29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

1. mál, fjárlög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. fjvn. hefir lagt það til að lækka tillagið til flutningabrauta úr 100 þús. kr. niður í 75 þús. kr. En jeg verð nú samt að segja það, að nú eru þó dálítið breyttar kringumstæður, er búið er að samþykkja það, að ríkissjóður taki að sjer viðhaldið á hjerumbil öllum flutningabrautum landsins. Nú hefir það verið áætlað, að þetta viðhald muni verða ríkissjóði sem næst 20 þús. kr. árlegur kostnaðarauki. Það lætur því nærri, að þessar 25 þús. kr., sem hv. Ed. ætlaði til Holtavegarins, en fjvn. nú hefir felt niður, gerðu lítið meira en að hrökkva fyrir þessum aukna viðhaldskostnaði, þó að alls engu fje verði varið til Holtavegarins. Jeg vænti því þess, að háttv. fjvn. falli frá þessari till sinni, en lofi þessum lið að standa óhögguðum. Það mun sýna sig, að það verður ekki mikið afgangs, þó að þessar 100 þús. kr. fái að standa, og það gæti þó jafnvel komið til þess, að einhverjar umframgreiðslur ættu sjer stað. Það er ekkert vit í því að halda ekki vegunum við. Það er það dýrasta af öllu, sem fyrir getur komið, ef vegirnir eru látnir drafna niður af umhirðuleysi. Það er auk þess hin mesta nauðsyn á því að endurbyggja Holtaveginn, enda þótt jeg ætlist ekki til, að það verði gert á næstu 1–2 árum. En það verður bráðlega óhjákvæmilegt að taka fyrir og endurbyggja kafla og kafla á hverju ári. En meðan það er ekki gert og af því að lítt fáanlegur er þar ofaníburður að gagni, er þeim peningum, sem til viðhalds þessa vegar verður varið, algerlega kastað á glæ. Þó einhverju sje slett ofan í verstu kaflana, dugir það ekki lengur en til næstu stórrigningar og er þá óðar orðið að ófæru aftur, og þetta verður svona þangað til vegurinn verður endurbygður og fenginn er ofaníburður, sem dugir. Það er því aðeins til þess að svíkja áætlanirnar í fjárlögunum, ef fjárveitingin til flutningabrauta verður lækkuð. Jeg veit vel, að háttv. fjvn. ætlast til, að áætlanir hennar standist nokkurn veginn, en þetta verður þó að athuga, er jeg nú hefi sagt. Þá hefir og hv. fjvn. gert sjer lítið fyrir og felt burt fjárveitingu, sem inn var sett í fjárlagafrv. í hv. Ed., um skipulag bæja og kauptúna. En um þetta hefir það áður verið tekið fram, að það eru til lög fyrir þessu, og þó að ekki verði veitt til þess í fjárlögum, er vafasamt, hvort hægt verður að komast hjá að greiða eitthvað í þessu skyni. Jeg get ekki lofað því, að ekkert verði greitt fyrir þetta. Í allflestum kaupstöðum landsins er þegar búið að leggja allmikið í kostnað til uppmælinga o. fl., en þar vantar skipulagsuppdrætti til þess að hægt verði að haga framkvæmdum öllum í kaupstöðunum samkvæmt því skipulagi, sem nefndinni er ætlað að sjá um. Jeg hefi fengið símskeyti frá Akureyri, Hafnarfirði, Ísafirði og brjef frá borgarstjóranum hjer í Reykjavík, og alstaðar er lögð áhersla á að fá þessa skipulagsuppdrætti sem allra fyrst, vegna þess að það standi ella á því, að ekki verði gerðar áætlanir um götur, holræsi, byggingar o. fl., og er því svipað um þessa fjárveitingu að segja og um tillagið til flutningabrautanna, að það verður aðeins til þess að svíkja áætlanirnar á fjárlögunum, ef þetta verður felt niður. Bæirnir eru búnir að leggja svo mikið fje í þetta, að það er hart fyrir þá að geta ekki fengið skipulagsuppdrætti til þess að geta haft full not af þeim peningum, sem þeir hafa lagt fram. Jeg sje ekki ástæðu til þess að lengja tímann með því að lesa upp þessi símskeyti og brjef, en háttv. frsm. fjvn. getur fengið þessi plögg hjá mjer, er hann vill, enda þykist jeg vita, að engir hv. þingdeildarmenn væni mig um, að jeg hafi ekki fengið þau.

Þá vildi jeg segja aðeins nokkur orð út af ummælum hv. þm. Dala. (BJ) um stúdentastyrkinn. Hv. þm. kvartaði um það, hvað hv. fjvn. væri smámunaleg í þessu efni og vill, að styrkurinn til stúdenta sje látinn halda sjer eins og hann er í stjórnarfrv. En í rauninni er háttv. nefnd hjer rausnarlegri en hv. þm. sjálfur, því fyrir hans 12 þús. kr. úr ríkissjóðnum vill hún láta koma 12500 kr. úr sáttmálasjóðnum, og er það síst verra fyrir stúdentana, sem má á sama standa, hvaðan gott kemur. Hv. þm. Dala. kvað það sama að vísa stúdentunum á sáttmálasjóðinn og til Nathans & Olsens. Það væri þó undarlegt, ef sáttmálasjóðurinn stæði þeim ekki öllu nær; að minsta kosti má hv. þm. vanda betur rökin, ef hann ætlar sjer að sýna fram á, að svo sje. Eins og menn vita, er talsvert af þessu fje sáttmálasjóðsins ætlað til utanfara prófessoranna við háskólann hjer og til útgáfu vísindabóka. Er því fult samræmi í því, að fjárveitingar til þessa úr sáttmálasjóðnum falli niður um stundarsakir, úr því að feldar hafa verið niður tilsvarandi styrkveitingar af Alþingi. Væri það í rauninni heldur hart, ef háskólaráðið neitaði að láta fjeð af hendi, svo vant sem ríkissjóðurinn er nú við látinn annarsstaðar og aðframkominn. Það er og fjarri því, að hjer sje nokkuð djúpt tekið í árinni. Fje það, sem háskólanum hlotnast árlega í vöxtu af háskólasjóðnum, nemur 55 þús. kr., og ætti hann þá vel að geta lagt af mörkum þessar 12500 kr. í þessu skyni.

Það var annars eitt atriði, sem upplýstist á stúdentafundinum í gærkvöldi, sem jeg vildi nú drepa á; það er, að öllum stúdentunum er veittur jafn styrkur, hvort sem um er að ræða dugnaðarmenn eða slæpingja. Þetta er alt annað en það, sem Alþingi ætlaðist til í upphafi. Það ætlaðist til þess, að styrkurinn færi eftir dugnaði og hæfileikum, því ella kemur hann auðvitað ekki að gagni nema að nokkru leyti. — Jeg skal þó taka það fram, að fari svo, að ómögulegt verði að fá þennan styrk úr háskólasjóðnum, þá vil jeg vinna að því, að stúdentarnir fái þennan styrk annarsstaðar að. En jeg vil, að háskólinn leggi hjer af mörkum eins mikið og hann getur; hann verður að taka tillit til fjárhags ríkisins. Prófessorarnir verða að láta leggjast niður utanfarir sínar nokkurn tíma og skifta því fje milli stúdentanna. Yrði það á meðan þessir erfiðu tímar standa yfir, og verður það vonandi ekki lengi. Hv. þm. Dala. sagði, að þingið hefði engin yfirráð yfir háskólasjóðnum. Það er nú svo. Jeg býst nú við, að ef í odda skærist milli þess og háskólans, að reyndin yrði önnur, — en vonandi er, að ekki komi til þess. Enn vil jeg bæta því við, að eitt af ætlunarverkum þessa sjóðs er einmitt að styrkja stúdenta, og er því í rauninni ekki verið að fara hjer fram á annað en það, sem skipulagsskrá sjóðsins heimilar.

Jeg hefði viljað, að háttv. fjvn. hefði látið halda sjer styrkinn til stúdenta erlendis eins og hann var samþyktur í hv. Ed. Þótt ekki yrði veittur neinn styrkur nýjum stúdentum, þá yrði samt erfitt að láta þennan styrk duga, sem hv. nefnd hefir fallist á. Hitt get jeg fallist á, að rjett sje að sporna við, að svo margir leggi inn á þessa braut og undanfarið. Nú eru eins margir stúdentar við nám erlendis eins og þegar háskólinn var stofnaður, og er áreiðanlegt, að margir þeirra geta ekki gert sjer neinar vonir um að fá starfa hjer á landi. Er það áreiðanlegt, að það er bæði þjóðinni fyrir bestu og þeim, sem farnir eru út á þessa braut, að eitthvað sje gert til að hefta þessa óeðlilegu framleiðslu stúdenta og kandídata.