ekki fáist þetta endurgreitt. Vænti jeg því, að hv. þingdeildarmenn samþykki þetta allir. Þó þeim kunni sumum að þykja svo, sem jeg hafi kent allhart hjer í deildinni stundum, er það af skoðanamismun einum sprottið, en ekki af því, að jeg hafi það mælt til neins eins sjerstaklega. Allir viljum vjer að vísu reyna að bjarga við fjárhag ríkisins, og gætu því atkvæði manna stundum fallið saman þrátt fyrir ýmisháttar skoðanamismun.