29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

1. mál, fjárlög 1925

Klemens Jónsson:

Umr. hafa nú verið svo á víð og dreif, að jeg vona, að jeg megi gera nokkrar almennar aths., sem snerta þó að vísu fjárlögin.

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat um það um daginn, að eitt af hans fyrstu verkum sem fjármálaráðherra hefði verið að ávísa 127 þús. kr. til síma, sem ekki hefði verið veitt nein heimild til í fjárlögunum 1923, að undanteknum 20 þús. kr., sem ætlaðar hafi verið til þessa. Hæstv. fjrh. fórust þannig orð, að hv. þm. hafa hlotið að ganga að því sem gefnu, að hjer hafi verið brúkaðar rúmar 100 þús. kr. alveg utan við fjárlögin, en þetta er þó engan veginn þannig.

Í fjárlögunum fyrir 1922 voru veittar til símalagninga alls það ár 150500 kr. Staurarnir til línubygginga voru keyptir þá um sumarið og fluttir á línusvæðin næsta vetur á eftir, eins og vant hefir verið, enda varla hægt að flytja staurana á sumrin. Til þessara kaupa var varið liðugum 46 þús. kr., sem voru færðar til útgjalda það ár, en verkið sjálft var ekki framkvæmt fyr en 1923, og kemur þá til útgjalda. Það kostaði eftir skýrslu landssímastjóra liðugar 114 þús. kr., sem altsvo hafa verið borgaðar út nú. Af þessu sjest, að hjer er hvorki um umframgreiðslu eða óheimila greiðslu að ræða.

Jeg hefi gert grein fyrir þessu aðeins til að leiðrjetta misskilning, er ella hefði getað átt sjer stað meðal hv. þm.

Jeg hefi heyrt, að hv. frsm. hafi haft þau ummæli, að týnst hafi einhverjar ríkisskuldir í minni stjórnartíð. Jeg veit sannast að segja ekki, við hvað hv. þm. á með þessu. Skýrslurnar um skuldir landsins, sem prentaðar eru í athugasemdum við fjárlagafrv., fjekk jeg hjá ríkisbókhaldinu, og þær hljóta að vera rjettar. Aðra skýrslu fjekk jeg frá Landsbankanum, um skuldir til hans, og get jeg ekki ímyndað mjer, að hún sje röng. Auk þess las skrifstofustjórinn prófarkir af fjárlagafrv. með athugasemdum, og honum hlýtur þó að vera allra manna kunnugast um allar skuldir ríkissjóðs, og mundi hann þá vafalaust hafa tekið eftir því og bent á það, og það því fremur sem við töluðum um skuldirnar, og í samráði við hann slepti jeg einum tveimur smáskuldum, sökum þess, að þar var aðeins um bráðabirgðalán að ræða; átti t. d. annað lánið, til kirkjujarðasjóðs, að borgast á þessu vori. Hefir þetta verið gert áður og ekki að fundið, enda hefi jeg áður við umr. fjárlaganna skýrt frá þessu. Það er því algerlega rangt, að nokkur skuld hafi týnst hjá mjer.

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat um það, að hv. fjvn. hafi leiðrjett ýmsa pósta í stjórnarfrv., bæði tekjur og gjöld. Hæstv. ráðherra hefði þá um leið átt að geta þess, að jeg hafði sjálfur gefið bendingar um margar, ef ekki flestar, af þeim leiðrjettingum. Jeg tók fram þegar í byrjun þings, að breyta yrði ýmsum tekjuliðum, og hefir þetta síðan verið margtekið fram. Sömuleiðis, að ýmsir gjaldaliðir myndu of lágt áætlaðir. T. d. lagði jeg áherslu á, að hækka yrði 7. gr. (afborganir og vaxtagreiðslu erlendra lána) svo miklu munaði, sökum þess, að gengi íslensku krónunnar hefði hrapað svo niður síðan fjárlagafrv. hefði verið samið. Þetta tók hv. fjvn. Nd. ekki til greina, og hafði sjálf ekkert tekið eftir þessu, en nú hefir hv. Ed. hækkað þann lið um 200 þús. kr. Er þó ekki einu sinni víst, að þessi upphæð hrökkvi til, ef krónan skyldi halda áfram að falla. Yfirleitt er það ekki mögulegt fyrir neina stjórn að áætla fjárlög svo, að engu skakki — allra helst á slíkum tímum, sem nú standa yfir. Þetta eru alt kallaðir áætlunarliðir — og þeir eru það líka sannarlega.

Hæstv. fjrh. nefndi sjerstaklega 2 liði, sem hann hjelt, að myndu reynast of lágt áætlaðir; þeir eru kostnaður við ríkisfjehirði og hagstofuna. Að því er snertir hinn fyrnefnda, þá vakti það fyrir mjer, að spara mætti þar eina stúlku. Jeg hefi átt tal um þetta við ríkisfjehirði, og var hann að vísu á móti því, en það er nú svo um húsbændur á skrifstofum yfirleitt, að þeir eru altaf á móti, að undirmönnum þeirra sje sagt upp. Jeg er viss um, að þarna mætti vel spara. Ef þetta hefði verið gert, þá hefði mín áætlunarupphæð verið rjett. Jeg hafði og ekki búist við, að húsaleigan yrði hærri þar, sem skrifstofan er nú, heldur en áður, því það er auðvitað á valdi ríkisstjórnarinnar, hve mikla húsaleigu hún vill greiða bankanum, því það var ósamið af mjer.

Að því er snertir hagstofuna, þá er húsaleigan þar líka alt of há, en það er einnig þar á valdi ríkisstjórnarinnar að ákveða hana eins og henni sýnist, en í báðum tilfellum er hjer um svo smáar upphæðir að ræða, að ekki er orð á hafandi.

Þá drap hæstv. fjrh. á berklavarnirnar. Jeg er sammála honum um, að ef ekki verða gerðar neinar breytingar á þeim lögum, þá verður þessi upphæð — 200 þús. kr., — sem þar er áætluð, alt of lág, eins og jeg líka hefi sjálfur margtekið fram. Er jeg hissa á, að hv. fjvn. skuli ekki hafa tekið þetta neitt til athugunar, því auðsætt er, að þingið ætlar ekki að láta breytingu á þessum lögum ná fram að ganga; að minsta kosti leggur nefndin á móti því, og auk þess er nú orðið svo áliðið þings, að litlar líkur eru til, að lög um þetta yrðu afgreidd, þótt meiri hluti merðist með því. Það er því áreiðanlegt, að þörf er á að breyta þessum lið — allra helst ef menn ætlast til, að hv. Ed. samþykki fjárlagafrv. eins og það verður afgreitt hjeðan í dag. Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjrh. gat um, að framlagið til prestlaunasjóðs mundi reynast of lágt, þá getur það vel verið. Jeg fjekk upphæðina hjá hlutaðeigandi skrifstofu. Hæstv. ráðherra mun fljótt komast að raun um, að hann getur ekki rannsakað allar tölur sjálfur.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði í gær, að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og jeg vildum helst fara með allan ríkissjóðinn austur fyrir fjall og austur á fjörðu. Að því er mig snertir, þá hlýtur hv. þm. að hafa mismælt sig, því að jeg hefi ekki komið fram með nokkra styrkbeiðni fyrir kjördæmi mitt og ekki eina einustu brtt. við fjárlögin. Hv. fjvn. hefir aftur á móti að ýmsu leyti farið vel með Suðurlandsundirlendið, og kann jeg henni þakkir fyrir. En nú virðist hún ætla að taka sinnaskiftum. Þannig leggur nefndin nú til að fella burt viðbótarstyrk til Guðmundar læknis Guðfinnssonar, er hv. Ed. hefir samþykt. Þetta þykir mjer illa farið. Honum var í fjárlögum í fyrra veittur 2000 kr. styrkur til þess að nema augnlækningar erlendis; var þá gert ráð fyrir, að hann yrði eitt ár við þetta nám, og við það var upphæðin miðuð. En nú hefir stjórn Læknafjelags Íslands, með brjefi dags. 5. febr. þ. á., tilkynt honum, að hún samkvæmt reglum um sjerfræðinga, sem samþyktar voru á fundi fjelagsins síðastliðið vor, yrði að heimta 1½ árs námstíma til þess að geta viðurkent hann sem sjerfræðing í þessari grein. Námstíminn er í nefndri reglugerð ákveðinn 2 ár fyrir augnlækna, en vegna þess, að maður þessi hafði verið svo lengi læknir og sjerstaklega lagt stund á skurðlækningar, hefir honum verið ívilnað þetta í tímalengdinni. Fer hann því fram á að fá samsvarandi styrk þetta ár, en sjer sjer ekki fært að halda áfram námi sakir fátæktar að öðrum kosti. Og mjer er kunnugt um það, eftir upplýsingum frá nákunnugum mönnum, að hag þessa manns er svo farið, að hann getur ekki haldið áfram náminu án þess að fá viðbótarstyrk. En jeg tel það mjög illa farið, ef þessi góði og duglegi maður verður að hverfa frá námi áður en hann er fullnuma, og komist því ekki hjer að sem sjerfræðingur. Og það því fremur, sem það er kunnugt, að full þörf er á því, að fleiri en einn maður kunni þessar lækningar hjer á landi. Er að vísu einn sjerfræðingur í þessari grein hjer í Reykjavík; jeg þekki hann ekki, og má vel vera, að það sje hæfur maður, en hann er þó ekki nema einn, og jeg hygg, að það sje heppilegra bæði fyrir bæjarbúa og alla landsmenn, að þessir læknar sjeu tveir og geti kept hvor við annan. Getur það og verið þeim sjálfum til góðs.

Jeg vænti því, að hv. deild felli ekki niður þann styrk, sem hv. Ed. lagði til þessa manns, heldur láti hann standa þrátt fyrir till. hv. fjvn.

Þá vil jeg minnast á styrkinn til flutningabrauta, en sje ekki þörf á að fara um hann mörgum orðum, því bæði hæstv. atvrh. og hæstv. fjrh. hafa sýnt fram á, að hækkun hans hlýtur að verða bein afleiðing af vegalögunum, sem samþykt voru hjer í gær. Hæstv. fjrh. kvað þau hafa verið samþykt illu heilli; jeg vona, að það reynist þvert á móti. Vitanlegt er, að talsvert af fjenu hlýtur að ganga til Holtavegarins, sem er í mínu kjördæmi og öllum ber saman um, að gera þarf bráðar breytingar á og gera nokkurn hluta upp af nýju á ríkisins kostnað, og það hefir hæstv. fjrh. líka fyllilega viðurkent.

Þriðja atriðið, sem jeg vildi minnast á, snertir líka mitt kjördæmi. Það er bifreiðastyrkurinn. Háttv. frsm. sagði, að jeg hefði verið mjög ánægður yfir þeim styrk og ekki óskað eftir neinni breytingu á honum. Það er rjett, að mjer þótti vænt um styrkinn, sem af vangá hafði ekki verið tekinn upp í fjárlagafrv. En jeg man ekki eftir, að jeg hafi látið nein orð falla í þá átt, að jeg væri fyllilega ánægður með hann. Og að sjálfsögðu þykir mjer vænna um, að 2 þús. kr. sjeu veittar til þessara ferða heldur en aðeins 1 þús. kr., því vitanlega hefir fólkið meira gagn af því, að styrkurinn sje hærri, svo ferðirnar geti orðið þess fleiri. Mjer er kunnugt um, að þessar ferðir komu að mjög miklu gagni síðastliðið sumar, og almenningur mundi mjög sakna þess, að úr þeim drægi. Og ferðir þessar koma og Reykvíkingum að gagni ekki síður en mönnum á Suðurlandsundirlendinu. Jeg vænti því, að sú upphæð, sem hv. Ed. hefir tekið upp í þessu skyni, haldist, en brtt. hv. fjvn. verði feld, því jeg býst ekki við, að það þýði að fara bónarleið að hv. fjvn. og biðja hana að taka till. aftur.

Eitt atriði vildi jeg enn benda á, sem hæstv. atvrh. hefir líka talað um. Það eru skipulagsuppdrættirni. Hvað eftir annað hefir verið talað um það á þessu þingi, að maður mætti á engan hátt svíkja sjálfan sig í neinu, og því væri um að gera að taka með öll fyrirsjáanleg gjöld sem tekjur, svo ekki kæmu fram umframgreiðslur. Nú er það vitanlegt, eins og hæstv. atvrh. gat um, að til eru lög fyrir þessu, og svo framarlega sem fram koma óskir, eins og líka þegar er komið á daginn að muni koma fram, í þessu efni, þá sje jeg ekki, hvernig stjórnin fer að skella skolleyrum við þeim; nema ef sú aths. væri sett í fjárlögin, að fresta framkvæmdum á þessu sviði árið 1925. Jeg sje ekki, að stjórnin geti t. d. neitað að halda áfram uppdráttum, sem þegar er byrjað á. Og að áhugi er í kaupstöðunum fyrir því að halda þessu áfram, sýna símskeytin, sem drepið var á áðan. Annaðhvort verður því að veita sjerstaka upphæð til þessa, eins og hv. Ed. hefir gert, eða þá að setja þá aths. í fjárlögin, að þessu skuli frestað um eitt ár. Jeg sje ekkert á móti því, að svo sje gert; þetta þolir bið ekki síður en margt annað, sem dragast verður. En viðkunnanlegast er að gera annaðhvort, svo ekki sje brotin sú regla, sem altaf er verið að brýna fyrir okkur, að taka tillit til allra útgjalda, sem fyrirsjáanleg eru.