22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í C-deild Alþingistíðinda. (2804)

138. mál, happdrætti

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) fanst það mjög vafasamt, hvort rjett vær að sýna frv. þessu þá virðingu að lofa því að fara til nefndar. Jeg skal ekki deila lengi við hv. þm. (JakM) um þetta, en læt mjer nægja að minna hann á, að þetta mál var borið fram á þinginu 1912 af ýmsum ágætum mönnum og fjekk þá að öllu þinglega afgreiðslu og var afgreitt sem lög frá Alþingi með miklum atkvæðamun. Jeg held því, að hv. deild geti vel sætt sig við að sýna því að minsta kosti þann sóma að lofa því að fara til nefndar nú, þegar það er lagt fyrir þingið í annað sinn. Í fyrra sinnið var málið hindrað af Dönum, og því engin ósvífni að hreyfa því aftur nú, ekki síst þar sem frv. er að öllu leyti betra nú fyrir ríkissjóðinn en það, sem samþ. var 1912.

Þá skal það tekið fram, að flm. rígbinda sig ekki við frv. og munu fúsir taka öllum þeim bendingum og þeim brtt., sem þeir sjá, að horfi til bóta. Og vilji menn t. d. fremur, að ríkið reki þetta happdrætti, þá er hægur nærri að koma með brtt. um það. Reynist svo, að salan verði mest innanlands, þá er auðvitað, að fyrirtækið á að vera innlent. En sje til hins ætlast, að salan verði mest erlendis, þá næst vafalaust betri árangur, ef leyfið er selt útlendingum. Það er af þessari ástæðu, að flm. hafa í frv. bundið sjerleyfið við einstaka menn, sem gert hafa tilboð.

Annars hafa engar mótbárur komið fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv., sem hann ekki gæti komið að í brtt. Og jeg get vel búist við því, að flm. yrðu talhlýðnari gagnvart þeim brtt. en hann máske grunar sjálfan. En að hjer sje nokkur beita á ferðinni til að veiða Íslendinga í hendur útlendinga, það er auðvitað fáránlegur misskilningur. Það er tilgangur flm. með frv., en ekki beita, að ágóðinn af fyrirtækinu renni til sjávarútvegs og landbúnaðar, og jeg efast um, að hv. 3. þm. Reykv. sje alvara, þegar hann gefur í skyn, að tilgangur flm. sje að svíkja landið í hendur útlendinga til þess að hafa fje út úr landsmönnum.

Að öðru leyti óskaði jeg í byrjun eftir því, að ekki yrði farið að stofna til langra umræðna nú við 1. umr., og held jeg enn við það, að aðalumræður megi alveg eins dragast til 2. umr. Hv. 3. þm. Reykv. hefir líka fært sönnur á það, því hann hefir ekki fært fram neitt í þessu máli, sem ekki mætti eins koma að við 2. umr.