22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í C-deild Alþingistíðinda. (2803)

138. mál, happdrætti

Jakob Möller:

Jeg skal strax taka það fram, að jeg get ekki fallist á, að mál þetta verði látið ganga umræðulaust til 2. umr. Jeg skal heldur ekki fara í neina launkofa með það, að jeg er því mótfallinn, að frv. nái fram að ganga, og helst ætti það alls ekki að komast í nefnd. Fyrst og fremst er það borið fram á, mjög óviðeigandi hátt. Það er framkomið eftir þann tíma, sem í öndverðu var búist við að þingi yrði slitið, og hefir þurft að leita tvöfaldra afbrigða til þess að það hafi mátt koma til umræðu. Í öðru lagi var málið svo vaxið, að það er fyrst og fremst fyrir aðra menn en okkur. Það er fyrst og fremst fyrir þá útlendinga, sem hafa löngun til að braska með fje sitt í fjárglæfrum, og ætla nú að nota nafn Íslands, sem er auðvitað lítið þekt úti um heiminn, og stofna hjer til fjárhættuspils. Við getum auðvitað verið þakklátir fyrir hverja þá viðleitni, sem fer í þá átt að gera Ísland þekt að góðu, en jeg held, að orðrómurinn um þetta verði okkur hvorki til gagns nje sóma, heldur beinlínis til, niðurlægingar. En hversvegna koma þeir til Íslands til að stofna til þessa fjárhættuspils? Það er af því, að þeir fá það ekki annarsstaðar. Það er að minsta kosti víða svo, að löndin líða ekki svona fyrirtæki hjá sjer, þrátt fyrir ágóðann, sem af þeim mætti hafa. Og það skal jeg viðurkenna, að laglega er hjer beitt á önglana, þar sem svo er ákveðið, að ágóðinn skuli renna til styrktar sjávarútvegi og landbúnaði. Það er svo sem engin furða, þó þorskurinn vilji gleypa við þessu, enda líst mjer svo á, að hann ætli að gera það. En jeg vildi þó, að hann gleypti þetta ekki svo, að hann fái ekki fyrst vitneskju um, hvað hjer er á seiði og hverskonar þessi beita er. Það er alveg víst, að það á ekki að fara að gefa Íslendingum neitt. Eða halda menn, að þeir, sem að þessu standa, ætli að fara að leggja skatt á menn hjer til þess eins að gefa okkur skattinn aftur? Jeg held, að við þurfum ekki á slíkri hugulsemi að halda. Að minsta kosti finst mönnum, að hið háa Alþingi hafi hingað til haft fulla einurð á að hækka skattana á borgurunum, án slíkrar aðstoðar. Það er mesti óþarfi að neyta nokkurra bakbragða í því efni. Fje þetta er auðvitað tekið úr vasa landsmanna, eins og aðrir skattar. Og enginn vafi er á því, að eins mikið selst hjer innanlands eins og tekjumar af því verða fyrir ríkissjóð. En allur ágóðinn fram yfir þessi 10%, sem renna eiga til ríkisins, fer út úr landinu. Hreyfingin, sem á fjeð kemst með þessu móti, leitar út, en ekki inn í landið. Og synd væri að segja, að menn úti um lönd vanhagaði um tækifæri til að leggja fje í svona fyrirtæki. Allir muna að minsta kosti eftir Det Danske Kolonial Klasse-lotteri og enn fleiri slíkum, sem tilboðum rignir frá með hverjum pósti. Það má því búast við, að markaðurinn fyrir þetta fyrirtæki yrði lítill nema hjer, og þá sjá menn, hver hinn raunverulegi vinningur fyrir landið yrði af þessu. Og ekki yrði meira keypt erlendis fyrir það, að vinningarnir eru í íslenskum peningum, en það vita menn út um heim yfirleitt ekki hvað er, og geta tæplega leitað sjer upplýsinga um, þar sem íslenska krónan er vitanlega hvergi skrásett, Þegar Danir stofnuðu sitt „lotteri“, ákváðu þeir að hafa vinningana í þektari mynt en þeirra peningar eru, frönkum, og er þó ólíku saman að jafna, hvað dönsk króna, þó hún sje ekki mikils metin, er þektari en íslenska krónan. Að öllu athuguðu verður ekki annað sjeð en að með þessu fyrirtæki sje aðeins til þess ætlast að hafa fje af okkur, enda er það skýrt tekið fram, að leyfishafar megi selja leyfið hverjum sem er. Það var talað um „brask“ í sambandi við frv. það um stofnun nýs banka, sem jeg bar hjer fram á síðasta þingi. Það var óverðskuldað. Þar var að ræða um fyrirtæki, sem átti eingöngu að starfa fyrir landið og aðalágóðinn, ágóðinn af starfseminni, að renna til landsmanna sjálfra. — Þessir menn ætla ríkinu 10%, en sjálfum sjer aðalágóðann, hvort sem hann verður 20% eða meir. Nei! Jeg held, að við ættum að þakka þessum herrum fyrir gott boð og segja þeim að fara heim til sín.