15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í C-deild Alþingistíðinda. (2774)

79. mál, sparisjóðir

Jón Sigurðsson:

Hv. flm. (MT) neitaði því ekki, að lögin gætu komið illa við, og sparisjóður gæti neyðst til að setja fje sitt í eitthvað annað, eða flytja burt úr hjeraðinu. Það er í rauninni möguleiki, að hann kaupi bankavaxta- eða ríkisskuldabrjef, en hart er það, að kaupa þau fyrir 4½–5½% vexti, þegar yfirdrifin þörf er á víxlum eða sjálfskuldarábyrgðum heima í hjeraði.

Jeg þekki enga sparisjóði, sem eru okurholur; þeir eru víst aðeins til í Árnessýslu, og sömuleiðis eru víst 6% innlánsvextir hvergi til, nema ef þeir eru þar.

Mjer sýnist alveg óhætt að vísa til reynslunnar, því sparisjóðir hafa nú starfað frá 1870–80, og mjer er ekki vitanlegt, að til hafi viljað nema eitt óhapp — þó stórt sje — í Árnessýslu, og sje jeg enga ástæðu til að ætla, að svo muni fara um alla aðra sparisjóði. Mjer finst frv., eins og það nú liggur fyrir, vera besta ráðið til að eyðileggja sparisjóðina, sem eru nytsemdarstofnanir og lyftistöng fyrir framkvæmdir í hjeruðunum, og gera þá alháða bönkunum.