29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

1. mál, fjárlög 1925

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á enga brtt. við fjárlögin að þessu sinni og ætla heldur ekki að gera nema þrjár brtt. annara að umtalsefni, og það aðeins lítillega.

Það er hjer brtt. á þskj. 460 um styrk til Guðmundar Guðfinnssonar, sem h 2. þm. Rang. (KlJ) mun að vísu hafa minst á, en jeg veit ekki, hvað hann hefir mælt fyrir henni, því jeg var ekki viðstaddur, en mjer er sagt, að hann hafi mælt á móti því, að styrkurinn fjelli niður.

Þessi maður hefir nú stundað nám í Vínarborg eitt ár. Hann hefir þurft að leggja mikið í kostnað og hefir þar að auki þungt heimili hjer heima, og má því geta nærri, hvort ekki muni vera erfitt fyrir hann að standa straum af útgjöldunum bæði heima og utanlands. Svo er ástatt annars, að ekki er til nema einn sjerfræðingur hjer á landi í þessari grein. En „hætt er einu auga“, og falli hann frá, er enginn til að taka við.

Þótt sá maður, er nú stundar þessar lækningar hjer, haldi þeim áfram, hygg jeg, að engin vanþörf sje á öðrum slíkum lækni í viðbót. Starfið er vandasamt og allmikið, og þar að auki er núverandi augnlæknir svo dýr á lækningar sínar, að ekki virðist rjett, að hann sje hjer einn um hituna. Annað, sem mælir með styrkveitingu þessari, er það, að þessi maður hefir reynst mjög góður og skyldurækinn læknir. Hann hefir lengi verið læknir á Rangárvöllum og getið sjer hinn besta orðstír. Og jeg hygg, að hv. þm. V.-Sk. (JK) geti líka borið um, hve mikils góðs Skaftfellingar hafa notið af hjálp hans, og sama vitnisburð mun sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu geta borið honum. Jeg vona því, að hv. deild felli eigi niður þann styrk, sem hv. Ed. samþykti þessum manni til handa, því að of langt má fara í sparnaðinn, þótt góður sje.

Þá vil jeg minnast á brtt. á þskj. 460, VIII,1, um flutningabrautir. Þetta mál er áður rætt, og skal jeg því ekki fjölyrða um það nú, en vona, að hv. deild sjái, að ógerningur er að lækka þennan lið.

Þá er önnur brtt. á þskj. 460, VIII,2, um styrk til bifreiðaferða austanfjalls. Hjer í deildinni voru samþyktar 1000 kr. í þessu skyni. Hv. Ed. hækkaði þessa upphæð upp í 2000 kr., en hv. fjvn. þessarar deildar vill lækka upphæðina aftur niður í 1000 kr. Þetta er að mínu áliti alls ekki sanngjarnt, og gat háttv. frsm (ÞórJ) ekki sannfært mig um það. Hann sagði, að nefndin hefði búist við, að þessi styrkur rynni til eins manns og gerði honum fært að setja fargjöld svo niður, að öðrum væri gert ókleift að halda uppi ferðum þessum. Fyrst og fremst er nú líklegra, að þessi styrkur rynni til tveggja en eins. Sá maður, sem haldið hefir uppi bifreiðaferðum í Laugardal, Grímsnesi og Tungum, myndi vafalaust fá þennan styrk á móti þeim, er heldur uppi ferðum um syðri hluta sýslunnar. Þá kemur og annað hjer til greina, nefnilega það, að sá eða þeir, er styrk þennan hljóta, eru bundnir við áætlunarferðir, hvort sem flutningurinn er mikill eða lítill. Aðrir fara ekki þessar ferðir, nema þeir eigi vísan ágóða af þeim. Mjer er kunnugt um, að sá maður, er naut þessa styrks í fyrra, taldi sig ekki hafa grætt á ferðunum. En hjeruðin munar mikið um þessa upphæð, og eiga hana líka skilið, þar sem þau njóta einskis góðs af strandferðastyrknum, nema ef til vill austurhluti Rangárvallasýslu. Jeg veit, að hv. deild sjer rjettmæti þessa máls, og get jeg því lokið máli mínu að sinni.