29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

1. mál, fjárlög 1925

Sveinn Ólafsson:

Jeg á hjer aðeins eina litla brtt. í þetta skifti og skal ekki vera langorður um hana. En áður en jeg kem að henni, vildi jeg minnast á nokkrar aðrar brtt. Um brtt. fjvn. er það að segja, að jeg er sammála nefndinni um þær flestar og mun fylgja þeim yfirleitt. Þó mun jeg ekki geta ljeð sumum þeirra atkv. mitt, og að minsta kosti er ein svo undir komin, sem jeg kem síðar að. Nefndin hefir andmælt uppfærslu vegafjárveitingar, sem getið er í 8. brtt. á þskj. 460, til viðhalds akbrauta og vega. Á þetta hefir verið minst hjer áður, og þarf jeg því engu þar við að bæta. En víst er um það, að illa kemur sjer að lækka þá upphæð jafnframt og vegalögin eru afgreidd.

Þá var önnur brtt. frá nefndinni, sem mjer kom illa, á þskj. 460, VI,2, þar sem lagt er til að fella niður styrk til Guðmundar Guðfinnssonar læknis til augnlækninganáms. Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og hv. 2. þm. Árn. (JörB) hafa minst á þessa brtt. áður og báðir tekið í sama streng.

Það vill svo til, að jeg hefi, bæði í vetur og stundum áður, tekið að mjer að annast um fjárreiður sjúklinga, er hafa komið hingað til að leita sjer lækninga, og greiða götu þeirra með láni eða á annan veg, ýmist hjá augnlækni eða öðrum. Jeg er því dálítið kunnugur taxta læknanna og hefir reynst hann býsna hár hjá núverandi augnlækni. Þess vegna hygg jeg brýna þörf á samkepni í þessari grein. Jeg skal geta þess, að mjer var fyrir skömmu sýndur reikningur frá honum til greiðslu fyrir lítilfjörlega læknisaðgerð á auga, og var hann 160 kr. að upphæð. Aðgerðin fárra mínútna verk og vitjun sjúklings 5 sinnum á eftir. Til samanburðar skal jeg geta þess, að nýlega galt jeg öðrum lækni 90 kr. fyrir holskurð og læknishjálp í 7 vikur við annan sjúkling, mjög veikan. Jeg sje ekkert á móti því að nefna hjer nöfn, og læknir sá, sem hjer ræðir um, var prófessor Guðmundur Magnússon. Jeg tel rjett að gera þennan samanburð, til þess að mönnum skiljist því betur, hversu holt er einræði um þessar augnlækningar.

Jeg vona, að hv. deild fallist á að veita Guðm. Guðfinnssyni styrk þennan. Þörfin á öðrum augnlækni er brýn, en fátækt og örðugar heimilisástæður meina mönnum — einkum úr fjarlægum sveitum — að leita sjer læknishjálpar hjer; en tíðari mundu ferðir augnlæknis, ef tveir væru. Hv. fjvn. hefir að líkindum ekki verið nægilega kunnug málinu, og vona jeg því, að hún taki þessa brtt. sína aftur, eða að hún verði feld að öðrum kosti.

Jeg get leitt flestar aðrar brtt. hjá mjer, enda hefir verið minst á margar þeirra af öðrum. Þó er ein brtt. á þskj. 463, sem ástæða er til að geta. Hún er frá hv. 2. þm. Reykv. (JBald) og fer fram á að hækka stimpilgjaldsliðinn úr 600 þús. kr. upp 1100 þús. kr. Líklega er þetta of mikil hækkun, en þó er jeg ekki viss um það. Mig rekur minni til þess, að í fjhn. var talið saman, hve miklu sá 20% verðtollur, er hjer var lögfestur, mundi nema, miðað við innflutning 1922, og var gert ráð fyrir 2 miljónum. Af því að nefndin bjóst við innflutningshöftum á sumum tollvörum, var áætlað, að upphæðin gæti rýrnað um helming. Líklega er óvarlegt að áætla jafnmikinn innflutning og 1922. En hitt dylst engum, að þessi áætlun, sem gerir aðeins ráð fyrir 300 þús. kr. aukningu stimpilgjalds vegna verðtollsins, fer alt of skamt. Hjer er því um eitt af tvennu að gera, að annaðhvort er áætlunin alt of lág, eða að stjórnin hefir hugsað sjer að banna innflutning á miklum hluta tollvaranna. Jeg myndi hafa greitt þessari brtt. hv. 2. þm. Reykv. atkv., ef mjer hefði ekki þótt upphæðin fullhá þar. Jeg hygg, að 800 þús. kr. mundu vera nærri sanni. Í þeirri upphæð er innifalið stimpilgjaldið fasta eftir lögunum frá 1921, og upphæð þess var í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar áætluð 300 þús. kr. Jeg væri nú ánægður yfir þessari lágu áætlun, ef jeg vissi, að meining stjórnarinnar væri sú, að hefta innflutning í svo stórum stíl, sem þetta bendir til. En það efast jeg um, og þætti því rjettara að hækka áætlunina, svo að hún verði sanni nær, enda litu fjárlögin þá betur út.

Þá kem jeg að brtt. minni á þskj. 467. Hún fer fram á, að í stað þeirra 1000 kr. fjárveitingar, er hjónunum í Hítardal er ætluð, komi 1400 kr., er skiftist jafnt á milli þeirra og annarar fjölskyldu austur á landi. Hjónin í Hítardal er mjer sagt, að eigi tíu börn í ómegð. Hin hjónin eiga fimtán börn, og er aðeins eitt komið yfir fermingu. Jeg hefði ekki komið fram með þessa till, ef fordæmið hefði ekki verið gefið með fjárveitingunni til hjónanna í Hítardal. En úr því að hún er fram komin og þörf hjónanna eystra er jafnvel meiri en þar, á brtt. mín fullkominn rjett á sjer.

Fyrir tveim dögum símaði jeg til oddvita í sveit þessara hjóna og bað hann að senda mjer staðfest símskeyti um tölu barnanna og aðrar ástæður fjölskyldunnar. Jeg hefi ekki fengið svar hans ennþá, hvað sem veldur. Má vera, að því valdi símaslit.

Þessi fjölskylda hefir ekki þegið af sveit ennþá, hefir ekki viljað gera það, og barist fyrir lífinu með fágætum dugnaði. Til þess að þessi fjölskylda væri ekki neydd til að leita á náðir sveitarinnar, tóku tólf bændur sig saman í haust leið um að klæða sitt barnið hver. Þetta er dæmi, sem sýnir, hvernig þessi fjölskylda þreytir róður við erfið lífskjör, og frá mínu sjónarmiði skoðað er barátta hennar verð fylstu viðurkenningar og rjettnefnt afreksverk.

Það var einhver hjer að tala um, að nefna mætti ótal dæmi af þessu tægi og væri ekki gott að segja, hvar yrði staðar numið, ef lagt væri út á þá braut að veita slíka styrki sem þessa. Jeg held, að þessi dæmi, eins og jeg hefi nefnt, sjeu ekki mörg, þótt þau kunni að vera nokkur. Að minsta kosti er þetta heimili hrein undantekning þar, sem jeg þekki til.

Fari svo, að mín till. verði feld, mun jeg greiða atkv. með till. fjvn. um, að styrkurinn til hjónanna í Hítardal falli niður. Þörfin er sjáanlega ennþá meiri hjá þeim manni, er jeg ber hjer fram á bænarörmum, og hefir hann háð þá baráttu, að í mínum augum er hann hreint og beint afreksmaður.

Jeg vil beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann beri till. mína undir atkv. á undan till. nefndarinnar, þar sem jeg get ekki ákveðið mig gagnvart henni að öðrum kosti. Mun jeg að sinni ekki teygja tímann lengur, og lýk því máli mínu.