29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

1. mál, fjárlög 1925

Ágúst Flygenring:

Jeg á hjer litla brtt., sem jeg vildi gera lítillega grein fyrir. Hún fer ekki fram á nein aukin útgjöld, heldur aðeins breytt orðalag á liðnum. Liðurinn ræðir um, að Árna Theódór Pjeturssyni kennara sjeu veittar 500 kr. á ári í eftirlaun, og skal jeg nú gera lítið eitt nánar grein fyrir þessu. Svo stendur á, að þessi maður þóttist órjetti beittur, er veitt var barnakennaraembættið á Vatnsleysuströndinni. Hefir hann leitað til stjórnarinnar til að fá rjetting sinna mála og síðan til Alþingis 1922, og fór hann fram á, að sjer yrðu veittar 1000 kr. á ári í skaðabætur eða 8000 kr. í einu lagi. Var þessi beiðni hans rökstudd með vottorðum frá hreppsnefnd, skólanefnd og sóknarpresti, sem mæltu hið besta með manninum. Hann hafði því ólastanleg spil á hendi, enda var það samþykt í báðum deildum á þessu þingi, að rjett væri að rannsaka málið. Á næsta þingi var svo endi bundinn á málið með því, að nefnd sú, sem hafði það til meðferðar, lýsti yfir því, að ekki yrði með neinu móti komist hjá að veita manninum eftirlaun þar til hann fengi annan starfa. Lagði mentmn. þess þings til, að honum yrðu veittar 500 kr. og var það samþykt og tekið upp í fjárlög. Fyrverandi stjórn hefir nú tekið upp þessa fjárveitingu, en sú breyting hefir verið gerð á á hv. Ed., að hnýtt hefir verið aftan við liðinn, að þetta skuli vera lokagreiðsla. Jeg legg nú til, að þetta falli burt, en í staðinn komi, að þessi eftirlaun skuli veitt þangað til maðurinn hafi fengið annan starfa. Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Jeg vona, að hv. deildarmenn skilji, að þar sem tvö þing, hvort á eftir öðru hafa samþykt þetta, þá sje þar um bindandi loforð að ræða. Er það og víst, að ef þingið vill ekki láta þessa fjárveitingu af hendi, þá mun jeg gera kröfu til hennar á annan hátt, og er jeg ekki í neinum vafa um, að jeg muni fá þá kröfu uppfylta. Jeg legg ríka áherslu á, að gerð verði breyting á þessu, og ætti það að vera auðsótt, þar sem hjer er aðeins um það að ræða, að þingið standi við loforð sín. Er jeg því viss um, ef hv. þdm. vilja líta á þetta mál með almennri rjettlætistilfinningu, að þeir muni greiða atkv. með því.